Skuldbreytingar vegna loðdýraræktar
Fimmtudaginn 08. febrúar 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegi forseti. Ég vil svara hv. þm. Stefáni Guðmundssyni þannig að ég tel mig ekki hafa brotið gegn vilja Alþingis, a.m.k. ekki gegn vilja fjvn. Og ég vek athygli manna á því að fleiri nefndir hafa hér hlutverki að gegna í þinginu en landbn. Hv. fjvn. var að sjálfsögðu kynnt staðan hvað snertir þetta jöfnunargjald og í fjárlögunum eru ekki fjárhæðir til þess að greiða meira og reyndar tókst nú ekki betur til en svo að það láðist að setja þessa upphæð inn í fjárlögin. Það er að sjálfsögðu hlutur sem verður leiðréttur með aukafjárveitingunni og/eða fjáraukalögum ef slíkt kemur til. Það eru ekki í hendi tryggar fjárveitingar til þess að greiða í raun og veru nema 45 millj. kr., annars vegar vegna ríkisstjórnarsamþykktar og hins vegar vegna skuldbindinga Framleiðnisjóðs. Ég stend við það. Ég mun beita mér fyrir því af öllum mætti að sækja það fé sem á vantar til þess að greiða jöfnunargjald á fóður svipað að verðgildi miðað við óbreyttar aðstæður, verð á skinnum og annað slíkt, en breytilegt eftir því sem slíkt kann að breytast út þetta ár. En ég vil ekki senda út skrifleg loforð til manna um hluti sem ekki er alveg öruggt að hægt sé að standa við. Þess vegna vil ég frekar fara þá leið að endurmeta fóðurgjaldið og það verður gert núna í þessum mánuði. Það er auðvitað mjög hægur leikur að leiðrétta það eftir á þannig að útkoman á ársgrundvelli verði sambærileg hvað verðgildi snertir auk þess sem fóðurnotkunin er auðvitað langminnst á þessum mánuðum þannig að það kemur síður við bændur en verður síðar á árinu.