Ofbeldi í myndmiðlum
Fimmtudaginn 08. febrúar 1990


     Flm. (Guðrún Agnarsdóttir):
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um könnun á ofbeldi í myndmiðlum. Flm. hennar eru þingkonur Kvennalistans. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela menntmrh. að láta kanna sérstaklega tíðni og tegund þess ofbeldis sem sýnt er í dagskrá Ríkissjónvarps, Stöðvar 2, í kvikmyndahúsum og á þeim myndböndum sem eru á boðstólum í myndbandaleigum. Könnunin skal einkum beinast að líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi, þar með töldu klámi. Einnig að láta fara fram könnun á því hve mikið börn hér á landi horfa á sjónvarp, kvikmyndir og myndbönd og hvað þau horfa á. Enn fremur skorar Alþingi á menntmrh. að beita sér fyrir því að dregið verði verulega úr því ofbeldi sem börnum og öðrum er sýnt í sjónvarpi, kvikmyndum og á myndböndum.``
    Þegar þessi tillaga var síðast hér á dagskrá, þá var einnig á dagskrá skýrsla um málræktarátak. Þar spunnust umræður um mikilvægi þess að talsetja erlent myndefni í sjónvarpi, sérstaklega það sem væri ætlað börnum og einnig að efla innlenda dagskrárgerð á barnaefni. Rætt var um það að hér þyrfti að koma á barnvinsamlegu samfélagi og minntist hæstv. menntmrh. einmitt á það. Þessi þáltill. er einmitt lóð á þá vogarskál. Hún er skref í þá átt að koma á barnvinsamlegra þjóðfélagi en hér ríkir nú.
    Mörgum ógnar vaxandi ofbeldi í umhverfi okkar og daglegu lífi. Ofbeldi tekur á sig margvíslegar myndir. Það beinist oft gegn börnum og konum sem ofbeldi á heimilum og kynferðisleg misnotkun. En það eru ekki einungis hinir fullorðnu sem beita ofbeldi. Börn og unglingar beita því einnig gagnvart öðrum börnum, t.d. með einelti, en líka gagnvart fullorðnum eins og nýleg dæmi eru um. Og mig langar að vitna, með leyfi forseta, í grein sem skrifuð er af Kristjáni Sigurðssyni sem er fyrrv. forstöðumaður Unglingaheimilis ríkisins en núverandi skólastjóri skóla Unglingaheimilisins. Hann segir í grein í Morgunblaðinu 16. nóv. sl.:
    ,,Ég sé tvennt sem hefur gjörbreyst í átökum unglinga frá fyrri tíð. Annars vegar er orðið áberandi að hópur unglinga níðist á einum af hrottaskap og miskunnarleysi, andlega og líkamlega, svo að stór meiðsl hljótast af. Hins vegar að hnífar eru notaðir í átökum unglinganna. Í fyrstu aðallega sem varnarvopn en virðast vera meir og meir notaðir til að ógna og gera árás.`` Hann segir enn fremur síðar: ,,Það var ekki fyrr en ég kynntist náið leikvöllum
grunnskólanna eftir 1970 að ég fór að sjá alvarlegt einelti, en einelti lýsir sér í því að hópur ræðst á einstakling, andlega eða líkamlega, og misþyrmir honum. Ég hef rökstuddan grun um að þetta vandamál sé útbreitt á leikvöllum skólanna og sé gróðrarstía og undanfari misþyrminga meðal stálpaðra ungmenna.``
    Ég vil líka vekja athygli á því að mörg þau ofbeldisverk, það götuofbeldi sem hefur verið vitnað til í blöðum nýlega, það er einmitt oft unnið ekki

endilega af unglingunum, heldur af ungum mönnum, í langflestum tilvikum, sem e.t.v. eiga sér forsögu sem má rekja til þess sem þessi reyndi skólamaður lýsir.
