Ragnhildur Helgadóttir:
    Frú forseti. Mig langaði til að fá örfáar viðbótarupplýsingar hjá hæstv. utanrrh. Ég hjó eftir því að hann gat þess og auðvitað eðlilega í ræðu sinni hér áðan að heildaráætlun Atlantshafsbandalagsins og Mannvirkjasjóðs Atlantshafsbandalagsins um byggingar mannvirkja kynni að hafa áhrif á niðurstöðu þess máls sem við erum að tala um.
    Það er sérstakur þáttur sem kynni að varða þessa heildaráætlun sem mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra um. Það varðar hugsanlegan alþjóðlegan varaflugvöll í Syðri-Straumsfirði á Grænlandi. Mig langar til að vita um álit hæstv. ráðherra á því hvaða áhrif það hefði á líkur til þess að alþjóðlegur varaflugvöllur yrði byggður hér á landi með þátttöku Mannvirkjasjóðsins ef ákvörðun um slíkt efni stæði fyrir dyrum á Grænlandi og væri líkleg til að vera jákvæð.
    Ástæða þess að ég spyr er sú að eins og hér hefur komið fram lauk forkönnun þess máls að því er Syðri-Straumsfjörð varðar nú í sumar. Mér er kunnugt um, eins og öllum hv. þm. auðvitað er kunnugt um, að stundum hafa komið upp umræður um það að e.t.v. gæti verið val milli þessara staða, þess staðar á Grænlandi og einhvers staðar hér á Íslandi. Ég veit ekki hvort þetta er rétt og mér finnst álit hæstv. ráðherra á því máli skipta miklu.
    Í öðru lagi er mér kunnugt um það að ráðamenn á Grænlandi, a.m.k. forsrh. landsstjórnarinnar, á gott samstarf við ráðamenn hér á landi, a.m.k. hæstv. forsrh. Þess vegna fýsir mig að vita að hve miklu leyti íslenska ríkisstjórnin og þá í þessu tilviki hæstv. utanrrh. hefur tök á því að fylgjast með undirbúningi ákvarðana á Grænlandi að því er þetta mál varðar. Skal ég skýra það sérstaklega af hverju ég spyr um það. Ástæðan er sú að margt bendir til að það sé meira fylgi þar í landi við byggingu slíks mannvirkis en var fyrir nokkrum árum og má vera að þar hafi þegar verið stigin einhver skref frá því í haust. Þar sem ég geri ráð fyrir að hæstv. ráðherra hljóti að fylgjast með þessu með einhverjum hætti, þá langar mig til að hann upplýsi þingheim um það ef svo er, og þá um leið eins og ég sagði áðan, hver tök hæstv. ráðherra hefur á því að fylgjast með framvindu þessara mála á Grænlandi og hvort um eitthvert hugsanlegt samstarf milli ríkisstjórnanna um þessi mál sé að ræða.