Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Í sambandi við þá tillögu sem hér liggur fyrir verð ég fyrst að segja að ég harma það að hæstv. utanrrh. skuli ekki þegar hafa leyft forkönnun varaflugvallar hér á landi. Þessi forkönnun er í sjálfu sér ekkert annað en athugun á hvaða staður væri líklegastur. Það má segja að það sé málefnaleg úttekt á aðstæðum til varaflugvallar og þá með tilliti til lands og veðurfars o.s.frv. En það er í sjálfu sér ekki verið að taka neina ákvörðun um framkvæmdina og auðvitað er ekki hægt að taka ákvörðun um framkvæmdina nema láta slíka forkönnun fara fram þannig að ákvörðunin verði byggð á ítarlegum athugunum sem nauðsynlegt er að gera.
    Ég held að rétt sé að minna líka á það sem ég hef minnst hér á áður, að NATO er varnarbandalag mestu mannréttinda og bestu lífskjara sem til eru á jörðinni. Það er alls ekki hægt að bera þessi tvö hernaðarbandalög saman, NATO annars vegar og einræðisskipulagið hins vegar, og segjast vera einhvers konar sáttasemjari milli réttlætis og óréttlætis. Það er alger barnaskapur og sjálfsblekking. Ég lít á hlutverk Atlantshafsbandalagsins, NATO, sem nokkurs konar lögreglu lýðræðisskipulagsins hér í hinum vestræna heimi, öryggislögreglu fyrir lýðræðisskipulagið. Og lýðræðið er ekki falt, alls ekki. En sem betur fer er einræðið að laga sjálft sig til þessa dagana. Við skulum vona að þeim gangi vel þarna í austri að laga þann hrylling sem það fólk hefur orðið að búa við, sætta sig við að búa í stóru tugthúsi þar sem það getur ráðið hvar það býr, en mannréttindi eru fótum troðin á flestum sviðum. ( Utanrrh.: Það getur ekki ráðið því.) Það getur ekki ráðið hvar það býr, segir hæstv. utanrrh. Hann veit meira um þetta en ég. Þetta er eitt stórt tugthús. Sem betur fer er það að lagast og við vonum að það gangi vel og óskum þeim alls hins besta. Ekki veitir af.
    Það er hræðilegt, ég hef átt þess kost að koma einu sinni þarna austur fyrir tjald. Það eru nokkur ár síðan og maður er bæði sár og reiður enn þá fyrir hönd þess fólks sem verður að sætta sig við að búa við kúgun og ófrelsi, því við hér á Vesturlöndum vitum ekki hvað það er.
    Ég vil enn fremur minna á það, ég hef gert það áður hér í þessum ræðustól, að Alþingi samþykkti fyrir 40 árum með 37:13 atkvæðum, þegar grjóti var kastað hér í Alþingishúsið, að við yrðum aðilar að bandalagi vestrænna lýðræðisþjóða. Þá voru hér dugmiklir menn sem heyktust hvergi. Meiri hluti Alþingis greiddi atkvæði þrátt fyrir grjótkast og mikil læti. Og ég tel að hæstv. utanrrh. sé með þær skyldur á herðunum að fara eftir þessari samþykkt. Þetta er samþykkt þeirra fulltrúa sem þá sátu löggjafarsamkomu þjóðarinnar um
að við séum aðilar að bandalagi vestrænna lýðræðisþjóða þar sem við verjum sameiginlega mestu mannréttindi og bestu lífskjör í heimi. Hæstv. utanrrh. er bundinn af því, að mínu mati, að fara eftir þessari samþykkt. En ef einhver einn stjórnmálaflokkur eins

og t.d. Alþb., sem er andstætt þessari forkönnun, fengi að ráða ferðinni í þessu máli er raunverulega verið að fótum troða þingræðið og vestrænt þjóðskipulag. Það er algerlega fyrir neðan allar hellur.
    Minni hlutinn ræður einfaldlega ekki ferðinni í hinum vestræna heimi yfirleitt, en fyrir austan tjald hefur minni hluti valdhroka manna traðkað á mannréttindum og því sem meiri hluti þeirra þjóða hefur kannski viljað gera. Það er alveg í hróplegu ósamræmi við það sem er að gerast í heiminum ef minnihlutaflokkar eða lítill flokkur hér á Íslandi eins og Alþb. ætlar sér að komast upp með það að ráðskast með þetta mál. Þeir hafa ekkert umboð til þess. Það er andstætt stjórnskipun landsins. Alþingi hefur markað stefnu, hæstv. utanrrh., og það ber að fara eftir þeirri stefnu. Þetta er kjarni málsins.
    Þar fyrir utan er hér um að ræða að mínu mati eitthvert alstærsta hagsmunamál landsbyggðarinnar ef við horfum fram í tímann af þeirri ástæðu að svona stór og fullkominn varaflugvöllur skapar okkur stórkostlega nýja atvinnumöguleika. Það er ósköp einfalt að rökstyðja það. Flugfélag eins og Flying Tigers, sem notar aðallega stórar Boeing-747 vélar, þarf að hafa 20 tonn af eldsneyti aukalega til að hefja sig á loft héðan frá Keflavíkurflugvelli og eins þegar þær lenda vegna þess að næsti varaflugvöllur fyrir slíkar flugvélar er í Skotlandi. En 20 tonn af eldsneyti eru jafnþung og 200 farþegar, rúmlega það, með farangri. Við erum í fluglínunni mitt á milli Evrópu og Bandaríkjanna og það skapar okkur nýja möguleika vegna þess að það kemur nýr rekstrarhagkvæmnispunktur inn í þessa umferð við það að annar völlur verður á Íslandi. Það er ekki hagkvæmt að lenda á Íslandi fyrir þessar stóru flugvélar nema vellirnir séu tveir, tveir fullkomnir vellir. Og það er svo dýrt að reka svona stóra flugvelli með þeim kröfum sem flugfélög gera í dag með tilliti til hópa hryðjuverkamanna og annað sem við heyrum um.
    Ég vil ítreka það að hæstv. utanrrh. er skyldugur til að láta þessa forkönnun fara fram og það sem fyrst og minni aftur á mikla jákvæða möguleika sem við eigum í þessum efnum.