Skólamáltíðir
Mánudaginn 12. febrúar 1990


     Ragnhildur Helgadóttir:
    Frú forseti. Hv. 13. þm. Reykv., forseti sameinaðs þings, kom með, sem oftar, umvöndun við okkur þm. Ekki mælist ég undan því að reyna að kanna málin eftir því sem færi er, en ég er ansi hrædd um að jafnvel þótt við hefðum nú viljað tína til allar þær tillögur til þm. á liðinni tíð sem um þetta mál hafa fjallað þá hefðum við ekki tæmt þann lista með þessum umræðum.
    Ég minnist þess að hafa heyrt þessa máls getið í þingæsku minni, sem ég nefni svo, og ævinlega öðru hvoru síðan. Það að ég mundi ekki sérstaklega eftir þessari till. hv. 13. þm. Reykv. skýrist nú væntanlega af því að þegar tillaga sú var flutt var málið þá þegar í fullum gangi. Skipan nefndarinnar í þessu skyni var, að ég má segja, fyrsta verk mitt sem menntmrh. Þannig að þá afsökun hef ég kannski fyrir því að muna ekki sérstaklega eftir þessari tillögu.
    En rétt er það að þegar ég heyri nú tillöguna rifjaða upp þá einungis veldur sá lestur því að ég gleðst yfir því að sá áhugi vakir enn með hv. þm. fyrst till. er nú rifjuð upp. Ég vil nú sérstaklega brýna hv. þm., hæstv. forseta Sþ., að nú er tækifærið, nú er tækifærið og hefur verið frá því í júlímánuði 1987 --- nei, 1988, skelfing finnst manni nú tíminn vera lengi að líða þegar sumir sitja við stjórnvölinn --- en hvað um það. (Gripið fram í.) Já og aðrir ekki. En hvað um það, til að gera langa sögu stutta, ég vil nú hvetja hv. þm. til þess að taka höndum saman við hæstv. menntmrh. sem einnig léði þessu máli lið í orðum sínum hér áðan og útvega hjá flokksbróður sínum fjármagn það sem til þarf. Hygg ég að því mundi vel varið.