    Rætur ofbeldis eru auðvitað margslungnar og þær eru samofnar gerð samfélagsins og sprottnar af lífsháttum þeirra sem það byggja. Óhóflega langur vinnutími og meira vinnuálag en gerist meðal nágrannaþjóða okkar leiðir til fjarvista íslenskra foreldra frá heimili og aukinnar streitu þeirra en vaxandi fjöldi heimila þarfnast vinnuframlags tveggja til framfærslu. Börnin þurfa oft að hafa ofan af fyrir sér sjálf, jafnvel frá unga aldri. Í skólaskýrslum úr Reykjavík frá 1975 kemur fram að 40% 7--12 ára barna voru meira eða minna ein heima á daginn. Aðstaða einstæðra foreldra til að sinna börnum sínum er þó til muna erfiðari en annarra. Fram kemur t.d. í skýrslu landæknis, Mannvernd, frá því í desember 1987 að um fjórðungur barna einstæðra foreldra 7 ára og yngri og um 64% 7--12 ára barna gangi sjálfala á daginn.
    Mörgum ógnar hve fjölmiðlar skipa stóran sess sem afþreying barna. Einkum hafa menn áhyggjur af því að mikil sjónvarps- og myndbandanotkun geri börn að óvirkum þiggjendum og margir óttast neikvæð uppeldisáhrif þess efnis sem þannig berst að ómótuðum barnshugum. Sjónvarp, myndbönd og kvikmyndir flytja ofbeldi í auknum mæli, bæði í fréttum af átökum og styrjöldum og líka í leiknum myndum þar sem einstaklingar beita hvor annan grófu ofbeldi í návígi. Er skemmst að minnast voðaatburða á erlendum vettvangi, sem hafa þrásinnis komið fyrir, þar sem geðveilir menn eða áhrifagjarnir hafa ruðst fram með alvæpni, að hætti Rambós, í friðsömum bæjarfélögum og orðið fjölda manns að bana. Á heimili slíkra manna hefur fundist mikill fjöldi ofbeldismynda og vopna sem þeir hafa haft dálæti á. Ég vil minna hv. þm. t.d. á atburðinn í Hungerford á Bretlandi þar sem maður réðst að sextán öðrum og deyddi þá áður en hann fyrirfór sjálfum sér í kjölfar þeirra atburða. Mig langar að vitna í blaðagrein eða litla tilkynningu sem ég klippti út úr blaði 1987, en þar stendur, með leyfi forseta:
    ,,Eftir atburðina í Hungerford í sumar hefur breska ríkissjónvarpið BBC
frestað sýningu nokkurra mynda sem innihalda meira ofbeldi en góðu hófi gegnir.`` Ég verð að skjóta því inn hér, ég skil ekki hvers vegna því var frestað. Hvað gat réttlætt að taka þær til sýningar síðar? En ég held áfram að vitna: ,,Með ákvörðuninni um að taka fyrrnefndar myndir af dagskrá fetar ITV``, en það er sjónvarpsstöð sem líka er í Bretlandi, ,,í fótspor BBC þótt látið sé að því liggja að myndir þessar kunni að verða sýndar á næsta ári þegar mesti tilfinningahitinn vegna atburðanna í Hungerford er liðinn hjá.``
    A.m.k. er þarna um örlitla viðleitni að ræða og ég veit til þess að a.m.k. BBC lét fara fram könnun á ofbeldi í sjónvarpi í kjölfar þessara atburða. Ég veit hins vegar ekki um niðurstöðu þeirra kannana. En þetta gefur aðeins vísbendingu um að mönnum hefur

brugðið og þeim hefur þótt ástæða til þess að bregðast við, sérstaklega þegar finnst á heimili manns eins og þessa ógrynni af ofbeldiskvikmyndum og ýmsar tegundir vopna.
    Tæknin hefur fært okkur tölvuleiki sem eru vinsælt tómstundagaman en margir þeirra byggjast einmitt á herskáum baráttu- og samkeppnisleikjum. Stríðsleikföng eru seld af fjölbreytilegri gerð og eru oft svo eðlilegar eftirlíkingar af raunverulegum fyrirmyndum sínum að glæpamönnum tekst að blekkja fórnarlömb og lögreglu með leikfang að vopni. Vandinn er oft sá að ofbeldisáhrifin verða alvarlegust á þá sem veikastir eru fyrir og hafa minnstan stuðning hjá uppalendum sínum og umhverfi. Allt of oft eru börnin ein með hugsanir sínar og skilning á því sem þau sjá án þess að vinna úr því og tala um það sem þau sáu og heyrðu. Mikið af myndefni því sem börn horfa á er á ensku og þar sem tími til mannlegra samskipta er oft allt of naumur gefst mörgum börnum of lítill tími til að tala við fullorðið fólk og þjálfa þannig móðurmál sitt. Komum við nú aftur að erindi málræktarskýrslunnar.
