Flm. (Geir H. Haarde):
    Virðulegi forseti. Ég þakka þeim sem tekið hafa til máls við þessa umræðu fyrir þeirra framlag. Ekki síst vil ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir hans upplýsingar hér í þessari umræðu. Ráðherrann hefur m.a. staðfest eftirfarandi:
    1. Alþb. hefur ekki neitunarvald í þessu máli.
    2. Heimild til forkönnunar er ekki brot á stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar.
    3. Forkönnun og framkvæmd eru tvö aðskilin mál og hægt er að taka ákvörðun um forkönnun án þess að nokkuð liggi fyrir um hvort framkvæmdir hefjist síðar meir.
    4. Sá dráttur sem orðið hefur á ákvörðun í þessu máli hefur ekki lokað neinum dyrum fyrir okkur Íslendinga og frekari dráttur, um nokkrar vikur hugsanlega, mundi ekki heldur skaða okkar hagsmuni að þessu leyti til.
    5. Breytingar í starfsemi Atlantshafsbandalagsins og breytingar á varnarstefnu Bandaríkjanna í ljósi nýrra aðstæðna í umheiminum gætu hugsanlega þýtt að hlutverk þessarar stöðvar yrði fyrst og fremst eftirlitshlutverk með afvopnun, með þeim samningum sem gerðir verða á næstunni. Þetta hlutverk yrði síst veigaminna og ekki síður mikilvægt en það sem upphaflega var ráðgert.
    Þetta tel ég að hafi verið mikilvægustu atriðin í máli hæstv. ráðherra þó að að vísu hafi ýmis fleiri atriði komið fram í hans ræðu hér.
    Mig undrar það ekki, virðulegi forseti, að upp skuli koma hér þær raddir að þessi tillaga sé úrelt orðin í ljósi breyttra aðstæðna. En ég saknaði þess að þeir sem því hafa haldið fram skuli ekki hafa haldið því fram jafnframt að hún hafi átt rétt á sér fyrir ári síðan áður en þessar aðstæður komu upp. Auðvitað fagna því allir lýðræðissinnaðir menn að þjóðirnar í Austur-Evrópu
eru að kasta af sér hlekkjum kúgunar og ófrelsis sem þær hafa mátt búa við í stærsta fangelsi veraldarsögunnar á umliðnum áratugum og við eigum að fagna því. Við eigum að bjóða þessar þjóðir velkomnar í samfélag frjálsra þjóða. Og auðvitað hefur okkur aldrei staðið nein ógn af þjóðunum sem þessi ríki, þessi lönd byggja, fólkinu sjálfu. Hættan hefur stafað af þessu botnfalli hugmyndasögunnar, kommúnismanum og því kerfi ófrelsis og kúgunar sem byggt var upp í kringum hann. En núna eru sem betur fer undirstöður þessa skolpræsis, þessa hugmyndafræðilega skolpræsis að hrynja og auðvitað býður það upp á mikil tækifæri fyrir okkur öll, lýðræðissinnað fólk sem vill og fær núna tækifæri til að rétta hinum kúguðu í þessum heimshluta hjálparhönd. Við hljótum auðvitað öll að vona að nú taki við tímar aukins frelsis, mannréttinda, lýðræðislegra stjórnarhátta og markaðsbúskapar í þessum ríkjum.
    Að þessu var vikið lítillega, virðulegi forseti, í umræðum hér um annað mál. Utanrrh. kom inn á þetta í umræðum um annað dagskrármál fyrr í dag.

Ég lýsi mig sammála honum um þessi atriði og ég er sammála þeirri greiningu sem fram kom í máli hans varðandi þetta dagskrármál að þessi framvinda mála í Austur-Evrópu þýðir ekki að Atlantshafsbandalagið eða hinar vestrænu lýðræðisþjóðir eigi að kasta þar með frá sér öllum varnarviðbúnaði samstundis. Það væri auðvitað skammsýni og barnaskapur að haga sér þannig. En við eigum að nota tækifærið til þess að fylkja lýðræðissinnuðum þjóðum til samninga um afvopnun í heiminum og við eigum að byggja slíka afvopnunarsamninga á traustu eftirliti, gagnkvæmu eftirliti, þar sem ekkert má fara leynt sem að þessum málum víkur.
    Mér finnst mjög líklegt, virðulegi forseti, að endurmat á varnarstefnu Atlantshafsbandalagsins leiði í ljós, eins og utanrrh. hefur gefið í skyn, að þörfin fyrir varaflugvöll verði meiri en áður en ekki minni. Hlutverk hans verði að einhverju leyti breytt og verði meira í þágu almenns eftirlits en upphaflega var gert ráð fyrir. Ég bíð í eftirvæntingu eftir því að niðurstöður fáist úr slíku endurmati og skal fúslega veita utanrrh. nokkurra vikna umþóttunartíma í því efni meðan hann bíður eftir frekari upplýsingum og niðurstöðum úr slíkum könnunum. En ég hlýt að gera þá kröfu, virðulegi forseti, jafnoft og þetta mál hefur komið til umræðu hér á hinu háa Alþingi, að að því búnu og fyrir vorið fáist þessi tillaga afgreidd úr utanrmn. og hún fái að koma hér til atkvæða í Sþ. og að allir þeir sem hafa svipaða afstöðu til mála og við hæstv. utanrrh. í þessum efnum sameinist um að veita henni brautargengi.