Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Hv. 3. þm. Reykv. spyr hvaða áhrif forkönnun á Grænlandi sem þegar hefur farið fram og niðurstöður hennar kunni að hafa á áform Atlantshafsbandalagsins og Mannvirkjasjóðsins á staðarvalið. Hvort sá sem hér stendur hafi einhver tök á því að fylgjast sérstaklega með því máli hvort um er að ræða samstarf milli ríkisstjórnar Íslands og Grænlendinga. Ég hef ekki á hraðbergi aðrar upplýsingar um þetta mál en þessar. Það liggur fyrir að heimastjórnin á Grænlandi hefur þegar heimilað forkönnun. Hún hefur verið framkvæmd aðallega á vegum danskra aðila. Hún er trúnaðarmál í danska stjórnkerfinu, þ.e. mat Dana á niðurstöðunum, þannig að ég hef ekki í höndum óyggjandi niðurstöður um það heldur einungis upplýsingar sem birst hafa opinberlega. Þar á meðal getgátur um það hvaða kostnaðartölur voru nefndar í því efni sem voru mun hærri en áður höfðu verið nefndar.
    Ég geri ekki ráð fyrir því að það geti orðið um að ræða samstarf milli íslenskra stjórnvalda og grænlenskra í þessu efni. Ég mun ekki hafa neina sérstaka aðstöðu til þess að fá upplýsingar um niðurstöður Grænlandskönnunarinnar umfram það sem Atlantshafsbandalagið eða Mannvirkjasjóðurinn mun láta í té. En ætli kjarni málsins sé ekki einfaldlega þessi: Á þessu ári fer fram heildarendurskoðun á langtímaframkvæmdaáætlun Mannvirkjasjóðsins til næstu ára. Það er sú endurskoðun sem ég hef verið að vísa til. Niðurstöður þeirrar könnunar liggja ekki fyrir en hugsanlega gætu þær breytt áformunum, þ.e. óskunum um það yfirleitt að byggja varaflugvöll eða leitt til annarrar niðurstöðu en áður hefur verið gert ráð fyrir varðandi stærð og gerð mannvirkisins. Það gæti því haft áhrif á ákvörðun yfirleitt eða hvort heldur er að því er varðar Grænland eða Ísland.
    Um fjárveitingar er ekkert vitað annað en það að fjárveiting er fyrir hendi á fjárhagsáætlun ársins 1990 til þess að fjármagna könnunina sem slíka. Þessi endurskoðun sem fram fer getur með öðrum orðum breytt fyrri hugmyndum, bæði um staðarvalið, um gerð mannvirkisins, stærð þess og kostnað. Það sem skiptir sköpum er það að fyrir því eru alveg öruggar heimildir að það mun ekki loka neinum dyrum að því er varðar ákvarðanir íslenskra stjórnvalda um að heimila þetta þótt beðið sé fyllri upplýsinga um niðurstöður þessarar heildarendurskoðunar.
    Mér er ekki alveg ljóst hvort þessi svör gefa hv. fyrirspyrjanda nægilegar upplýsingar en ég vona að svo sé, enda tel ég að vísu að umræðan hafi leitt þetta í ljós áður.