    Tilfinningaleg áhrif slíks afskiptaleysis geta orðið börnum alvarleg og valda mörgum foreldrum stöðugri sektarkennd. Kennarar hafa jafnframt veitt því athygli á síðustu árum að kunnátta grunnskólanema í íslensku fer minnkandi, bæði hvað varðar orðaforða, málfæri og stafsetningu. Öryggisleysi og vanmáttur barna sem eru tilfinningalega vanrækt og vanþroska í samskiptum við aðra og eiga auk þess erfitt með að tjá sig vegna þess að þau hafa takmarkað vald á móðurmáli sínu getur verið mikið. Hvort tveggja getur valdið innibyrgðri reiði og orðið til þess að þau bregðast við andstreymi eða jafnvel smávægilegu mótlæti með ofbeldi. Ofbeldi er iðulega sýnt sem eina leiðin til að leysa vandamálin og ofbeldið er oft slitið úr samhengi við þau áhrif sem það raunverulega hefur. Afleiðingar þess eru í raun ekki sýndar. Oft eru það hetjurnar og þá karlhetjurnar sem beita ofbeldi til að koma á reglu, stundum jafnvel réttlæti og friði. Almenn áhersla fréttanna á stríð og ofbeldi er slík að hún er líkleg til að valda verulegum ótta barna við framtíðina. A.m.k. nokkuð brenglaðri sýn á heiminn. Ég minni á það hve títt ung börn eru drepin í Palestínu nú á dögum og hefði betur utanrrh. ekki verið á förum út úr deildinni. Þá hefðum við getað rætt það örlítið meira.
    Lokaniðurstaðan er reyndar sú að börnin vita mun meira um átök, ofbeldi og stríð en um frið og máltækið segir: Það læra börnin sem fyrir þeim er haft. Við getum ekki unað því að börn alist upp við þá heimsmynd að ofbeldi sé eðlileg, viðurkennd og réttlætanleg leið til að leysa vandamál og ná sínu fram. Það eru réttindi barna að vera vernduð gegn ofbeldi. Hér áður þótti ekki hæfa að hafa ljótt fyrir barni. Meira að segja þótti ekki við hæfi að tala ljótt í návíst þungaðrar konu.
    Það eru einnig réttindi barna að fá sjónvarpsefni við sitt hæfi á vönduðu íslensku máli en hér er skammarlega lítið um slíkt í sjónvarpi. Það er í raun ótrúlegt hve kærulausir foreldar og ráðamenn hafa

verið gagnvart þeim áhrifamikla og sterka fjölmiðli sem sjónvarpið er.
    Flm. telja nauðsynlegt að gera kannanir á því hvernig og hve mikið ofbeldi er sýnt í sjónvarpi og öðrum myndmiðlum hér á landi. Stöð 2 hafði nýlega sýningar á klámmyndum undir því yfirskini að hér væri um kærkomið afþreyingarefni að ræða. Þessar myndir var að sjálfsögðu hægt að taka upp á myndbönd og þannig gátu þær eða í beinni sýningu verið aðgengilegar börnum. Auk þess sem klám er niðurlægjandi fyrir konur er vaxandi tilhneiging hjá framleiðendum slíkra mynda að tengja þær ofbeldi. Ég vil geta þess að eftir að þessi þáltill. var lögð fram hefur saksóknari kært þessar sýningar og málið er nú til meðhöndlunar hjá saksóknara ríkisins.
