Ofbeldi í myndmiðlum
Fimmtudaginn 08. febrúar 1990


     Ásgeir Hannes Eiríksson:
    Virðulegi forseti. Það eru því miður oft einkenni á góðum málum að fáir eru í salnum þegar þau eru flutt, en það ber að þakka að vakin sé athygli á þessu máli, sérstaklega. Og mig langar að vera svolítið heimilislegur og segja frá því að ég fór með dóttur minni á skemmtun í skólanum hennar í fyrra þar sem 12 ára börn voru með skemmtiatriði og eitt af skemmtiatriðunum var að þau voru með spurningar, spurningakeppni. Það voru 20 spurningar og allar spurningarnar tengdust á einn eða annan hátt sjónvarpi eða sjónvarpshetjum. Ég veit ekki hvort þetta er einkennandi fyrir krakka á þessum aldri en alla vega sló þetta mig þannig að það fór ekki á milli mála hvar nafli alheimsins er hjá þessum krökkum. Það er skjárinn. Það er því ekki svo lítið mál hvað birtist á þessum skjá.
    Nú er ég ekki reiðubúinn til þess að stokka upp og sortera hvað fólk á að sjá og hvað ekki, en ég veit að Kvikmyndaeftirlitið er í mjög góðum höndum. Ég þekki þar til. Ég hef hins vegar kannski fylgst meira með þjóðlífinu í gegnum annan skjá í 10 ár, í gegnum gluggann á pylsuvagninum í Austurstræti, og þar fann maður nákvæmlega sömu viðbrögð. Ég man t.d. eftir að þegar Hólmfríður Karlsdóttir var kosin ungfrú alheimur, þá byrjaði svokallað Hófí-æði í bænum. Þá var alltaf verið að kalla ,,hæ Hófí`` á stelpur. Á sama hátt, þegar Michael Jackson var upp á sitt besta, þá voru krakkarnir að dansa í þeim dúr. Síðan, ef það komu myndir eða tilefni þar sem beitt var ofbeldi, þá kom það greinilega fram. Maður gat fylgst með þróuninni frá því að krakkar og stálpaðir unglingar og allt upp í fullorðið fólk slóst svona heldur karlmannlega, ef svo má segja með hnúum og hnefum, þangað til það fór að sparka og koma aftan að andstæðingnum. Og nú síðustu árin er byrjað að beita vopnum til þess að rista andstæðinginn á hol, hvort sem það eru hnífar, glerbrot,
flöskur eða annað. Allt er þetta nokkurn veginn í takt við þá þróun sem sjónvarpið og myndböndin færa okkur beint inn á heimilin.
    Ástæðan fyrir því að ég kom hérna upp var sú að hæstv. menntmrh. gerði að umræðuefni 1 millj. kr. fjárveitingu sem fjvn. mælti með að veitt yrði til Kvikmyndaeftirlitsins. Við fjölluðum að sjálfsögðu um Kvikmyndaeftirlitið í okkar starfi í fjvn. og okkar skoðun var sú að Kvikmyndaeftirlitið ætti ekki að kosta af almannafé. Kvikmyndaeftirlitið ætti að hafa það rúmar sértekjur að það gæti staðið undir sér sjálft. Og þeirra sértekna yrði aflað með því að rukka þá aðila, innflytjendur og sýnendur myndefnis, sem þurfa á þjónustu Kvikmyndaeftirlitsins að halda. Kúnninn borgi fyrir sig. Við teljum að sá rekstur sem býður upp á myndefnið sé það stæltur að hann geti staðið undir þessu eftirliti sjálfur.