Stjórnarráð Íslands
Þriðjudaginn 13. febrúar 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um stofnun umhverfisráðuneytis. Í frv. er gert ráð fyrir því að bæta í þá upptalningu sem er í lögum um Stjórnarráð Íslands umhverfisráðuneyti. Ég flutti einnig í Nd. annað frv. þar sem gert er grein fyrir þeim verkefnum, í smærri atriðum, sem til umhverfisráðuneytisins eiga að fara.
    Mér þykir rétt að fara nokkrum orðum um aðdraganda þessa máls. Hann er að vísu orðinn æðilangur en ég held að nauðsynlegt sé að menn hafi þar ýmis atriði í huga. Ég held að segja megi að fyrsta alvörutilraunin til þess að skipa umhverfismálum í sérstakan málaflokk hjá stjórnvöldum hafi verið gerð 1975. Það ár fól þáv. forsrh. Geir Hallgrímsson þáv. félmrh. Gunnari Thoroddsen að fara með yfirstjórn umhverfismála, samræmingu þeirra mála o.s.frv., enda heyrðu þau þá, eins og nú, undir fjölmörg ráðuneyti. Þann 4. mars sama ár, 1975, var skipuð nefnd til að endurskoða og samræma ákvæði laga um umhverfis- og mengunarmál. Var henni falið að gera tillögu um heildarlöggjöf um þau efni og kveða á um það hvernig stjórnarfyrirkomulagi skyldi háttað til að þau mál yrðu tekin föstum tökum. Formaður þeirrar nefndar var Gunnar G. Schram prófessor. Nefndin samdi slíkt frv. og sendi það ríkisstjórninni í apríl 1976. Um það var síðan fjallað töluvert í þeirri ríkisstjórn og borið undir aðila til umsagnar og var það lagt fram á 99. löggjafarþingi 1977.
    Meginverkefni frv. var tvíþætt. Í fyrsta lagi er þar að finna ýmis ákvæði um umhverfis- og mengunarvarnir, m.a. ákvæði sem áskilja starfsleyfi til atvinnu- og iðnaðarreksturs sem rekja má til þess að hann hafi áhrif á umhverfið.
    Í öðru lagi er að finna þar ákvæði um yfirstjórn umhverfismála og er gert ráð fyrir að yfirstjórnin verði sameinuð í höndum eins stjórnsýsluaðila. Hins vegar er í frv. ekki tekin afstaða til þess hvar sú stjórnsýsludeild skuli
vera. Hún er hins vegar nefnd umhverfismáladeild. Þarna kemur því fram í fyrsta sinn sú viðleitni að draga umhverfismálin saman í eina stjórnsýsludeild.
    Í frv. er gert ráð fyrir því að náttúruverndar- og útivistarmál falli undir stjórnsýsludeildina, mengunarvarnir í sjó, á landi og í lofti, friðun fugla og dýra samkvæmt sérlögum, dýraverndunarmál, framkvæmd alþjóðasamninga um mengun og önnur umhverfismál, meðferð eiturefna og annarra hættulegra efna, skipulags- og byggingarmál, mál er lúta að frárennsli og vatni að því er umhverfisþátt varðar, svo og sorpi og hreinlæti utan húss og ýmis önnur mál eftir því sem ákveðið yrði í reglugerðum um Stjórnarráð Íslands.
    Mér þykir rétt að rekja þetta hér til að vekja athygli á því að þegar í þessari fyrstu tilraun til að skipa þessum málum betur en þáverandi ríkisstjórn þótti þá augljóslega vera er gert ráð fyrir að mjög margir málaflokkar falli undir umhverfismáladeild. Þetta frv. varð ekki útrætt, en á löggjafarþinginu

1980--1981 flutti hv. þm. Salome Þorkelsdóttir ásamt fleirum þetta mál enn inn á þingið og hygg ég að það hafi verið flutt óbreytt. Það varð heldur ekki útrætt þá. Hinn 13. júní 1981 skipaði svo þáv. félmrh. nýja nefnd til að semja frv. til laga sem m.a. skyldi fela í sér að helstu flokkar umhverfismála féllu undir eitt ráðuneyti. Nefndinni var falið að taka sérstakt tillit til frv. um sama efni sem ég hef nú getið og tvíflutt hafði verið.
    Jafnframt var nefndinni falið að hafa hliðsjón af lögum sem í millitíðinni höfðu verið sett og að skoða ný viðhorf í heiminum almennt til umhverfismála. Í þessari nefnd áttu sæti Árni Reynisson, sem var formaður, Eysteinn Jónsson og Gunnar G. Schram.
    Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að hið eldra frv. sem flutt var vorið 1978 væri um flest atriði í fullu gildi. Taldi nefndin því að hlutverk sitt væri aðallega að endurskoða það frv. með tilliti til þeirra breytinga sem höfðu orðið í millitíðinni. Nefndin skilaði frv. til laga um umhverfismál til ráðherra með bréfi 30. sept. 1981 og þar er getið um nokkrar breytingar sem nefndin hafði gert á fyrra frv. Nefndin leggur enn til að stofnuð verði sjálfstæð stjórnardeild innan vébanda félmrn. sem færi með umhverfismál. Frv. þetta var hins vegar ekki lagt fyrir Alþingi.
