Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Hv. 17. þm. Reykv. dró saman í skýru og skipulegu máli niðurstöður ræðu minnar hér áðan, gerði það ljómandi vel og ég hef engar athugasemdir við það að gera. Umræðan gefur mér að öðru leyti tilefni til þess að árétta eftirfarandi og fyrst um aðalatriðið: Það hefur engum dyrum verið lokað í þessu máli. Með vísan til ræðu hv. 2. þm. Norðurl. e. vil ég taka það skýrt fram. Fjárveitingin til að standa undir framkvæmd forkönnunar, ef heimiluð verður, stendur óbreytt árið 1990.
    Í annan stað: Er þá eftir einhverju að bíða með þessa ákvörðun? Svarið er já, því miður. Ástæðan er sú að sú endurskoðun sem nú fer fram á heildarvarnaráætlunum og mannvirkjagerð Mannvirkjasjóðs Atlantshafsbandalagsins getur út af fyrir sig, að þeirra eigin sögn ekki minni, breytt forsendum forkönnunarinnar. Hún snýst um þrennt. Hún snýst um frumkönnun sem er öflun upplýsinga. Hún snýst um staðarvalskönnun og hún snýst um verkfræðilega könnun. Og það ræðst af því hvernig þetta mannvirki er hugsað hvernig á þeirri könnun verður haldið. Þannig að ég er ekki að fara með neinar vífilengjur eða blekkingar þegar ég segi: Ástæðan fyrir því að málið hefur dregist er sú að þetta endurmat, þessi endurskoðun fer fram og getur haft áhrif á niðurstöðurnar. Í fyrsta lagi hvort staðið er við áformin, óskirnar um það að forkönnun fari fram og í annan stað með hvaða hætti hún verði. Þetta eru aðalatriðin.
    Ég tók eftir því að hv. 2. þm. Reykv. Birgir Ísl. Gunnarsson gerðist hér spámaður. Hann spáði því að sá sem hér stendur mundi ekki taka þessa ákvörðun hvað svo sem í skærist. Það þótti stórmannlegt hér fyrr á tíð þegar menn gerðust spámenn og sáu fyrir óorðna hluti að þeir legðu nokkuð undir um það að spádómurinn rættist. Ég mundi kannski neyðast til þess að taka meira mark á þessum spádómi ef svo karlmannlega væri við brugðið, t.d. ef hv. þm. vildi leggja undir þingsæti sitt eða svo. Að öðru leyti ætla ég ekki að deila við hann um óorðna hluti. Hann má hafa þessa skoðun sína. Mér þykir hins vegar harla ólíklegt að þessi spádómur hans rætist.
    Örfá orð að lokum um hugtakið markleysa í tilefni af ummælum hv. 6. þm. Norðurl. e. Það var ekki umræða um siðferðileg viðhorf eins eða neins heldur þetta: Sá maður sem segir að heimild fyrir þessari forkönnun sé brot á stjórnarsáttmálanum, hann fer með marklaus orð. Það er markleysa. Um það þarf ekki að deila og kemur engum siðferðilegum viðhorfum við. Þessa forkönnun má heimila án nokkurrar skuldbindingar um framkvæmdir þannig að það kemur þessum stjórnarsáttmála ekki nokkurn skapaðan hlut við.
    Það er svo annað mál og auðvitað öllu þýðingarmeira, að það er afar sennilegt að þeir menn, sem hafa byggt andstöðu sína við þessi áform á hefðbundinni hugsun gegn því að hér skuli rísa hernaðarmannvirki, séu að gera sig seka um

tímaskekkju, en það var orðið sem hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir, hv. 6. þm. Reykv., notaði. Það kynni nú ekki að fara svo að
einmitt þetta mál, hugsanleg bygging varaflugvallar á íslenska flugumsjónarsvæðinu, yrði, þegar tímar líða fram ef af verður, skoðað sem mjög jákvætt framlag til þess að fylgja fram afvopnunarsamningum sem enn hafa ekki verið gerðir, en að mínu mati munu verða gerðir, sérstaklega til þess að fylgja fram samningum um afvopnun á höfunum. Það vill svo til að að frumkvæði þessarar ríkisstjórnar hefur því máli verið hreyft innan Atlantshafsbandalagsins og á alþjóðavettvangi. Meginkjarni þess máls er sá að svo þýðingarmikið og viðurhlutamikið sem eftirlit er með framkvæmd afvopnunarsamninga að því er varðar hefðbundin vopn, þá er það beinlínis lykilatriðið að því er varðar alla hugsanlega samninga um vígbúnaðareftirlit og afvopnun á höfunum. Slíkir samningar yrðu markleysa ef ekki yrði vel og rækilega um hnútana búið, að þeim yrði fylgt eftir í framkvæmd frá öflugri eftirlitsstöð, friðarstöð hér í miðju Atlantshafssvæðinu. Þannig að ég held að það séu aðrir sem þyrftu að taka til endurmats afstöðu sína til þessara áforma einmitt í ljósi þeirrar ánægjulegrar þróunar sem átt hefur sér stað í Mið- og Austur-Evrópu.