Skuldbreytingar vegna loðdýraræktar
Fimmtudaginn 08. febrúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Stefán Valgeirsson):
    Virðulegi forseti. Ég gat ekki annað lesið af svörum hæstv. landbrh. áðan en að það væri engan veginn víst að staðið yrði við að útvega viðbótarfé þannig að út þetta ár mundi standa niðurgreiðsla á fóðri sem hefði svipað verðgildi og var á sl. ári. En ég vil í þessu sambandi minna á að það er einmitt tekið fram í bókun hæstv. ríkisstjórnar þann 28. nóv. að það verði gert. Landbúnaðarnefndir beggja deilda voru sammála og stóðu fyrir hönd allra flokkanna að þessu frv. eins og það er. Hæstv. ráðherra hefur sjálfur í ræðu sinni sagt að auðvitað verði staðið við að útvega viðbótarfjármagn en svo gat ég ekki skilið annað núna en það væri eitthvert vafaatriði. Ég vildi fá skýringu á því.