Flm. (Guðni Ágústsson):
    Hæstv. forseti. Ég hef hér ásamt sex öðrum þm. lagt fram svohljóðandi þáltill.:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna hvernig nýta megi aðstöðu héraðs- eða heimavistarskóla landsins þannig að fötluðu fólki gefist kostur á að stunda þar fjölbreytt nám að loknu grunnskólanámi.``
    Meðflm. ásamt mér eru hv. þm. Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, Karl Steinar Guðnason, Stefán Valgeirsson, Kristín Einarsdóttir, Friðjón Þórðarson og Skúli Alexandersson.
    Með þessari þáltill. höfum við lagt fram svohljóðandi greinargerð:
    ,,Þótt mikið hafi áunnist í málefnum fatlaðs fólks á síðustu árum er ljóst að betur verður að gera svo að segja megi að þjóðfélag okkar gefi öllum kost á námi og vinnu við sitt hæfi. Öskjuhlíðarskólinn í Reykjavík og Löngumýrarskólinn á Akureyri hafa með starfi sínu skilað fötluðum mikilli þekkingu og verkkunnáttu og víða er nú í sérdeildum skóla unnið mikið og gott starf.
    Hér er lagt til að kannað verði hvort unnt sé að skapa einhverjum héraðs- eða heimavistarskólanum, einum eða fleiri, betri skilyrði og nýta þær aðstæður, sem þar eru fyrir hendi, til að styrkja með einhverjum hætti félags- og skólastarf fatlaðra sem er uppeldisstarf í víðasta skilningi. Húsnæði þessara gömlu menntastofnana eru nú að einhverju leyti vannýtt og því sjálfsagt að huga að vænlegri og happasælli nýtingu þess.
    Oft hefur verið á það minnst í umræðum um nýtt hlutverk þessara gömlu mennta- og menningarstofnana að hver þessara skóla fengi sérverkefni með venjulegu grunnskóla- eða framhaldsnámi. Hér er varpað fram hugmynd um slíkt hlutverk.
    Helstu markmið með kennslu í heimavistarskóla fyrir fatlaða væru eftirfarandi:
    1. Að veita kennslu og þjálfun í starfsnámi og almennri umgengni varðandi athafnir daglegs lífs.
    a. Að efla sjálfstæði, sjálfsöryggi og sjálfsímynd nemenda til að skapa betri líðan þeirra, úti í þjóðfélaginu jafnt sem heima fyrir, og auka þannig færni til starfa á almennum vinnumarkaði.
    b. Að auka færni til þátttöku í þjóðfélaginu með þjálfun í athöfnum daglegs lífs og þátttöku í félagslífi og starfi við hæfi með reglubundnum samskiptum við vinnustaði, athafnalíf og félagslíf. Veita þjálfun í ýmiss konar hagnýtum störfum, svo sem ýmsum iðngreinum, bústörfum, fiskvinnslu og skrifstofutækni. Gera nemendur hæfa til búsetu á eigin vegum eða til sjálfstæðs heimilishalds og ákvarðana um eigið líf og starf.
    2. Að auka færni í undirstöðuatriðum í lestri, stærðfræði og skrift.
    a. Kennsla og þjálfun fari fram við fjölbreyttar og eðlilegar aðstæður og tengist sem mest daglegu lífi í því umhverfi þar sem skólinn er.
    b. Með þátttöku í fjölbreyttu daglegu lífi og starfi

í heimavistarskóla verði stefnt að því að nemendur nái færni í að lesa og tjá sig sér til gagns, komist leiðar sinnar af eigin rammleik og kunni helstu skil á peningalegum verðmætum, t.d. varðandi laun, launagreiðslur og framfærslu einstaklinga.
    Kennsla fari fram í samfelldu starfi, þ.e. skólahald og daglegt líf utan skólatíma haldist í hendur þannig að það sem verið er að gera á einum stað verði einnig hagnýtt á öðrum. Stundaskrá verði ekki bundin við hefðbundnar 40 mínútna kennslustundir heldur verði við skipulagningu námsins tekið mið af verkefnum og þörfum nemenda.
    Kennslan fari fram við heimavistarskóla sem þegar er starfandi og sé hluti af starfsemi hans þannig að fatlaðir nemendur hafi tækifæri til að kynnast öðrum nemendum í félagslífi, kennslu og starfi. Kennsla, þjálfun og félagslíf utan skólatíma verði fléttað sem best og nánast saman. Þess vegna þarf að vera unnt að hafa viðveru tengda skóla frá kl. 8 (9) til 15 (16). Tími utan þess verði einnig undirbúinn og skipulagður til þess að reyna að tryggja það að nemendur verði ekki utanveltu í félagslegum samskiptum. Því þarf að vera unnt að nýta heimavistarskóla með fleiri nemendum og gjarnan þar sem eru fleiri skólar eða öflugt atvinnulíf.
    Ýmsar þjóðir hafa farið svipaðar leiðir og hér er lagt til, t.d. hefur Peder Morset lýðháskólinn í Noregi starfað í 12 ár og getið sér góðan orðstír. Skólinn rúmar 64 nemendur. Þar stunda nám fatlaðir og ófatlaðir nemendur og völ er á námi til eins eða tveggja ára, frá maí til ágústloka. Lágmarksaldur er 18 ár. Aðaláhersla er lögð á persónu- og félagsþroska þeirra og færni í verklegum greinum. Einnig er boðið upp á nám í bóklegum greinum. Í upplýsingum frá skólanum segir að reynslan sé sú að félagsþroski nemenda margfaldist við þetta nám.
    Tillaga þessi er sett fram sem hugsanlegt framlag í réttindabaráttu fatlaðra og vænlegur kostur til frekari könnunar á viðbótarverkefni þeirra skóla sem eiga svo merka sögu að baki.`` Og þar er átt við t.d. héraðsskólana.
    Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að þessu máli verði vísað til hv. félmn. og síðari umræðu.