Skattskylda orkufyrirtækja
Miðvikudaginn 07. febrúar 1990


     Halldór Blöndal :
    Herra forseti. Ástæðan fyrir því að ég kvaddi mér hljóðs nú í dag er sú að þegar þetta mál var rætt hér í deildinni í gær lýsti hæstv. forsrh. því yfir að frumvarpstextinn í því frv. sem hér er til umræðu hefði verið samþykktur af Alþfl. Til þess að ljóst sé að ég fari ekki með rangt mál ætla ég að hafa orðrétt eftir þau ummæli sem hæstv. forsrh. viðhafði hér í gær, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,En ég ætla ekki að fara að hætta mér út í umræður um það hér, en ég vona að ég hafi svarað þessum spurnigum fyrst og fremst. Þetta er stjfrv., samþykkt þannig af öllum flokkunum.`` Ég greip fram í: ,,Frumvarpstextinn sjálfur var samþykktur af öllum en ekki bráðabirgðaákvæðið.`` Hæstv. forsrh. hélt áfram: ,,Fyrirvari var við það að bráðabirgðaákvæðin þyrftu að athugast nánar á þingi og í nefndinni.`` Ég greip enn fram í og spurði: ,,En um frumvarpstextann sjálfan voru menn sammála?`` Hæstv. forsrh. svaraði: ,,Það var ekki nefnt eitt einasta atriði sem ég man eftir með frumvarpstextann.``
    Nú hefur hæstv. viðskrh., í grein sinni í Morgunblaðinu, komist svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hins vegar hef ég bent á margvísleg skattatæknileg vandamál sem upp koma ef leggja á tekjuskatt á orkufyrirtæki samkvæmt lögunum um tekju- og eignarskatt. Ekki er ástæða til að rekja þau á þessum vettvangi, en nefna má atriði er varða fyrningarhlutföll, verðbreytingarfærslur, hlutfallslega háan og að mestu erlendan fjármagnskostnað, erfiðleika á að greina á milli fyrnanlegra eigna og viðhalds á eignum og loks mat á fyrningum eyðanlegra náttúruauðæfa.`` Svo mörg voru þau orð.
    Ég vil enn fremur vitna í önnur orð hæstv. iðnrh. Hann segir á öðrum stað í þessari grein:
    ,,Í greininni segir Halldór m.a. [með Halldóri er að sjálfsögðu átt við þann mann sem hér talar]: ,,Jón Sigurðsson iðnrh. hefur samþykkt orkuskattinn eins og hann liggur fyrir, bæði í ríkisstjórn og þingflokki Alþfl. Ég þori að fullyrða að hann átti drjúgan þátt í að leggja á ráðin um hvernig honum yrði hagað.`` Hér fer Halldór með staðlausa stafi. Þegar fjmrh. gerði tillögu um að skattleggja orkufyrirtæki á síðustu stigum afgreiðslu fjárlaga fyrir þetta ár taldi ég ekki fært að stöðva málið í ríkisstjórn en benti á að þörf væri á að undirbúa slíkt mál mun betur en gert hefði verið. Þá þegar benti ég á fjölmarga annmarka sem á því væru að skattleggja orkufyrirtæki samkvæmt lögum um tekju- og eignarskatt. Ég lagði fram um þetta greinargerð þegar á undirbúningsstigi.``
    Hæstv. iðnrh. segir um skrif mín: ,,Staðreyndir í þessu máli eru því allt aðrar en Halldór heldur fram í pistli sínum og hlutur minn í málinu allt annar. Skrif hans að öðru leyti bera keim af þessu. Ég læt dylgjur Halldórs sem vind um eyru þjóta. Málatilbúnaður hans er hins vegar síst til þess fallinn að þetta vandmeðfarna mál fái farsælan endi.`` Dylgjur mínar eru í því fólgnar að ég sagði að hæstv. iðnrh., sem fer

með orkumál, sem fer með málefni orkufyrirtækja, hefði verið með í ráðum þegar samið var frv. um að leggja skatt á orkufyrirtæki. Dylgjur mínar voru í því fólgnar að hæstv. iðnrh. hefði samþykkt efnisatriði frv. sem hér liggur fyrir. Þetta er í fyrsta skipti sem ég hef heyrt orðið dylgjur notað í því samhengi þegar stjórnarandstæðingur tekur fram að ráðherra fylgi stjfrv. sem svo mjög snertir hans málaflokk sem skattafrv. gerir varðandi orkumálin og orkuráðherrann. Ég held að það hefði verið réttara hjá hæstv. iðnrh. að segja að það hafi ekki verið dylgjur hjá mér að nefna nafn hans í þessu samhengi heldur hafi það verið skiljanlegur misskilningur minn að hæstv. orkuráðherra féllist ekki á frv. um skattlagningu orkufyrirtækja nema hann væri sáttur við þá aðferð sem beitt yrði til skattlagningar á þessum fyrirtækjum.
