Skólamáltíðir
Mánudaginn 12. febrúar 1990


     Flm. (Guðmundur G. Þórarinsson):
    Virðulegi forseti. Aðeins örstutt. Til mín var á ný beint spurningum. Ein stutt athugasemd vegna ræðu hv. þm. Halldórs Blöndals. Hann minnti sérstaklega á Sundahöfnina sem var framkvæmd í Reykjavík. Sundahöfnin er góð framkvæmd og nýtist vel en hún er dæmi um framkvæmd sem var skakkt tímasett og stóð árum saman ónotuð í Reykjavík.
    Vegna spurningar Karvels Pálmasonar vil ég segja að ég taldi að í máli hans hefði komið fram misskilningur. Sá misskilningur lá, að mínu viti, í því að hann lýsti því yfir í fyrstu ræðu sinni að verið væri að varpa þessum bagga á sveitarfélögin, klárt og kvitt. Það er að mínu viti misskilningur vegna þess að í grg. kemur sérstaklega fram hver þáttur hins opinbera gæti verið í þessu máli. Hið opinbera í þeim skilningi er ríki og sveitarfélög. Ég held líka að þegar þessi þm. segir: Annaðhvort borgar ríkið eða sveitarfélögin, um annað er ekki að ræða, sé enn á ný misskilningur í máli þm. vegna þess að víðast hvar taka foreldrar þátt í þessu líka. Börnin þurfa að borða og þau greiða einhvern hluta af kostnaðinum þannig að þriðji aðilinn kemur til. En jafnframt er gert ráð fyrir því hér að ríki og sveitarfélög axli þessa byrði saman. Þess vegna fannst mér að þm. hefði misskilið málið. Nú má vel vera að hann hafi hagað sínum málflutningi það óskýrt miðað við sínar hugsanir að ég hafi misskilið hann og ætla ég ekki að fara frekar út í það.
    Aðeins örstutt, vegna ræðu hv. þm. Stefáns Guðmundssonar. Það er rétt að þeim mun seinna sem þessi þáltill. kemst til afgreiðslu hér, þeim mun minnka líkurnar á að við náum haustinu. Það hefur dregist nokkuð að koma henni á dagskrá og tala fyrir henni og þess vegna eru minni líkur á að hún nái fram.
    Og síðan örfá orð vegna ræðu hv. 6. þm. Reykn. Ég heyri að henni hafa sárnað þau orð mín sem ég lét falla um borgarstjórnarmeirihlutann í
Reykjavík. Um það þarf ekki að fara neinum orðum. Það eru allir sammála um það að börn í Reykjavík eru fleiri vannærð en nokkurs staðar annars staðar á landinu. Það eru allir sammála um það að of mörg börn fá fjármuni í stað fæðu og að fæðuval mótast af framboði söluskálanna í nágrenni skólanna. Það eru allir sammála um það að þar er aðallega sælgæti og sætabrauð og gosdrykkir á borðum og að vítamínsnauð fæða og sykurneysla er um of í gangi.
    Þessi staðreynd kemur fram á sama tíma og við erum að ræða um það sveitarfélag landsins sem er ríkast og fer með mest umsvif, stendur í gríðarlegum framkvæmdum. Það er alveg ljóst þegar borið er saman að á sama tíma og hv. þm. Sjálfstfl. Ragnhildur Helgadóttir vitnar til skýrslu sem hún og aðrir sjálfstæðismenn hafa unnið að varðandi þessi mál, þá hefur Sjálfstfl. sem fer með meiri hluta í Reykjavík ekki séð ástæðu til að grípa inn í þetta á sama tíma, virðulegi forseti, og Kópavogsbær af vanefnum hefur gripið inn í þetta mál.

    Ég hygg að borgarstjórnarmeirihlutanum í Reykjavík sé nauðsynlegt að hafa í huga að þó menn leggi stræti borganna gulli verður fólkið ekki hamingjusamara sem í húsunum býr. Í þessu tilviki og allt of mörgum hefur borgarstjórnarmeirihlutinn einmitt gleymt fólkinu og horft á gullið og byggingarnar.