Frumvarp um skattskyldu orkufyrirtækja
Þriðjudaginn 13. febrúar 1990


     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Tregða hæstv. ráðherra og forseta að ræða frv. um skattskyldu orkufyrirtækja er að verða undarleg framhaldssaga í þingsköpum. Þegar málið var fyrst lagt hér fyrir var lagt á það ofurkapp að því lyki á fyrsta fundi, en nú er allt í einu komið svo sem ekki skipti lengur máli hvort þetta mál sé rætt eða ekki. Annar mikill galli við þetta mál er að erfitt er að henda reiður á hvaða ráðherrar eru viðstaddir þegar þetta mál er rætt. Á hinn bóginn stendur svo á nú að hæstv. forsrh. --- Ég vil taka fram að ég hafði beðið hæstv. foreta um að láta frv. um skattskyldu orkufyrirtækja sitja fyrir. Við erum hér að tala um framhald 1. umr. Það er að vísu óvenjulegt að stjórnarandstaða reki á eftir umræðum um mál, en ég held á hinn bóginn að nauðsynlegt sé að umræðan haldi áfram. Það kunna að vera skýringar á því hvernig á því stendur að ríkisstjórnin er búin að missa áhuga á málinu.
    Hæstv. viðskrh. lýsti því yfir í sjónvarpsviðtali í síðustu viku, eftir að hafa ekki fengist til að taka til máls um frv. hér í deildinni, að frv., eins og það liggur nú fyrir, hafi í för með sér almenna og verulega hækkun á rafmagnstöxtum. Og hæstv. viðskrh. lýsti því yfir að þetta frv. sé úr takt við þá nýgerðu kjarasamninga sem víða hafa verið samþykktir og margir hafa kallað sögulega. Jafnframt liggur það fyrir að degi áður en hæstv. viðskrh. kom í sjónvarpið lýsti hæstv. forsrh. því yfir hér í þessari deild að Alþfl. hefði einungis gert athugasemdir við einstakar greinar með ákvæðum til bráðabirgða, en ekki við frv. í heild. Nú hefur hæstv. viðskrh. lýst hinu gagnstæða í þessum sjónvarpsþætti og hann hefur gengið svo langt að segja að frv. eins og það liggur fyrir hér í deildinni sé ekki lengur í spilunum, eins og sagt er, og segir að frv. svari ekki þeim kröfum sem gera verði til laga um skattlagningu á orkufyrirtæki.
    Ég vil af þessu tilefni spyrja hæstv. forsrh., úr því að hann er hér í þingdeildinni, hvort þetta mál hafi verið tekið fyrir á ríkisstjórnarfundi eftir að hæstv. viðskrh. lýsti andstöðu sinni við frv. í sjónvarpsviðtali. Og ég vil líka spyrja hæstv. forsrh. hvort hann líti svo á eins og hæstv. viðskrh. að það sé ekki lengur í spilunum að frv., eins og það liggur fyrir, verði samþykkt sem lög frá Alþingi.