Stjórnarráð Íslands
Þriðjudaginn 13. febrúar 1990


     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegur forseti. Svo að ég noti orð hv. síðasta ræðumanns: Við viljum ræða þetta mál vegna þess að við erum ekki að ræða um einskis verða hluti eins og hann notaði hér tungumálið okkar áðan og talaði um að menn ættu ekki að vera að karpa um einskis verða hluti, en auðvitað viljum við ræða þetta mál vegna þess að það er okkur einhvers virði og við viljum vanda til þess. Hv. þm. minntist reyndar á það að málið hefði nú snúist á þann veg að fólk úti í bæ væri orðið neikvætt gagnvart umhverfisráðuneytinu vegna umræðu sem hefði farið fram hér inni. Ég treysti fólki úti í bæ alveg til þess að fylgjast með fréttum og auðvitað veit fólk og skilur hvað er verið að gera hér, stofna ramma sem ekkert er inni í. Á meðan verið er að segja öllum að herða nú sultarólina enn einu sinni hefur fólk auðvitað á tilfinningunni að það sé einungis verið að stofna ráðuneyti án þess að það hafi nein sérstök verkefni eins og augljóst er. Það væri auðvitað annað ef verið væri að stofna ráðuneyti til þess að vinna að hagsmunamálum okkar í þessum málum, en þau eru eftir sem áður á víð og dreif í stjórnsýslukerfinu. Þess vegna er þetta, eins og það er fram sett núna, einungis viðbót, en ég ætla að vona að við þurfum ekki að fara að ræða frv. um stofnun umhverfisráðuneytis á þessum nótum vegna þess að eins og fram hefur komið telja alla vega einhverjir hæstv. ráðherrar sjálfsagt að þessi mál tvö fari hér saman. Ég hef reyndar beint spurningu til hæstv. forsrh. varðandi það hvort það sé Framsfl. sem er að reka á eftir og ítreka hana hér með. Hins vegar vegna orða hv. 5. þm. Reykv. hér áðan: Hann nefndi það að hann hefði setið í nefndinni og rétt er það. Hann hefur kannski misskilið orð mín. Ég átti ekki við að nefndin hefði klofnað í afstöðu sinni til málsins í heild sinni, mér er fullkunnugt um það. Það getur verið að ég hafi mismælt mig en það var varðandi þessar tvær stofnanir, Skógrækt ríkisins og Landgræðslu ríkisins, við endanlega afgreiðslu frv. frá nefndinni.
    Hv. 5. þm. Reykv. átti sæti í nefndinni og á þá væntanlega aðild að þeirri greinargerð sem með frv. fylgir og þar eru reyndar þrír lögfræðingar, aðstoðarmaður hæstv. forsrh., Arnmundur Backman, og hv. 5. þm. Reykv. sem einnig er löglærður, en í greinargerð með frv. segir, með leyfi forseta:
    ,,Í þeim frumvörpum, sem samin hafa verið um umhverfismál að undanskildu frv. um umhverfismál sem lagt var fram á síðasta þingi, var ekki greinilega tiltekið hvaða viðfangsefni ættu að falla undir heildarstjórn umhverfismála. Slík lög hefðu leitt af sér töluverða réttaróvissu.``
    Nú gat hv. 5. þm. Reykv. um það hér áðan að í Vestur-Evrópu tíðkaðist það að menn stofnuðu ráðuneyti án þess að lagaheimildir þyrfti til. Ég vil spyrja hann og reyndar hæstv. forsrh. líka: Hvaða réttaróvissu hefur verið eytt síðan greinargerðin með frv. var skrifuð?