Skólamáltíðir
Mánudaginn 12. febrúar 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Þessi umræða er búin að vera fróðleg og ég ætla að bæta hér litlu við. Það kom fram hjá hv. 3. þm. Reykv. að það hefði verið gerð skýrsla af hálfu borgarstjórnar Reykjavíkur þar sem farið er yfir þetta mál. Ég kynnti mér einmitt þessa skýrslu og taldi að hún hefði verið fróðleg, en verð að segja eins og er að ég varð kannski enn þá meira undrandi á því eftir þeim upplýsingum sem þar lágu fyrir hvers vegna menn stoppuðu þegar þeir höfðu áttað sig á hlutunum. Því að í þessari skýrslu kemur það m.a. fram að það eru vannærð börn í skólum Reykjavíkur, og ekki bara í skólum Reykjavíkur heldur í íslenskum grunnskólum. Það er staðreynd sem ekki er hægt að horfa fram hjá og það verður ekki leyst með tilmælum til foreldra um að útbúa nesti fyrir börn sín þegar þau fara í skólann. Það verður ekki leyst nema með samræmdum aðgerðum á þann hátt að börnin eigi kost á og fái mat í skólanum. Í sumum tilfellum vitum við að það mundi ekki duga því að það væri óvíst hvort þau hefðu þá aðstöðu heima fyrir þar fyrir utan, að fá þann mat sem þau þurfa að fá. Þannig er sá veruleiki sem blasir við.
    Ég vil einnig undirstrika það að það er líka að hluta til krafan um samfelldan skóladag sem knýr á um að þetta verði að forgangsverkefni vegna þess að sú breyting hefur orðið t.d., svo ég nefni heima á Vestfjörðum. Þar var það föst regla að gera hlé á skólastarfi í hádeginu svo að nemendur kæmust heim og hefðu sinn hádegisverð með foreldrum. Þetta hefur breyst. Sums staðar er ekkert tillit tekið til þess og kennt á fullu í hádeginu. Þegar nemendurnir svo fara heim kannski um tvöleytið, þá er oft þannig ástatt að móðirin er útivinnandi og faðirinn einnig þannig að það er enginn sem tekur á móti börnunum.
    Ég vek athygli á þessu vegna þess að ég vara við því að blanda því saman, sem er auðvitað mjög æskilegt, að foreldrar búi börn sín út með nesti og ekkert nema gott um það að segja og vafalaust gerir það mikill meiri hluti íslenskra foreldra, en það er ekki lausn á því máli. Það er ekki fullnægjandi í þeirri stöðu sem við erum með íslenskt samfélag. Ég vil túlka þessa umræðu á þann veg að hér hafi menn rætt um þetta allir á jákvæðan hátt sem til máls hafa tekið og ég vona endilega að við látum ekki einhverjar deilur um fortíðina í þeim efnum, hverjir hefðu átt að vera búnir að þessu og hvers vegna það var ekki gert, stöðva það að menn snúi sér að því að reyna að leysa þetta mál og koma þeirri skipan á sem er í Evrópu víðast hvar, í það minnsta Vestur-Evrópu, ég hygg hér um bil allri, að börnin fái máltíð í skólanum og vil minna í því sambandi á það að Íslendingar hafi einnig skrifað undir sáttmála þess efnis að börn eigi að eiga kost á skólagöngu sér að kostnaðarlausu. Það er ekki þeim að kostnaðarlausu með neinum rökum ef gert er ráð fyrir að þau fæði sig á eigin kostnað á sínum vinnustað.