Skólamáltíðir
Mánudaginn 12. febrúar 1990


     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Aðeins stutt athugasemd. Í tilefni af því sem kom fram áðan í umræðunum um að kostnaðurinn við þetta mál mundi lenda fyrst og fremst á sveitarfélögunum, þá vil ég nefna það að í þeirri nefnd sem var minnst á áðan og fjallaði um verkefnið tengsl fjölskyldu og skóla og skipuð var af þáv. menntmrh. Ragnhildi Helgadóttur voru gerðar kannanir um ósk nemenda, kennara og foreldra um þau meginatriði sem breyta þyrfti í skólanum. Þar var ofarlega í huga flestra, bæði nemenda, foreldra og kennara, eða skólastjóra reyndar því það bárust ekki svör frá kennurum, að koma þyrfti á máltíðum eða möguleika til þess að neyta nestis í skólum. Þetta var könnun sem gerð var á Reykjavíkur- og Reykjanessvæðinu.
    Önnur könnun sem gerð var úti á landi sýndi að þar voru þarfir aðrar. Þar var víða þannig háttað að börnin og foreldrar þeirra, eða a.m.k. foreldrarnir og kennararnir, töldu eðlilegt að börnin færu heim í hádeginu. Það færu flestir heim í hádeginu til þess að matast og vegalengdir væru ekki það miklar að það væri þægilegt og eðlilegt. Þá gæfist fjölskyldunni líka tækifæri til þess að hittast um miðjan daginn. Auðvitað þarf þetta að fara eftir aðstæðum og staðháttum á hverjum stað og í hverju byggðarlagi svo að kannski verða það ekki nema sum sveitarfélögin sem þurfa að bera þennan kostnað og þá miklu fremur í þéttbýlinu en í dreifbýlinu. Þetta þarf auðvitað allt að athuga. (Gripið fram í.) Í sveitunum já, en síðan eru kannski þorp og bæir þar sem gegnir öðru máli, enda var minnst á, held ég, heimavistarskóla og mötuneyti þar í umræðunni áðan. Ég vildi bara vekja athygli á þessu. Það háttar misjafnlega til víða um landið. Hins vegar afsakar það ekki að þessi mál skuli ekki vera í betra horfi og það skuli í raun og veru þurfa að tala um þau hér á Alþingi. Það er engin afsökun fyrir því.