Uppskurður og hagræðing í ríkiskerfinu
Mánudaginn 12. febrúar 1990


     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Það var afskaplega hressandi að hlusta á síðasta hv. ræðumann flytja þessa ræðu. Og ég vil óska þeim til hamingju, fjórmenningunum sem standa að þessari till. Þetta er sú fjórmenningaklíka úr þingflokki Framsfl. sem var rekin út í horn af því að formaður flokksins og formaður þingflokksins vildu hafa þessa óþekku pésa einhvers staðar úti í horni og gera veg þeirra sem allra minnstan. En þá tóku þeir sig til og fóru að hugsa, þessir fjórir, og niðurstaðan varð sú að það eina sem vit væri í væri að fylgja þeirri frjálshyggjustefnu sem ýmsir úr mínum flokki hafa verið þekktari fyrir að fylgja hingað til. Ég óska þeim til hamingju með það að vera komnir í þennan ágæta hóp og fagna því að hafa fengið tækifæri til að hlusta á hv. síðasta ræðumann flytja jafnskorinort og hann gerði þessa ágætu ræðu sína.
    Við höfum oft heyrt ræður á borð við þessa. Það má rifja upp fjöldann allan af þáltill. og reyndar lagafrv. og ég minni aðeins á það að hjá hæstv. ríkisstjórn á nú að vera að vinna til að mynda að því að bjóða út rekstrarverkefni. En það var samþykkt fyrir örfáum árum og ég hef nýverið lagt fram fsp. um það efni.
    Ég ætla ekki að þreyta hv. þm. með því að telja upp allar þær till. sem fluttar hafa verið hingað til, þar á meðal af þeim sem hér stendur, allar í svipuðum anda og efnisatriði þessarar till., sem ég tel vera mjög góða. Og vil láta það koma fram að ég styð flest það sem í þessari till. felst.
    Þó er það eitt sem ég hnýt um strax. Og það er það traust sem þessir ágætu þm. bera til ríkisstjórnarinnar. Það á að fela hæstv. ríkisstjórn að annast þetta. Nú gæti maður haldið að það væri vegna þess að hæstv. ríkisstjórn hafi unnið svo mörg afrek á þessu sviði að það sé full ástæða til að treysta henni fyrir þeim efnisatriðum sem fram koma í þessari till. Er það svo? Ég held að svarið sé því miður nei.
    Ég gæti fyrst af öllu beðið hv. síðasta ræðumann að leiðrétta greinargerðina því ég hygg að hallinn á ríkissjóði á sl. ári verði ekki aðeins 5 milljarðar heldur tæpir 6 milljarðar þegar upp verður staðið. En vonandi fást nú frekari fréttir af því á næstunni. Og þetta gerist þrátt fyrir það að skattheimtan hafi verið hert mjög mikið að undanförnu og skattar stórkostlega hækkaðir. Það er nefnilega hárrétt sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að skattahækkanir geta ekki brúað þetta bil. Það hefur sýnt sig, ekki síst hjá núv. hæstv. ríkisstjórn, að ávallt þegar skattarnir hafa verið hækkaðir hafa útgjöldin hækkað enn þá meira.
    Eini hæstv. ráðherrann sem er í þessum sal er ráðherra án umhverfisráðuneytis. Og mér sýnist það eina og litla sem hæstv. ríkisstjórn er að gera í þessu skyni sé að fjölga ráðuneytum jafnvel þó það ráðuneyti sem nýjast á að verða hafi engin verkefni fyrst um sinn. Sýnist mér því ekki ástæða til að treysta hæstv. ríkisstjórn fyrir jafnveigamiklum efnisatriðum og koma fram í þessari ágætu þáltill.
    Hvar eru aðrir hæstv. ráðherrar? Hvar er hæstv.

