Skuldbreytingar vegna loðdýraræktar
Fimmtudaginn 08. febrúar 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegur forseti. Ég held að við þurfum ekki að lengja orðræður hér á Alþingi hvað það snertir að vandi loðdýraræktarinnar er orðinn mikill og langvinnur. Auðvitað hefði fyrir lifandi löngu þurft að taka þannig og fastara á málum að fram úr þeim vandræðum yrði rist. Eitt er það sem allt of lengi hefur gerst, að menn hafa velkst í vafa um það hver framtíðin yrði og hver stuðningur stjórnvalda yrði. Hafa jafnvel verið gefnar vonir og væntingar um hluti sem síðan hefur gengið seint og illa að framkvæma. Og það er m.a. ein ástæðan fyrir því að ég hef ekki verið ginnkeyptur fyrir því og ekki stutt það að mönnum yrðu gefin fyrirheit um greiðslur jöfnunargjalds á fóður sem ekki væru örugglega innstæður fyrir til að efna. Ég vildi frekar geta haft það á hinn veginn, að þegar þau mál eru komin fram og dýrafjöldinn liggur endanlega fyrir, þá sé hægt að hafa gjaldið hærra, ef eitthvað er, en búið var að segja mönnum að örugglega yrði. Ég vil frekar hafa óvissuna á þann veginn en hinn. Það er nóg komið af því að síðan komi menn aftur nokkrum mánuðum seinna og segi: Við vorum hafðir að fíflum, við vorum plataðir til að halda áfram út á vonir um einhvern stuðning eða einhverja aðstoð sem síðan hefur ekki verið staðið við. Það verða þá aðrir að standa fyrir þeim efnum. Það er nóg komið af slíku af minni hálfu. Ég vonast til þess, eins og ég sagði, að unnt verði að endurskoða upphæð þessa fóðurgjalds núna strax í þessum mánuði þegar endanlega liggur fyrir hver fjöldi dýra verður á fóðrum. Ég get upplýst að þegar er orðinn þar mjög mikill samdráttur. Samkvæmt nýjustu upplýsingum sem ég hef undir höndum, sem gætu þó verið orðnar úreltar, voru um 46 þús. minkalæður á lífi núna upp úr áramótum í staðinn fyrir 72 þús. sem voru á fóðrum á síðasta ári og 5400 refalæður í staðinn fyrir 7000 sem voru á fóðrum á síðasta ári. Það er því auðvitað þegar ljóst að hér er orðinn verulegur
samdráttur en hver hann verður að endingu skýrist á næstu vikum og þá munu upphæðir fóðurjöfnunargjaldsins verða endurskoðaðar og ég mun að sjálfsögðu reyna þá að tryggja viðbótarfjármagn til þess að greiða slíkt gjald út árið.
    Ég vona svo að að öðru leyti hafi þessi svör verið fullnægjandi fyrir hv. fyrirspyrjanda og ég undirstrika það að lokum að ég geri ráð fyrir því að þetta mál hafi þann framgang að í lok mánaðarins liggi í öllum aðalatriðum fyrir niðurstöður hvað þetta snertir.