    Næst er það í desember 1983 að nokkrir þm. Sjálfstfl., með Gunnar G. Schram sem 1. flm., lögðu fram frv. til laga um umhverfismál. Frv. var að verulegu leyti samhljóða frv. sem lagt hafði verið fyrir á Alþingi 1978 og aftur 1981. Hliðsjón var þó höfð af tillögum þeirrar nefndar sem endurskoðaði frv. árið 1981 og voru sumar breytingar sem sú nefnd hafði lagt til teknar inn í hið nýja frv. Fáeinar aðrar breytingar voru gerðar á texta fyrsta frv.
    Í þriðja kafla frv. þar sem fjallað var um stjórn umhverfismála er ekki gerð tillaga um að umhverfismálum verði vísað í tiltekið ráðuneyti. Lagt er hins vegar til að með þau verði farið í sjálfstæðri stjórnardeild í Stjórnarráðinu og er nokkuð um þetta fjallað í greinargerð sem ég ætla ekki að lesa hér en menn hafa auðveldan aðgang að. Það er þó fróðlegt að í greinargerðinni kemur fram m.a., og ætla ég að lesa það upp, með leyfi forseta: ,,Mjög margt mælir að vísu með því að stofnað verði sérstakt ráðuneyti sem eingöngu hefði
umhverfismál með höndum. Það hlýtur að vera takmarkið,,, segir í þessu frv. hv. sjálfstæðismanna.
    Næst er frá því að greina að í félagsmálaráðherratíð Svavars Gestssonar unnu þeir Ingimar Sigurðsson lögfræðingur og Stefán Thors enn að samningu frv. um umhverfismál, byggðu þá sína vinnu á fyrra frv. og nefndar Árna Reynissonar og fleiri sem ég hef áður minnst á. En það frv. var aldrei lagt fyrir Alþingi.
    Þá er enn frá því að greina að 26. sept. 1983 skipaði Alexander Stefánsson, þáv. félmrh., fimm manna nefnd til að semja frv. um umhverfismál. Formaður þeirrar nefndar var Hermann Sveinbjörnsson og var þeirri nefnd að sjálfsögðu falið að hafa til hliðsjónar öll þau fyrri frumvöp og alla þá fyrri vinnu

sem unnin hafði verið í þessu sambandi. Nefndin var leyst frá störfum hinn 12. apríl 1984 vegna ágreinings. Af hálfu ráðherra var áfram unnið að málinu og greinargerð kynnt í ríkisstjórninni haustið 1984. Þá var ekki samstaða í ríkisstjórninni að vinna að framgangi málsins að svo stöddu. Í ársbyrjun 1986 kynnti félmrh. í ríkisstjórninni frv. til l. um stjórn umhverfismála sem þeir höfðu samið í sameiningu að hans frumkvæði Hermann Sveinbjörnsson og Páll Líndal. Um frv. náðist ekki samstaða og var það því ekki lagt fram á Alþingi. Frv. gerði ráð fyrir að til umhverfismála teldust mengunarvarnir, náttúruvernd, skipulags- og byggingarmál o.s.frv. sem ég ætla ekki að rekja hér nánar. Má segja að það hafi verið í megindráttum byggt á þeim frumvörpum sem áður höfðu verið flutt.
    Þann 3. sept. 1987 skipaði svo þáverandi forsrh. þriggja manna nefnd undir forustu Sigurðar E. Magnússonar til að semja frv. um umhverfismál. Nefndin skilaði lokaáliti sínu ásamt drögum að frv. í maí 1988. Þau drög voru kynnt í ríkisstjórn og þingflokkum en frv. var ekki lagt fram á Alþingi sem stjórnarfrv. Þá gerðist það að nokkrir þm. Sjálfstfl. lögðu fram frv. til l. um samræmda stjórn umhverfismála á 111. löggjafarþingi 1988--1989 sem að verulegu leyti byggði á tillögum nefndarinnar. Rétt er að geta þess að frv. það sem hv. sjálfstæðismenn hafa nú lagt fyrir Alþingi byggir á tillögum þessarar nefndar og ætla ég ekki að rekja það nánar.
    Enn er til að taka að á síðasta Alþingi lagði ég fram frv. til l. um umhverfismál. Það frv. gekk lengst af þeim frumvörpum sem hér hafa verið nefnd og þó ekki eins langt og frv. það sem liggur nú fyrir Alþingi með þeim breytingum sem gert er ráð fyrir á ýmsum öðrum lögum. Þó er þess að geta að það er einn mikill munur á þessum tveimur frumvörpum.
    Frv. það sem lagt var fram á síðasta þingi fjallar í heild sinni um umhverfismálin, þ.e. bæði stofnun umhverfisráðuneytis og einnig hin ýmsu verkefni þessa ráðuneytis. Það er með öðrum orðum í einu frv. og gert ráð fyrir því að það yrðu ein lög. Um þetta voru að vísu dálítið skiptar skoðanir því að ekki er að finna í lögum um Stjórnarráð Íslands svona skilgreiningu á hinum ýmsu verkefnum hinna ýmsu ráðuneyta. Þar eru t.d. ekki til lög um félagsmálaráðuneyti sem slíkt. Það segir bara að í Stjórnarráði Íslands skuli starfa félmrn. og síðan eru með ýmsum öðrum lögum og reglugerðum málin flutt til félmrn. svo að ég nefni dæmi. Sama er að segja um önnur ráðuneyti.