fjmrh.? Hvar er hæstv. forsrh.? Af hverju talar ekki fjórmenningaklíkan við þessa herramenn? Af hverju er hún að halda þessar ræður yfir okkur? Ég held að það sé kominn tími til þess að þeir heimti það að hæstv. fjmrh. sitji hér og hann sé spurður spjörunum úr eða hæstv. forsrh. Því auðvitað þýðir ekki að afhenda þeim þetta verkefni nema þeir séu tilbúnir til þess að skera niður. Hvar skyldu þeir vera? Ætli þeir séu ekki núna að rembast við að skera niður svona eins og 500 millj. eða einn milljarð í tengslum við kjarasamninga, sem átti að gerast um síðustu helgi, ekki þessa sem er nýliðin, heldur helgina þar áður. Það hefur tekið átta daga. Þetta er árangurinn. Og samt sem áður eru fjárlögin afgreidd með tæplega fjögurra milljarða kr. halla og hallinn verður sannarlega 6--7 milljarðar ef læra má af reynslu síðasta árs.
    Þetta eru stóralvarlegir atburðir sem hafa verið að gerast. Ég hvet hv. flm. þessarar till. til að fallast á það að láta Alþingi fremur kjósa nefnd en treysta ekki þessari ríkisstjórn sem ekki nokkur maður í landinu treystir fyrir utan örfáa þingmenn sem verða auðvitað að standa að baki ríkisstjórnarinnar því að annars verða þeir sendir heim og verða ekki endurkjörnir. Þannig er nú komið fyrir þessari hæstv. ríkisstjórn.
    Hv. síðasti ræðumaður fór að hæla ríkisstjórninni fyrir það hvað hún hefði gert mikið fyrir atvinnulífið og aðra í landinu. ( StG: Það er rétt.) Veit hv. síðasti ræðumaður hvað hefur gerst? ( StG: Já, já.) Það sem hefur gerst ef þetta hefur farið fram hjá honum, hann er nú einn þeirra sem þekkja dálítið til atvinnulífsins úti á landi, ég veit það af eigin raun, og hefur staðið sig ágætlega þar. Það sem hefur verið gert er einfaldlega það að peningar hafa verið fengnir að láni, mest erlendis frá, og þeir hafa m.a. verið settir í Verðjöfnunarsjóð. Þetta lán á eftir að detta allt saman á ríkissjóð því hæstv. sjútvrh. hefur sagt að ekki eigi að greiða þá peninga til baka. Þar liggja nokkrir milljarðar.
    Ég veit að hv. þm. er nákvæmlega jafnvel kunnugt um það og mér að þeir
fjármunir sem hafa runnið út í gegnum Hlutafjársjóð og þeir fjármunir sem hafa farið í gegnum Atvinnutryggingarsjóð eru ekki fjármunir sem verða greiddir til baka á tilsettum tíma. Hv. þm. veit hve miklum vandræðum fyrirtækin hafa lent í. Á meðan rekstrarskilyrði eru ekki fyrir hendi koma þessir peningar ekki aftur. En þetta kemur ekki hæstv. núv. ríkisstjórn að sök vegna þess að til skuldadaganna kemur ekki fyrr en eftir næstu kosningar. Með öðrum orðum, það sem hæstv. ríkisstjórn hefur gert er að sópa vandamálunum undir teppið. Það var ekki tekið á þessum vandamálum. Það voru tekin erlend lán sem auðvitað auka á vandamálin og þau á ekki að borga fyrr en á næsta kjörtímabili. Síðan ætlast hæstv. ríkisstjórn til að hv. þm. komi hér upp í pontu og segi: Okkar ágæta hæstv. ríkisstjórn hefur staðið sig svo dæmalaust vel. Hún hefur staðið sig vel í því að slá peninga erlendis til þess að fela hin eiginlegu vandamál.
    Hvað er að gerast núna? Hæstv. forsrh. kemur fram

í sjónvarpi og útvarpi og segir frá því í blöðum að vandamálin hrannist svo mikið upp að það verði að búa til nýja byggðastefnu. Af hverju haldið þið að hann sé að þessu? Það er vegna þess að hann veit sem er að þær ráðstafanir sem núv. hæstv. ríkisstjórn greip til á sínum tíma hafa engan veginn dugað, engan veginn dugað. Það eina sem gerðist var að það voru slegnir peningar til þess að fresta því að vandamálin kæmu upp á yfirborðið.
    Ef þetta eru fyrstu merki um það að hv. þm. Framsfl. séu að vakna til lífsins, séu að skilja hvar hin eiginlegu vandamál er að finna, þá fagna ég því. Ég mun að sjálfsögðu styðja við bakið á þeim á þessari leið sem þeir hafa nú valið að fara því að batnandi mönnum er best að lifa. En ég skora á þá að fallast á þá breytingu að vísa ekki þessu máli, með sama hætti og hér er gert ráð fyrir, til ríkisstjórnarinnar með því að fela henni að setja vinnuhóp á laggirnar. Látum frekar hv. Alþingi kjósa. Látum Alþingi taka völdin með sama hætti og aðilar vinnumarkaðarins gerðu núna um daginn, þegar þeir voru orðnir svo skíthræddir við hæstv. ríkisstjórn að þeir þorðu ekki lengur að eiga neitt undir henni heldur ákváðu að taka völdin í sínar hendur. Það var til fyrirmyndar og þetta skora ég á hv. þm. Framsfl. að gera. Því eins og þið sjáið þá þorir ekki einn einasti hæstv. ráðherra að sitja undir þessum ræðum þeirra.