    Nú hefur það verið upplýst af hæstv. forsrh. að Alþfl., og þar með ráðherrar Alþfl., þar með hæstv. orkumálaráðherra, hafi samþykkt þann hluta frv. sem fellur inn í lög um tekju- og eignarskatt. Það hafi einungis verið ákvæðin til bráðabirgða sem Alþfl. var andvígur.
    Nú skilst auðvitað ekki þegar maður les þrjár fyrstu greinar frv. hvað efnislega felst í þeim þar sem þar er skírskotun til sérstakra kafla og orðalagið mjög lagatæknilegt. Þess vegna er óhjákvæmilegt að leita til athugasemda við einstakar greinar til þess að fá úr því skorið hvað felist í þeim einstöku greinum frv. sem hæstv. orkumálaráðherra hefur samþykkt samkvæmt yfirlýsingu hæstv. forsrh. á fundi hér í gær, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Um 1. gr.
    Í 1. mgr. er lagt til að orkufyrirtæki verði skattskyld til tekjuskatts með sama hætti og almennir rekstraraðilar. Ekki er ætlað að þau verði eignarskattsskyld. Um skattlagningu skulu gilda öll ákvæði laga um tekjuskatt og eignarskatt. Leiðir þessi regla til þess að orkufyrirtækjum ber að haga reikningsskilum sínum með þeim hætti er skattalög áskilja, m.a. að því er varðar ákvörðun um hvað teljist tekjur og gjöld. Reglur almennra skattalaga um
endurmat eigna, fyrningar, söluhagnað og verðbreytingarfærslur koma því til með að gilda um skattaleg reikningsskil orkufyrirtækja. Einnig eiga við almennar reglur um framtalsskil, álagningu, yfirferð og úrskurði á sama hátt og hjá öðrum lögaðilum. Sama á og við um greiðslur skatta, gjalddaga og innheimtu.
    Í 2. mgr. eru þeir aðilar, stofnanir og fyrirtæki tilgreind er skattskyld verða. Hér er um að ræða öll fyrirtæki er selja orku hvort sem um er að ræða raforku eða varmaorku. Rafmagnsveitur og hitaveitur eru háðar eftirliti og leyfum frá iðnaðarráðuneyti samkvæmt orkulögum, nr. 50/1967, og á því að liggja ljóst fyrir hvaða stofnanir og fyrirtæki starfa á því sviði sem hér er til umfjöllunar. Hitaveita Reykjavíkur, Landsvirkjun, Orkubú Vestfjarða og Andakílsárvirkjun starfa eftir sérstökum lögum. Ljóst er að um er að ræða fjölbreyttan hóp aðila, allt frá tiltölulega smáum héraðsrafveitum til stórfyrirtækja á borð við Hitaveitu Reykjavíkur og Landsvirkjun.

    Í 3. mgr. eru tekin af öll tvímæli um að skattfrelsisákvæði, 4. gr. skattalaga um opinberar stofnanir og fyrirtæki í eigu hins opinbera o.s.frv., svo og annarra laga, eigi ekki við lengur varðandi orkufyrirtæki.``
    Ég þarf ekki að lesa frekar athugasemdir við 2., 3. eða 4. gr. Þetta dugir í því samhengi sem ég dreg þessar staðreyndir fram í.