    Þetta mál varð heldur ekki útrætt á síðasta þingi svo að ég skipaði enn á ný nefnd og bað þá þingflokka sem tjáð höfðu sig fylgjandi því að skipa umhverfismálum í eitt sjálfstætt ráðuneyti að tilnefna menn í þá nefnd. Formaður þeirrar nefndar var Jón Sveinsson, aðstoðarmaður minn. Niðurstaðan þá varð sú að breyta frá því sem ég hafði gert ráð fyrir í fyrra og fylgja heldur þeim venjum sem mótast hafa í sambandi við lög um Stjórnarráð Íslands, að telja þar upp ráðuneytin en færa síðan verkefnin til

ráðuneytanna með sérstökum lögum eða með reglugerð. Þess vegna eru frumvörpin nú tvö.
    Það er út af fyrir sig að mörgu leyti eðlilegur framgangsmáti. Benda má á það t.d. að þegar Bjarni Benediktsson þáv. forsrh. lagði, 1968 ef ég man rétt, fram frv. til l. um Stjórnarráð Íslands sem margsinnis hefur verið nefnt í umræðum um þetta mál hér, þá gerir hann ráð fyrir því að ekki sé rétt að ákveða nákvæmlega í lögum hvaða mál skuli falla undir viðkomandi ráðuneyti og segir m.a. orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Er ætlast til þess að forsetinn skv. tillögu forsrh. mæli fyrir um það hvaða málefni heyri undir hvert einstakt ráðuneyti.``
    Þáv. forsrh. bendir á að slíkt yrði þó að meta í einstökum tilfellum og segir svo áfram: ,,Þótti ekki heppilegt að kveða á í einstökum atriðum hvaða málefni heyrðu undir hvert ráðuneyti fyrir sig vegna þess að slíkt hlýtur ætíð að vera álitamál um einstök atriði og umsvifamikið að hafa lagabreytingu til þess.``
    Þetta er satt að segja mjög athyglisvert sjónarmið hjá þáv. forsrh. sem allir viðurkenna lagafróðastan af þeim sem gegnt hafa því embætti og mjög til umhugsunar og réði því að ég féllst á það að leggja fram mjög einfalt frv. til breytinga á stjórnarráðslögunum, en síðan annað sem þyrfti þá að athugast betur og nánar ef menn vildu, um tilfærslu verkefna til þess ráðuneytis, sem jafnframt yrði í ýmsum tilfellum gert með reglugerð og er í þeim anda sem þáv. forsrh. lagði til.
    Við vinnu þessa máls kom það að sjálfsögðu í ljós sem allir máttu vita að það er búið að festa mjög mörg verkefni, stofnanir og verkefni hjá einstökum fagráðherrum og verður því að breyta þeim lögum. Þeim verður ekki breytt með reglugerð þannig að segja má að venjan í gegnum árin gangi gegn því sem þáv. forsrh. leggur til og er það út af fyrir sig ekkert óeðlilegt.
    Í meðferð málsins í hv. allshn. Nd. var ákveðið að þetta mál færi sérstaklega fram en það frv. sem fjallar um verkefnin yrði athugað nánar, enda hafði mikill meiri hluti lýst sig sammála því að stofna sjálfstætt ráðuneyti eða sumir ekki tekið afstöðu til þess. Hins vegar eru mjög skiptar skoðanir um ýmis verkefni. Þetta tel ég eðlilegan framgangsmáta því að ef meta má af öllum þeim eldri frumvörpum sem hafa verið flutt og gert ráð fyrir sérstakri stjórnardeild og t.d. því sem ég las upp úr greinargerð með frv. hv. sjálfstæðismanna o.s.frv., þá held ég að hljóti að vera mjög víðtæk samstaða um að taka í raun þannig á þessum málum. Þó að ég viðurkenni að núv. frv. sjálfstæðismanna gengur gegn þessu fyrra sjónarmiði þeirra.
    Ég vona einnig að menn séu sammála því a.m.k. að meiri hlutinn fái að ákveða að sérstakt ráðuneyti verði sett á fót og tel það ekki óeðlileg vinnubrögð sem boðið er upp á, að ítarlegar verði svo fjallað um verkefnin. Það er, eins og ég sagði áðan, í þeim anda sem stjórnarráðslögin voru kynnt á sínum tíma af Bjarna Benediktssyni. Ég ætla þess vegna ekki nú að

fjalla um hitt frv., þ.e. um verkefnin. Það kemur seinna til meðferðar hér í deildinni. Málið er þetta. Lagt er til að sett verði á fót sjálfstætt ráðuneyti umhverfismála og til þess þarf að taka afstöðu hér á hinu háa Alþingi.
    Ég vil, herra forseti, svo leggja til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. allshn.