Flm. (Ásgeir Hannes Eiríksson):
    Herra forseti. Ég flyt hér till. til þál. um að Alþingi feli utanrrh. að skipa þegar í stað viðskiptanefnd til að leita nýrra markaða í Austur-Evrópu vegna þeirra breytinga sem þar eru að gerast. Ráðherra skal hafa samráð við samtök útflytjenda á hefðbundinni framleiðsluvöru og einnig huga að nýjum leiðum á sviði þjónustu, ferðamála, orkumála, hugvits og fleiri greina.
    Ástæðan fyrir því að þessi till. er flutt er að sjálfsögðu sú mikla þíða sem núna er í Austur-Evrópu og þeir miklu möguleikar sem blasa við þegar járntjaldið er fallið. Að vísu heyrði ég það á fundi um daginn að þrátt fyrir almenna ánægju í öllum löndum heims með að járntjaldið hafi fallið sé einn hópur manna sem gráti og tregi fall járntjaldsins en það eru íslenskir útflytjendur því að gamla kerfið, þegar verðin voru tekin og metin á pólitískan hátt, hafi verið miklu einfaldara fyrir útflutninginn en núna þegar viðskiptahagsmunir ráða ferðinni. En hvað um það, járntjaldið er fallið og íbúar Austur-Evrópu munu smám saman krefjast þess að fá að njóta sömu lífskjara og íbúar í Vestur-Evrópu, enda er þegar búið að stofna sjóði til að auðvelda Austur-Evrópubúum viðskipti við Vesturlönd. Og ef ég man rétt er hlutur Íslendinga, sem er afskaplega lítill hlutfallslega í þessum sameiginlega sjóði, um 700 millj. kr. Þetta er því enginn smámarkaður sem menn gera ráð fyrir að þarna opnist. Íslendingar verða þess vegna að fylgjast með þessari þróun strax frá upphafi og nú eru liðnir 2 1 / 2 mánuður, að ég held, síðan þessi tillaga var fram lögð. Þá þegar hafði ég spurnir af því að önnur Norðurlönd væru komin í startholur, Danir lagðir af stað með flokk manna, með sveit manna, til þess að kanna hvaða viðskipti þeir geta átt fyrir austan því
að segja má að þessi Austur-Evrópuþjóðfélög séu svona um það bil fokheld miðað við þjóðfélögin í Vestur-Evrópu. Það vantar bókstaflega alla þá hluti sem við teljum vera nauðsynlega í okkar þjóðfélagi, hvort sem þar er um að ræða áhöld og búnað, fæðu, margs konar þjónustu eða eitthvað annað. Þjóðfélögin bíða þarna eftir að komast inn í Vestur-Evrópu í rauninni, komast inn í menningu og komast inn í lifnaðarhætti Vestur-Evrópu, og ef við tökum ekki þátt í að aðstoða þau þangað verða einhverjir aðrir til þess.
    Íslendingar eiga framleiðsluvörur. Íslendingar eiga hugvitsmenn. Við eigum verkfræðinga. Við eigum fyrirtæki á sviði orkuframkvæmda, byggingarframkvæmda, sem hafa haslað sér völl og reynt fyrir sér í öðrum löndum. Við eigum hér marga aðra hópa af fólki sem gjarnan mundu vilja leita fyrir sér í öðrum löndum, á öðrum mörkuðum. Þarna eru að opnast tækifæri. Þarna er að opnast markaður sem er opinn og nýr og næstum því hrár. Það eru ekki bara möguleikar á að selja þangað vöru og þjónustu heldur opnast ýmsir aðrir möguleikar fyrir Íslendinga í kjölfarið ekki bara á viðskiptasviðinu heldur á ýmsum öðrum sviðum í kjölfarið.
    En atburðarásin er mjög hröð og þess vegna vil ég

beina því til hæstv. utanrrh., sem hér er í salnum og hefur sýnt flm. þá kurteisi að hlýða á mál hans, að hendur verði látnar standa fram úr ermum og við missum ekki af strætisvagninum heldur byrjum þegar í stað að kanna á hvern hátt við getum selt vörur okkar og þjónustu austur yfir hið fallna tjald.
    Virðulegi forseti. Að lokum vil ég segja þetta. Ég legg hér til að það verði skipuð viðskiptanefnd til að kanna þessi viðskipti, en forsenda þess að þau geti orðið að veruleika er að útflutningur sé gefinn frjáls. Við eigum öfluga stétt kaupsýslufólks sem hefur hingað til fengist við innflutning að mestu leyti og hefur séð þjóðinni vel fyrir vörum þannig að íslenskir innflytjendur verða aldrei sakaðir um að hér sé vöruskortur. Hér er meira vöruúrval en tíðkast víða annars staðar í sambærilegum eða svipuðum löndum og miðað við fólksfjölda er hér miklu meira úrval af góðum vörum en nokkrum útlendum manni gæti í rauninni dottið í hug. En kaupsýslustétt okkar er nánast verkefnalaus í útflutningi vegna þess að okkar útflutningur er allur í höftum og einokun. Ef við leysum þessi höft og lyftum þessu einokunartjaldi af kaupsýslustéttinni eru allar svona viðskiptanefndir óþarfar í rauninni því að ef kaupsýslumenn fá svigrúm sjá þeir um sig sjálfir. Það er engin hætta á öðru. Og eftir því sem þeir fá meira svigrúm, eftir því sem fleiri leitast við að selja okkar afurðir til annarra landa, þeim mun betri árangri náum við smátt og smátt, pínulítið hér, dálítið þar. Menn sem þurfa að spjara sig sjálfir finna upp á ýmsu til að koma sinni vöru á framfæri. Þeir leita. Þeir fara af stað. Er ekki möguleiki að selja þessari þjóð? Er ekki möguleiki að selja þessu fyrirtæki? Er ekki möguleiki að selja þessum manni eitthvað pínulítið? Og kornið fyllir mælinn. Kornið gerir það í rólegheitunum. En menn sem eru aldir upp við það áratugum saman að sitja hér heima og bíða eftir telexpöntunum að utan koma aldrei til með að vinna nýja markaði. Til þess þarf frelsi.
    Ég vil leyfa mér að mæla með því að till. verði vísað til síðari umræðu og til hv. utanrmn.