    Slíkar kannanir krefjast þess að ofbeldið sé skilgreint. Það getur vafist fyrir mönnum en það er nauðsynlegt til þess að vekja umhugsun um og útiloka ofbeldi. Hlutverk Kvikmyndaeftirlits ríkisins er m.a. fólgið í því að skilgreina og útiloka ofbeldi en starfsmenn þess hafa um margra ára skeið unnið afar mikilvægt starf þrátt fyrir mjög þröngan fjárhag og bágborinn tækjakost. Brýna nauðsyn ber til að veita raunhæfar fjárupphæðir til rekstrar þessarar starfsemi og stjórnvöld bera bæði ábyrgð og skyldur í þessum efnum. Þeim ber að framfylgja lögum um bann við ofbeldiskvikmyndum nr. 33/1983 og þeim ber í víðtækum skilningi að standa vörð um þau réttindi barna að vera vernduð gegn ofbeldi. Og ég vil geta þess og vitna í greinargerð frá
Kvikmyndaeftirlitinu að eftir að lögin um bann við ofbeldismyndum gengu í gildi hefur Kvikmyndaeftirlitið bannað um það bil 100 kvikmyndir sem samkvæmt skilgreiningu laganna teljast ofbeldismyndir.
    Helsti ávinningur af setningu þessara laga var sá að innflutningur grófra ofbeldismynda snarminnkaði og jafnt framleiðendur ytra sem innflytjendur hér heima vita af þessum lögum og reyna að halda sig innan löglegra marka. Svipuð löggjöf var sett víða um Vesturlönd um sama leyti. Einnig er vert að minna á það --- og nú er hæstv. utanrrh. genginn í salinn en þetta mál varðar hann líka --- að það er ljóst að þegar landamæri innan Evrópu opnast, tollgæsla leggst af, fjölþjóðasjónvarp nær yfir lönd og álfur, þá þarf sameiginlegar alþjóðareglur um það myndefni sem dreift er. Það þarf að vinna í þá veru að taka mið af þeirri löggjöf sem þegar hefur verið sett einmitt víða á Vesturlöndum, sérstaklega á Norðurlöndum, til þess að banna ofbeldismyndir. Ég vil benda á það líka að slík vinna er í gangi hjá Evrópuráðinu og vekja athygli hæstv. ráðherra á því.
    Það er nauðsynlegt einnig að vekja upp umræðu meðal barna og unglinga og forráðamanna þeirra, umræðu sem skírskotar til ábyrgðar og hvetur til aðgerða. Ég vil vekja athygli á því að þann 10. nóv. sl. var haldinn landsfundur um slysavarnir sem fjölmörg samtök stóðu að. Þar voru umræðuhópar á ráðstefnunni og m.a. var rætt um ofbeldisslys en erindi hafði verið flutt um þau á ráðstefnunni. Þetta

var 26 manna hópur sem kaus að sitja og ræða um þessi mál, mjög margt skólafólk, hjúkrunarfræðingar, lögreglumenn og aðrir sem hafa afskipti af unglingum og átökum þeirra. Margar athugasemdir komu fram. Flestar miðuðu að því að styrkja unglingana, að styrkja heimili þeirra, að hvetja forráðamenn til þess að hafa áhrif á opnun skemmtistaða og söluturna af ýmsu tagi. Þarna komu einmitt fram mjög jákvæðar athugasemdir og umræða um aðgerðir þar sem unglingarnir höfðu verið virkjaðir til þátttöku til að rækta það samfélag sem þeir bjuggu í og það hafði gerbreytt tíðni götuofbeldis í þeim hverfum þar sem áður hafði sést slíkt ofbeldi.
    Ég er að ljúka máli mínu, hæstv. forseti. Nýleg aðgerð, unglingar gegn ofbeldi, var lofsvert framtak sem tók einmitt á mörgum þessara þátta, hvatti unglinga og aðra til umhugsunar og til þess að taka afstöðu gegn ofbeldi. Það er jafnframt mikilvægt að leggja áherslu á að foreldrar og aðrir uppalendur fylgist vel með því sem börn horfa á í sjónvarpi og séu reiðubúnir að ræða við börnin um það sem þau upplifa.
    Flm. vona að þessi tillaga megi stuðla að því að vernda börn gegn óhóflegu ofbeldi í umhverfi sínu.
    Að lokinni umræðu vil ég leggja til að þessi tillaga verði send til hv. félmn. Sþ. en ég hefði mikinn áhuga á að heyra skoðanir og viðbrögð hæstv. menntmrh. því að hér er einmitt verið að skora á hann.