Stefán Valgeirsson:
    Virðulegi forseti. Þessi þáltill. var lögð fram hér í hv. þingi 23. nóv. sl. Ég geri ráð fyrir því að hv. flm. mundu ekki hafa lagt þessa tillögu fram í dag eins og breytingar hafa orðið á síðustu vikum í Evrópu. Auðvitað blasir við hvað fyrir þeim vakir. Þeir standa í þeirri trú að Alþb. muni ganga úr ríkisstjórn ef svona tillaga yrði samþykkt. Þetta er fyrst og fremst það. En ég verð að segja að það væri hjákátlegt eins og mál standa í Evrópu ef Alþingi Íslendinga færi nú að samþykkja svona tillögu. Ég lít allt öðruvísi á þetta mál en hæstv. utanrrh. Það kann að vera rétt að því fylgi engin skuldbinding ef forkönnun yrði leyfð. En það felst í því að ef Alþingi Íslendinga mundi samþykkja svona tillögu, að það komi vissulega til greina að við munum samþykkja svona --- ég segi hernaðarmannvirki. Og ég ætla að færa orðum mínum stað.
    Það fór ekkert leynt, og hafa sjálfsagt allir hv. alþm. fylgst með því, að þessi könnun var gerð á Grænlandi. Og hvað var sagt um þann varaflugvöll þar? Það var talað um að þetta mannvirki mundi kosta 50--60 milljarða íslenskra króna. Þeir sem ég hef talað við og hafa vit á þessum málum telja að í því felist að það hafi átt að byggja neðanjarðarbyrgi fyrir svo og svo mikinn flugvélaflota. Öðruvísi geti það ekki verið. Slíkar upphæðir hljóti að byggjast á slíkum framkvæmdum. Og svo er hæstv. utanrrh. að tala um að þetta sé ekkert hernaðarmannvirki. Um hvað er verið að tala hér? Er verið að tala um allt annað en verið var að tala um á Grænlandi? Þegar verið er að tala um öryggismál hér þurfum við ekkert á svona að halda. Við þurfum að hafa varaflugvöll þar sem flestar flugvélar geti sest ef veður eru þannig. Það kostar ekkert himinháar upphæðir og við eigum að hafa manndóm í okkur til þess að gera það sjálfir. Og á næstu árum þurfum við ekki að hafa einn slíkan völl heldur mjög sennilega í hverjum landshluta ef á annað borð verður farið að flytja ferskan fisk í nokkuð miklum mæli á erlenda markaði. En þegar verið er að tala um varaflugvöll fyrir hernaðarbandalag er bara verið að tala um allt aðra hluti. Og hvar á að setja slíkan völl niður?
    Ég verð að segja það að hæstv. utanrrh. hafði hér stór orð og sagði að yfirlýsingar einhverra stjórnarþingmanna um að það fælist í því nokkurs konar
yfirlýsing um að til greina kæmi að við mundum samþykkja slíka byggingu hér væri markleysa. Hann hefur kannski allt aðra siðferðistilfinningu en ég og það er þá gott að það komi fram. Ef ég stæði að því að leyfa slíka forkönnun og hún kæmi þannig út að það væri hægt að koma henni fyrir á sæmilegan hátt án árekstra eða mikillar andstöðu við það landsvæði sem ætti að setja niður, þá væri ég að gefa yfirlýsingu um að ég mundi fylgja því máli fram. Ég held að flestir siðaðir menn mundu ganga þannig til verks. Ég kalla það því nokkuð stór orð þegar hæstv. utanrrh. er að tala um að slíkar yfirlýsingar séu markleysa

þingmanna. Hann má bara passa sig á því að þau ummæli sem hann hefur haft yfir bæði í Vestmannaeyjum og annars staðar verði ekki taldar marklausar yfirlýsingar og að sumir stjórnarþingmanna muni ekki treysta honum fyrir að gera þá samninga sem er verið að ræða um á milli EFTA og EB. Hann gæti vissulega kallað það yfir sig með slíkum málflutningi.
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki hafa þetta öllu lengra. Ég er yfirleitt ekki vanur því að níðast á forseta með tíma. En ég vil bara að endingu segja þetta við hv. flm.: Mannið þið ykkur nú upp í það að taka þessa tillögu til baka eða óska eftir því að það verði sest á hana eins og nú er umhorfs í Evrópu.