Ofbeldi í myndmiðlum
Fimmtudaginn 08. febrúar 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Það er undarlegur misskilningur hjá hv. 6. þm. Reykv. að ég hafi tekið eitthvað dauflega í þessa tillögu. Málið er ósköp einfaldlega það að það er Alþingi sem lagt er til að afgreiði málið og ég held að það sé einfaldast að Alþingi taki afstöðu til málsins þó að ég væri út af fyrir sig tilbúinn til þess að hefja framkvæmd við þessa tillögu strax í dag. En ég teldi að með því móti væri ég að taka fram fyrir hendurnar á tillögumönnum og þeim sem um málið fjalla hér á hv. Alþingi.
    Ég minntist á peninga til þess að undirstrika það að ég vil að menn viti að það sem verið er að leggja til kostar peninga. Ég vil ekki að hin hörðu gildi og hin mjúku gildi séu aðskilin með stálþili. Ég vil að menn geri sér grein fyrir samhengi hlutanna, jafnvel þótt þeir kosti ekki nema 1--2 millj. kr. eins og þeir kostuðu í þessu tilviki. Það væri mér styrkur við að framkvæma tillögu af þessu tagi ef Alþingi segði: Já, við viljum framkvæma tillöguna og það kostar þetta og við viljum styðja það líka. Það skiptir máli.
    Varðandi það sem hér var komið inn á í sambandi við málefni Kvikmyndaeftirlitsins að undanförnu, þá hefur starfsemi þess verið styrkt, í fyrsta lagi með því að gefa út reglugerð 27. des. sl. um breytingar á öllum skoðunargjöldum Kvikmyndaeftirlitsins, bæði vegna myndbanda og kvikmynda. Þessi gjöld hafa verið hækkuð mjög verulega til þess að standa undir öllum kostnaði við skoðun út af fyrir sig.
    Í öðru lagi hafa verið leyst út tæki sem höfðu legið á hafnarbakka um nokkurra missira skeið sem Kvikmyndaeftirlitið þarf á að halda til sinnar starfsemi og í því skyni eru notaðir þeir fjármunir sem veittir eru úr ríkissjóði á þessu ári.
    Í þriðja lagi hefur verið tekin ákvörðun um vinnufyrirkomulag Kvikmyndaeftirlitsins í einstökum atriðum þannig að það er núna í raun og veru
komið inn á skýra, faglega braut. Menn vita hvernig best er að vinna að málunum þar og ég tel að það sé mjög mikilvægt sem hér hefur komið fram hjá hv. 16. þm. Reykv. að fjvn. hafi rætt um þetta mál sérstaklega, það vissi ég ekki fyrr, og að hún ætlist til þess að Kvikmyndaeftirlitið sé að öllu leyti eða nær öllu leyti kostað af skoðunargjöldum. Fyrst svo er, þá verður það gert.
    Ég þakka, virðulegi forseti, að öðru leyti fyrir þessa ágætu umræðu.