Samræming opinbers ferðakostnaðar
Fimmtudaginn 08. febrúar 1990


     Flm. (Ásgeir Hannes Eiríksson):
    Virðulegi forseti. Skúli Alexandersson, hv. þm. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um að samræma opinberan ferðakostnað.
    Ástæðan fyrir því að ég flyt þessa till. hér á hv. Alþingi er sú að mér finnst oft ekki vera mikið samræmi í ferðalögum fólks á vegum hins opinbera. Þetta misræmi veldur oft misskilningi og jafnvel tortryggni. Þess vegna er rétt að samræma öll ákvæði um ferðalög og ferðakostnað og setja fastmótaðar reglur í því sambandi.
    Í fyrsta lagi þarf að tryggja að opinberir erindrekar, hverju nafni sem nefnast, ferðist jafnan á hagkvæmasta hátt. Keyptir séu hagstæðustu flugfarmiðar og aðrir farmiðar, og þá er sjálfsagt að leita samninga á ferðamarkaðnum um hæsta mögulega afslátt. Ríkið kaupir það marga farmiða á ári að samkvæmt lögmálum viðskiptanna ætti ríkið að fá hæsta mögulega afslátt. Með þessu móti er hægt að spara strax mikla peninga.
    Í öðru lagi þarf að samræma gistingu. Þar er einnig hægt að leita tilboða á ferðamarkaðnum, kaupa boðlega gistingu á lægsta hugsanlega verði, semja við hótelhaldara þar sem opinberir ferðalangar þurfa að eiga viðkomu um að jafnframt sé keypt hagstæðasta gistingin á hverjum tíma.
    Í þriðja lagi þarf að koma fastri reglu á greiðslur dagpeninga. Það verður að tryggja að allir opinberir ferðalangar séu með dagpeninga sem duga fyrir ferðakostnaði þeirra en safni ekki í sjóði á ferðalögum og komi heim með dagpeninga. Hið opinbera borgi svo allan kostnað. Ferðalögin sjálf mega ekki verða mönnum tekjulind og hvatning til þess að ferðast meira en nauðsyn krefur.
    Síðast en ekki síst verður að meta þörfina fyrir ferðalög á vegum ríkisins. Stundum hafa komið upp deilur í stjórnkerfinu um það hvort eigi að senda fulltrúa á einhverja ráðstefnu, í einhverjar heimsóknir eða til þess að kanna einhver mál. Tækninni hefur fleygt það ört fram síðustu ár að oft og tíðum má nota nýjustu tækni við að afla upplýsinga. Við erum með slíkan fjarskiptabúnað að vegalengdir eru í rauninni hættar að skipta máli í þessu sambandi. Og í ljósi þessa tæknibúnaðar er sjálfsagt að endurskoða þörfina fyrir öll opinber ferðalög.
    Þá má ekki gleyma innanlandsferðum, að leitað sé bestu kjara innan lands. Ég tók eftir því sjálfur þegar ég þurfti að fara norður í land um daginn að hefði ég pantað með fyrirvara þá hefði ég getað fengið verulegan afslátt af farseðlinum. Kannski hugsa þeir sem ferðast á vegum hins opinbera ekki svo mjög um afslátt þegar ríkið borgar þetta allt saman. En við verðum að hugsa um ríkissjóð eins og hann væri okkar eigin pyngja. Ef við ferðumst á vegum ríkisins ber okkur skylda til þess að reyna að ná hagstæðustu samningum og bestu kjörum þó að ríkið borgi brúsann en ekki við sjálf. Á þessu á ekki að vera neinn munur.
    Ekki er langt síðan ríkið leitaði samninga við

leigubifreiðastöð í Reykjavík um 30% afslátt af öllum leigubílaakstri. Og síðast þegar ég spurðist fyrir sagði stöðvarstjórinn á þessari stöð mér frá því að hið opinbera hefði sama og ekkert notað sér þessi kjör. Það er því ekki nóg að semja, það verður líka að fylgja því eftir að samningum sé fylgt. Það verður að fylgjast með því að góðir samningar séu notaðir og að allir möguleikar til þess að spara séu nýttir.
    Virðulegi forseti. Ég lýk máli mínu og mæli með að till. fari til síðari umræðu og hv. allshn.