    Svo er að skilja á hæstv. iðnrh. í hans blaðagrein að margvísleg skattatæknileg vandamál rísi ef leggja eigi tekjuskatt á orkufyrirtæki samkvæmt lögunum um tekju- og eignarskatt. Og ég skildi grein hæstv. iðnrh. á þann veg að hann vildi gera einmitt athugasemdir við 1. gr. frv. Það veldur okkur í stjórnarandstöðunni hins vegar nokkrum vandkvæðum að skilja hvernig þetta mál stendur í ríkisstjórninni. Hæstv. forsrh. fullyrti í gær eða sagði það sína skoðun, skulum við segja, að eðlilegt væri að nákvæmlega sömu reglur giltu um orkufyrirtæki og önnur fyrirtæki í landinu. Um það sagði hæstv. forsrh.:
    ,,Af því að hér hefur verið rætt um uppgjörsmál og skattlagningu Landsvirkjunar viðurkenni ég að mér þótti það sem ég náði í og las eftir þá virtu endurskoðendur og ágætu sem hér hefur verið vísað til, um skatta á Landsvirkjun, hið furðulegasta plagg. Ég viðurkenni að ég er ekki sérstaklega bókhaldsfróður maður en ég varð það eiginlega enn síður eftir að ég hafði lesið það rit. Þar segir beinlínis að samkvæmt reikningsvenjum Landsvirkjunar geti skattur þar orðið allt að 2 milljarðar. Þetta er nú satt að segja nokkurt alvörumál. En mér skilst að samkvæmt öðrum reikningsvenjum gæti hann orðið núll. Þetta er alvörumál og hlýtur að koma til athugunar hvort reikningsvenjur eigi ekki að vera þær sömu fyrir öll fyrirtæki í landinu. Í þessu riti, sem ég er nú ekki með hér fyrir framan mig en ég held að ég muni það úr því, leggjast þeir gegn því að reikningsvenjum Landsvirkjunar verði breytt. Ég er algerlega sammála hv. þm. Vitanlega á nefndin, þegar hún fær þetta til meðferðar, að láta rannsaka þetta mjög vandlega og vitanlega á Ríkisendurskoðun að skoða þetta mál. Það nær ekki nokkurri átt að eitt fyrirtæki, sem er opinbert fyrirtæki, hafi aðrar reikningsvenjur en önnur fyrirtæki í landinu. Kannski eru reikningsvenjur Landsvirkjunar miklu betri en annarra fyrirtækja, ég vil ekkert segja um það. Þetta verður náttúrlega rannsakað og ég treysti því að hv. þm. beiti sér fyrir því.``
    Þetta er það sem hæstv. forsrh. hefur um þetta mál að segja. Og mér skildist það á hæstv. fjmrh., þegar hann gerði grein fyrir frv. hér fyrir nokkru og bar Landsvirkjun saman við svo ágæta stofnun sem Búnaðarbanka Íslands, að hann teldi að eðlilegt væri að samsvarandi reglur giltu um skattlagningu Búnaðarbankans og Landsvirkjunar.
    Nú held ég að óhjákvæmilegt sé að spyrja hæstv. iðnrh. hvort hann sé sammála þessum orðum og þessum málflutningi forsrh., hvort hann telji að fella eigi skattlagningu á orkufyrirtæki undir lög um tekju- og eignarskatt í einstökum atriðum, að teknu tilliti til

þeirra ákvæða til bráðabirgða sem er að finna í frv. Og ef hann hefur eitthvað út á það að setja væri líka fróðlegt að fá að vita hvaða atriðum hæstv. iðnrh. vill breyta í sambandi við ákvæði til bráðabirgða. Ég legg áherslu á það, herra forseti, að í málflutningi hæstv. iðnrh. hefur komið fram að hann telur að þingnefndin eigi að fara sérstaklega vel ofan í þetta mál vegna þess að hæstv. fjmrh. hafi kastað til þess höndum og nauðsynlegt sé að þingnefndin lagi þá agnúa sem eru á frv. frá hendi hæstv. fjmrh. Ég held að nauðsynlegt sé að þetta liggi allt saman fyrir. Fróðlegt væri líka að fá um það upplýsingar frá hæstv. iðnrh. hvort rétt sé að stjfrv. hafi verið samþykkt af öllum stjórnarflokkunum eins og það liggur fyrir á þskj. 323, sem var yfirlýsing sem hæstv. forsrh. gaf hér á fundinum í gær.
    Ég vil að síðustu spyrja hæstv. iðnrh. hvort hann hafi í huga að beita sér fyrir brtt. við frv. þannig að þessi skattheimta nái einnig til vatnsveitna, en í grein sinni segir hæstv. iðnrh., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Annars hef ég bent á að þjónusta orkufyrirtækja hefur nokkra sérstöðu í samanburði við flest önnur þjónustufyrirtæki og í því sambandi minnt á að þau eru yfirleitt í eigu opinberra aðila. Þá er þjónusta hitaveitna og vatnsveitna
náskyld að eðli og í sumum sveitarfélögum eru raunar vatns- og hitaveitur sama fyrirtækið. Það orkar því tvímælis að skattleggja orkufyrirtæki með þessum hætti en undanskilja ýmis önnur þjónustufyrirtæki sveitarfélaga.`` Ég endurtek: ,,en undanskilja ýmis önnur þjónustufyrirtæki sveitarfélaga``.
