Skólamáltíðir
Mánudaginn 12. febrúar 1990


     Karvel Pálmason:
    Virðulegi forseti. Það eru bara örfá orð út af því sem hér hefur komið fram. Það er mesti misskilningur hjá hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni að ég sé að mæla hér með ranglæti. Það sem ég er að gera er að skamma fulltrúa stjórnmálaflokks sem Framsfl. heitir og er búinn að sitja í ríkisstjórn svo áratugum skiptir og hefur ekkert gert í þessum efnum fyrr en nú að koma með þáltill. á þessum tíma. Þetta er meginmálið.
    Í öðru lagi ... ( Gripið fram í: Til að bera á menn sakir.) Ég er að bera af mér sakir, þetta er ekki að áliti okkar jafnaðarmanna eins og hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson vill láta í veðri vaka. Í öðru lagi, hv. þm. Stefán Guðmundsson, það kann vel að vera rétt að tveir dálkar séu yfirleitt í bókhaldi, en einhvers staðar hef ég nú heyrt um a.m.k. þrjá dálka í bókhaldi hjá tilteknum fyrirtækjum. Kannski verða í þessu bara tveir dálkar.
    Í þriðja lagi stendur hér í till., eins og ég vitnaði til áðan, þetta á að gerast á haustinu 1990. Ég tók þetta trúanlegt en hv. þm. Stefán Guðmundsson segir að hann geri ekkert ráð fyrir því að þetta gerist fyrr en 1991. Það komi ekki fyrr en á fjárlög næsta árs og þá er náttúrlega allt annað uppi á teningnum. Ef þið meintuð þetta, hv. þm., þá áttuð þið að segja það í tillögutextanum en ekki láta okkur vaða í villu með það sem þið hugsuðuð en settuð allt annað á blað.
    Í lokin, hv. þm. Þórhildur Þorleifsdóttir, út af þrifunum í skólastofum. Ég kenndi handavinnu í níu ár í grunnskóla, í níu ár, og það var alltaf þrifið eftir hvern tíma hjá mér, börnin gerðu það sjálf.