Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Ég vil byrja mál mitt á því að hryggja hv. þm. Stefán Valgeirsson með því að flm. munu hvorki verða við þeim tilmælum hans að draga tillöguna til baka né að hún verði söltuð í nefnd eins og þingmaðurinn fór fram á. Ég vil einnig andmæla því að þetta sé lagt fram til þess að skapa óróa innan ríkisstjórnarinnar. Það þarf enga tillögu til þess. Nógur er hann fyrir. Það er náttúrlega athyglisvert að alþýðubandalagsmenn virðast forðast þessa umræðu og ekki ætla að taka neinn þátt í henni. Það væri athyglisvert að heyra sjónarmið þeirra annarra en almennra þingmanna, ráðherranna sjálfra, á tillögu sem þessari og viðbrögðum þeirra ef hún yrði samþykkt. Það eru hins vegar engar líkur fyrir því að við fáum svör við þeim spurningum.
    Ég skil vel efasemdir manna sem hugsa svipað og hv. þm. Stefán Valgeirsson. Ef hann er hræddur um að hér eigi að reisa mannvirki sem inniheldur neðanjarðarbyrgi þá skil ég vel efasemdir manna. En það hvarflar ekki að mér að um slíkt sé að ræða.
    Það er hins vegar ljóst, eins og fram hefur komið, að hæstv. utanrrh. hefur nú rekið í bakkgírinn. Hann hefur marglýst því yfir eða alla vega látið hressilega að því liggja að hann muni heimila þessa forkönnun. Nú er sem sagt búið að reka í bakkgírinn og nokkuð ljóst að hæstv. ráðherra muni ekki á þessu tímabili heimila forkönnunina, nema ef vera skyldi á síðustu dögum næsta þings þegar stjórnarsamstarfi er í raun lokið.
    Ég fer ekki dult með það að hér er um hernaðarmannvirki sem slíkt að ræða á ófriðartímum. Það eru reyndar allir flugvellir í landinu. Ef við álpumst inn í slíka hringrás eru allir flugvellir á landinu orðnir að hernaðarmannvirkjum þannig að það þýðir ekkert að afneita því. Hins vegar hefur hv. 1. flm.
tillögunnar mælt fyrir henni og er óþarfi að vera að endurtaka mikið sem hann sagði. Mig langar að spyrja, af því að hér í þingsal er hæstv. hagstofuráðherra sem hefur m.a. það verkefni að móta atvinnustefnu komandi ára og er að vinna að því, þar sem hér er um mannvirkjagerð að ræða af mjög stórri gráðu sem kostar milljarða á milljarða ofan og skapar væntanlega hundruðum manna atvinnu, hvort hann hefur tekið þetta inn í sína framtíðarstefnu í atvinnumálum Íslendinga. Ég tel, vegna þess að ég hef áhyggjur af því að ráðherra muni ekki heimila þessa forkönnun, að það sé rétt stefna flm. að fara fram á það við Alþingi að það létti þessari byrði af herðum hæstv. ráðherra og taki ákvörðunina fyrir hann.
    Það hefði hins vegar, eins og ég sagði fyrr, verið athyglisvert að heyra álit þeirra alþýðubandalagsmanna á því hvort hér sé um brot á málefnasamningi að ræða eða ekki. En því miður er enginn hæstv. ráðherra þess flokks í salnum. Ef hæstv. utanrrh. ætlar sér hins vegar að bíða eftir einhverjum athugunum, skoðunum eða könnunum í framhaldi af þeim atburðum sem hafa verið að ske í Austur-Evrópu, þá

er náttúrlega verið að kæfa málið og segja að það verði ekki tekin ákvörðun næstu 10--15 árin vegna þess að fyrr held ég að komi varla í ljós hver framþróun mála í Austur-Evrópu verður.
    Hæstv. forseti. Ég tel að þrátt fyrir þá þróun mála sem hefur verið í Austur-Evrópu verði þörf fyrir þennan varaflugvöll, hann verði reistur og ég vona að það verði hérlendis. Til þess að svo megi verða tel ég að það þurfi að heimila þessa forkönnun og ég ítreka að hún er án allra skuldbindinga hvernig svo sem þróunin aftur verður.