Skilgreining á bankarekstri
Fimmtudaginn 08. febrúar 1990


     Flm. (Ásgeir Hannes Eiríksson):
    Virðulegi forseti. Þingheimur. Ég flyt hér 16. og 17. dagskrármál saman. Þessar tvær þáltill. eru fluttar í samfloti. Þær lúta að því að skilgreina nánar bankarekstur og aðgreina hann frá öðrum rekstri. Jafnframt að opinber innheimta og sjóðir verði flutt inn í banka að eins miklu leyti og hægt er.
    Í till. til þál. um nánari skilgreiningu á bankarekstri segir:
    ,,Alþingi ályktar að fela viðskrh. að undirbúa frv. til laga um breytingar á lögum um viðskiptabanka, nr. 86/1985, og sparisjóði, nr. 87/1985, með það að markmiði að skilgreina og þrengja verksvið banka og sparisjóða þannig að þeir hætti að stunda aðra starfsemi en þá sem er í eðli sínu hrein bankastarfsemi. Þá verði bönkum og sparisjóðum ekki heldur heimilt að eiga að öllu leyti eða hluta fyrirtæki eða félög sem stunda annan rekstur. Viðskrh. leggi frv. fram í upphafi þings haustið 1990.``
    Í nútímaþjóðfélagi vaxa viðskipti með peninga mjög hröðum skrefum. Þess vegna er verksvið banka og sparisjóða skilgreint í lögum og jafnframt er það verndað þannig að almenningi er ekki heimilt að stofna banka nema með sérstöku leyfi frá ráðherra. Rekstur banka er stöðugt að færast yfir á hendur einstaklinga í þjóðfélaginu með sameiningu og sölu ríkisbankanna. Þar með lýkur ábyrgð ríkissjóðs á innistæðum í þeim bönkum sem áður voru í eigu ríkisins. Þess vegna tel ég að bankar eigi ekki að fást við annan rekstur en þann sem beinlínis má skilgreina sem bankarekstur, að þeim sé ekki íþyngt með öðrum og óskyldum rekstri.
    Bankar og sparisjóðir eiga að verja óskiptum höfuðstóli sínum til að lána fólkinu og atvinnulífinu í landinu. Það er hlutverk banka. Þeir eiga ekki að
nota höfuðstólinn til að standa straum af óskyldum kostnaði eða bera uppi annan rekstur með þeirri áhættu sem því fylgir. Með því að einbeita sér að bankarekstri er meiri möguleiki að bankar geti lækkað vextina og boðið ódýrari lán sem atvinnulífið og fólkið ræður við að borga. Í dag eru vextir orðnir einn stærsti útgjaldaliður í rekstri fyrirtækja og er það gjörsamlega fyrir neðan allar hellur. Þjóðfélagið stendur ekki undir atvinnulífi sem þarf að borga svo háa vexti, þegar vaxtakostnaðurinn er orðinn mun hærri en launakostnaðurinn.
    Það er heldur ekki eðlilegt að bankar og sparisjóðir eigi að öllu leyti eða hluta í fyrirtækjum sem fást við annan rekstur en bankastarfsemi. Þannig finnst mér ekki eðlilegt að bankar eigi greiðslukortafyrirtæki, verðbréfasölur, kaupleigur, fjármögnunarfyrirtæki eða annan þvílíkan rekstur. Bankar og sparisjóðir eiga ekki að keppa við fyrirtæki sem þurfa að leita til þeirra um fyrirgreiðslu og almenna bankaþjónustu. Það er ójafn leikur og þar með safnast líka of mikil áhrif og of mikil völd á fáar hendur. Bankar og sparisjóðir eiga ekki að stunda rekstur sem einstaklingar og félög þeirra geta vel innt af hendi. Þar á ég við t.d. mötuneyti, prentsmiðjur, lögfræðiþjónustu,

innheimtuþjónustu og aðra slíka starfsemi. Á þennan hátt geta myndast viðskiptahringir og vissulega óheilbrigð samkeppni.
    Mötuneyti, ef við tökum það sem dæmi, er ekki bankarekstur undir neinum kringumstæðum. Bankinn á ekki að reka og halda úti mötuneyti. Hann á ekki að halda úti prentsmiðju eða lögmönnum sem innheimta kröfur. Bankinn getur auðveldlega verslað við þau veitingahús sem eru í borginni. Hann getur verslað við þá lögmenn sem eru starfandi á frjálsum markaði og hann getur látið prenta sína pappíra í prentsmiðjum landsins. Banki á ekki að þurfa að hafa áhyggjur af þessum hlutum. Hann á að versla við fyrirtækin í landinu og síðan á hann að veita þeim almenna bankaþjónustu, ekki að keppa við þau um leið og hann er að veita þeim þessa þjónustu.
    Það er heldur ekki hlutverk banka og sparisjóða að eiga eða hafa með höndum bókasöfn, orlofshús, laxveiðiár og þess háttar tómstundagaman. Bankinn á ekki að vera með hugann við þá hluti sem aðrir geta auðveldlega annast. Banki á að einbeita sér að bankarekstri og reyna að rækja það hlutverk vel.
    Þessi þáltill. er, eins og ég sagði áðan, flutt í samfloti við till. um að bankar og sparisjóðir annist alla opinbera sjóði og innheimtu.
    Virðulegi forseti. Ég vil að svo mæltu mæla með að till. verði vísað til seinni umræðu og hv. allshn.