Opinberir sjóðir og innheimta ríkisins
Fimmtudaginn 08. febrúar 1990


     Flm. (Ásgeir Hannes Eiríksson):
    Virðulegi forseti og uppáhaldsáheyrandi minn, Skúli Alexandersson, hv. alþm. Ég fylgi hér úr hlaði síðustu tillögunni sem ég mæli fyrir hér á dagskrá í dag, till. til þál. um að bankar og sparisjóðir annist alla opinbera sjóði og innheimtu ríkisins.
    Till. hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna hvort hagkvæmt sé að sameina alla opinbera innheimtu og fela hana viðskiptabönkum og sparisjóðum. Einnig að þeir annist afgreiðslu fyrir opinbera sjóði sem nú hafa eigin afgreiðslur.
    Könnuninni verði lokið fyrir þingbyrjun haustið 1990.``
    Virðulegi forseti. Ég mælti fyrir því hér áðan í till. að bankar og sparisjóðir hefðu ekki með höndum þann rekstur sem einstaklingar og félög þeirra geta auðveldlega leyst af hendi og mæli nú fyrir því að ríkið sé ekki með þá tegund af rekstri sem bankar geta auðveldlega leyst af hendi.
    Með þessum tveimur till. er ég að reyna að skerpa skilin í þjóðfélaginu: Að skósmiðurinn haldi sig við leistann o.s.frv. Fyrirtæki og stofnanir hins opinbera reyni að sinna því sem þeim er falið að sinna og reyni að gera það vel, en báknið blási ekki út vegna þess að stöðugt sé verið að búa til nýja yfirbyggingu á einfalda hluti sem má auðveldlega reka undir sama þaki.
    Við vitum að margar stofnanir ríkisins hafa komið sér upp eigin innheimtukerfi, t.d. Ríkisútvarpið, sjúkrasamlög, gjaldheimtur og aðrar stjórnardeildir. Einnig er svo farið með ýmis fyrirtæki á vegum bæjar- og
sveitarfélaga. Reykjavíkurborg hafði til skamms tíma sameiginlega innheimtu fyrir Hitaveitu og Rafmagnsveitu og sá Rafmagnsveitan um að innheimta fyrir bæði þessi fyrirtæki. Síðan þótti það ekki hagkvæmt fyrirkomulag og Hitaveitan tók innheimtuna til sín og við það kom ný innheimtudeild til sögunnar án þess þó að innheimtudeildin sem annaði báðum áður hafi minnkað neitt svo heitið geti. Þarna er dæmi úr stjórnsýslunni, að vísu frá sveitarfélögum, um hvernig báknið getur þanist út að ósekju.
    Það er rétt að kanna hvort ekki sé eðlilegt og auðvelt að samræma alla þessa opinberu innheimtu, fela bönkum og sparisjóðum að annast hana fyrir ríkið, stofnanir þess og deildir, fyrirtæki, sjóði, hverju nafni sem nefnast. Í rauninni er rekstur þessara opinberu sjóða ekkert annað en hrein bankastarfsemi ef miðað er við sjóði eins og Byggingarsjóð ríkisins, Lánasjóð ísl. námsmanna og fleiri slíka. Því ætti að vera auðvelt að láta bankakerfið annast þessa þjónustu og þá mundi hún um leið ná til allra landsmanna í gegnum bankana, útibú þeirra og sparisjóði. Með því móti mætti fella niður sérstakar deildir í þessum stofnunum og einfalda þær en draga saman útgjöldin að sama skapi.
    Til þess að auðvelda þessa hluti mun hin mikla tölvuvæðing síðari ára koma vel að notum. Í dag er

ört vaxandi tölvuvæðing í bönkum og sparisjóðum og hægt að borga eina kröfu í hvaða banka sem er. Gjaldkerarnir slá henni upp í tölvuskjánum og afgreiða málið á svipstundu. Það þarf ekki að leggja margfalt net af þessu tagi um landið og eðlilegast og einfaldast að ríkið noti það net sem fyrir er hjá bönkum og sparisjóðum.
    Á sama hátt telur flm. rétt að kanna á hvern hátt megi brjóta upp starfsemi Seðlabanka Íslands og færa til viðskiptabanka og sparisjóða.
    Virðulegur forseti. Eins og ég sagði áðan eru þessar tvær þáltill. fluttar í samfloti til þess að skerpa línurnar í þjóðfélaginu, að bankar einbeiti sér að þeim rekstri sem bankar eru sérhæfðir til að gera og eftirláti einstaklingum það sem einstaklingar geta vel innt af hendi. Að ríkið eftirláti bönkum í staðinn sem mest af þeirri innheimtu sem ríkið hefur hingað til haft á hendi en bönkum og sparisjóðum er ekkert að vanbúnaði að inna af hendi.
    Að svo mæltu mæli ég með að till. verði vísað til síðari umræðu og til hv. allshn.