    Þegar ég las þessi orð fór ég að velta því fyrir mér við hvað hæstv. iðnrh. ætti. Augljóst er náttúrlega að hann er að velta fyrir sér Vatnsveitu Reykjavíkur, hvort ekki sé hægt að koma skatti á hana. Það getur vel verið að hann vilji þá kannski eitthvað lækka skattinn á Rafmagnsveitu Reykjavíkur á móti. Ég skal ekki um að segja. En á hinn bóginn hefur mér verið sagt, og skal ég ekki fullyrða að það sé rétt, að hvergi í nálægum löndum sé hafður sá háttur á að ríkisvaldið leggi tekjuskatt á þjónustustofnanir sveitarfélaga. Ég hef aldrei heyrt talað um það í nokkru siðmenntuðu landi. Má vera að ég fari hér rangt með. ( Iðnrh.: Það gerir þú. Því máttu treysta. Því má treysta.) Það er gott. Ekki skal ég draga það í efa enda fullyrti ég ekki, en ég sagði að mér væri tjáð að í nálægum löndum væri hvergi lagður tekjuskattur á þjónustufyrirtæki sveitarfélaga. Ef það er gert óska ég eftir því að hæstv. iðnrh. upplýsi hvað hann eigi við, hvaða fyrirtæki það eru. Þá skal ég koma skilaboðunum til þess sem mér sagði og segja honum að þetta hafi verið leiðrétt, en þetta kallar enn á spurninguna: Hvaða þjónustufyrirtæki sveitarfélaga hefur iðnrh. í huga þegar hann er nú að ráðgera skattheimtu á slík fyrirtæki? Skólagarðana? Það má kannski hafa eitthvað upp úr sorpinu. Það er nauðsynlegt að láta taka frá sér sorpið. Það má kannski láta borga vel fyrir þá þjónustu svo að eitthvað renni í ríkissjóð. Kannski hæstv. fjmrh. hafi uppástungu um eitthvað í viðbót. Hann er nú oft

hugmyndaríkur. ( Fjmrh.: Hljómskálagarðinn.) Hljómskálagarðinn, já. Aðgangseyri í Hljómskálagarðinn, það væri ekki ónýtt. Það má auðvitað láta sér detta ýmislegt í hug en hitt hygg ég að sé ... (Gripið fram í.) Ég held að oft sé nú greitt inn í Auðkúlu. Auðkúla stendur inni í Laugardalnum. Ég veit ekki hvort hæstv. iðnrh. er það ljóst, en sem þingmanni Reykjavíkur ætti honum að vera ljóst hvaða mannvirki ber það nafn hér. Það er öðru nafni Íþróttahöllin og heitir Auðkúla, hefur heitað það alla tíð. (Gripið fram í.) Það má athuga það.
    Það væri sem sagt fróðlegt að fá um þetta gagnlegar upplýsingar. Ég hlýt á hinn bóginn að lokum að vekja athygli á því, herra forseti, að ég var búinn að minnast á sum af þeim atriðum sem ég hef rætt um í minni fyrri ræðu. Þannig háttar til í þinginu að ráðherra má tala svo oft sem honum þóknast. Hins vegar hafa þingmenn ekki heimild til að tala nema tvívegis og það er náttúrlega ágæt aðferð, ef menn vilja ekki taka þátt í umræðum og eru ráðherrar, að haga sér með þeim hætti að þingmaðurinn ljúki öllum sínum ræðutíma þannig að hann getur ekki komið við einstökum athugasemdum.
    Ég vil að lokum aðeins ítreka að það skiptir launþega þessa lands og raunar Íslendinga alla töluverðu máli hvernig haldið verður á skattamálunum á þinginu. Það liggur fyrir greinargerð, bæði frá Landsvirkjun og Rafmagnsveitum ríkisins um það að þetta frv. hefur í för með sér 30% hækkun á heimilistöxtum nú á þessu hausti. Ég hef skorað á hæstv. iðnrh. að gera grein fyrir hvaða villur hann sjái í þeim reikningum og þeim greinargerðum sem ég hef hér lýst og hann hefur ekki fengist til þess þá fyrr en nú. Þetta er mjög þýðingarmikið vegna þess að mér skilst að fylgiskjal sé með þeim kjarasamningum sem nú voru gerðir, frá ríkisstjórninni, um að hún muni láta þessa skattheimtu ganga yfir þjóðina. Það er fylgiplagg með kjarasamningunum að orkuskatturinn muni ganga fram og þess vegna er það auðvitað mjög þýðingarmikið að á Alþingi verði frá því gengið að óeðlilegar hækkanir verði ekki á heimilistöxtum né húshitun.
    Ég tel nauðsynlegt, herra forseti, að þetta komi fram. Ég geri ráð fyrir að ástæðulaust sé að vekja athygli á því að hæstv. fjmrh. hefur ekki séð ástæðu til að biðja um orðið eftir að hæstv. forsrh. lauk máli sínu í gær. Hæstv. forsrh. skýrði hvernig að þessum málum var staðið af ríkisstjórninni. Hann skýrði frá því að allir stjórnarflokkarnir hefðu samþykkt að frv. yrði lagt fram og hann skýrði frá því að Alþfl. hefði í grundvallaratriðum fallist á þá skattlagningu sem hér er lögð til.