Nýtt hús fyrir Alþingi Íslendinga
Fimmtudaginn 08. febrúar 1990


     Flm. (Ásgeir Hannes Eiríksson):
    Virðulegi forseti. Ágæti þingheimur. Ég mæli hér fyrir till. sem er endurflutt um byggingu nýs húss fyrir Alþingi Íslendinga. Ástæðan fyrir því að þessi tillaga var flutt aftur í vetur var sú að þá var lögð fram tillaga um kaup á Hótel Borg undir starfsemi Alþingis.
    Ég er eindregið á móti því að kaupa Hótel Borg undir þingið því að ég vil að einskis sé látið ófreistað til að reka áfram hótel og veitingasölu í því húsnæði. Ég tel að það sé mikið hagsmunamál fyrir deyjandi miðborg Reykjavíkur að hafa hótel og þó svo að húsið sé komið mjög til ára sinna og þurfi að endurnýja, þá veit ég að það eru til veitingamenn sem vilja ráðast í það verkefni, en á meðan Alþingi er að gæla við að kaupa húsið, þá eru eigendur ekki ginnkeyptir fyrir að selja öðrum fyrr en botn fæst í það mál.
    Hugmynd flm. um nýtt hús fyrir Alþingi er sú að reist verði hús sem er nákvæmlega eins og gamla þinghúsið á bílastæðinu þar sem áður stóð hús Góðtemplara við Vonarstræti. Húsin mundu snúa bökum saman inn í garðinn og fallegi Alþingisgarðurinn fengi með þessu móti alveg nýtt hlutverk, að tengja saman þessi tvö hús. Undir nýja húsinu yrði síðan komið fyrir bílageymslu og göng neðan jarðar yfir í þinghúsið sem við erum stödd í.
    Hús af þessu tagi er lausn sem veldur minnstu umróti hér í miðborginni. Lausn sem flestir gætu sætt sig við. Það kemur ekki til greina að byggja hér gríðarmikið hús meðfram öllum Austurvelli að Tjarnargötu í þessu viðkvæma hjarta miðborgarinnar, að byggja steinbákn við sjálfan Austurvöll og skekkja með því gersamlega öll hlutföll í miðborginni. Ráðhúsbyggingin ótímabæra ofan í Tjörninni hefur líka þrengt svo mjög að þessum byggingarreit að það er nánast útilokað að tvö svona stór hús geti rúmast á þessum litla bletti. Með þessu telur flm. að húsnæðismál Alþingis fengju farsæla lausn. Í þessum tveim húsum mundi rúmast öll starfsemi á vegum þingsins. Húsin mundu ekki skera í augu. Þau mundu falla betur að umhverfinu en önnur hugsanleg mannvirki og flestir gætu sætt sig við þessi málalok.
    Að svo mæltu mæli ég með að þessari tillögu verði vísað til seinni umræðu og til hv. allshn., til fjvn. Herra forseti. Í fyrra var henni vísað til allshn. ( Forseti: Eftir því sem hv. þm. upplýsir að hún hafi farið til allshn., þá held ég að það væri rétt að hv. þm. geri þá tillögu. En þarna var ábending um að hún gæti farið til fjvn. þar sem hér er um að ræða bein útgjöld. Skv. þingsköpum eru slíkar tillögur ætlaðar fjvn. sem eru þó ekki margar. En þar sem fyrri tillaga um svipað efni og áður hefur verið flutt hér á hv. Alþingi fór til fjvn. þá þótti rétt að þessi færi á sama stað.)
    Virðulegi forseti. Af vankunnáttu hélt flm. að þetta færi til allshn. en hann fagnar því ef tillagan færi til hv. fjvn. ( Forseti: Þá lítur forseti svo á að það sé tillaga flm. Ef ástæða þykir til, þá er hægt að ræða

um væntanlega atkvæðagreiðslu þegar þar að kemur, ef athugasemdir koma fram.)