Stjórnarráð Íslands
Þriðjudaginn 13. febrúar 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Örfá orð um þær spurningar sem lagðar hafa verið fyrir mig. Hv. þm. Salome Þorkelsdóttir spurði hvort ætlunin væri að afgreiða frv. fyrir nk. miðvikudag. Ég hef ekki heyrt það. (Gripið fram í.) Já, ég hef aðeins kynnt mér það mál og mér skilst að á þessum fundi, sem ég var ekki á þótt ég sé nú verkfræðingur, hef ekki mætt vel þar, hafi komið fram áhugi hjá ýmsum á að afgreiða málið fyrr en seinna og það hefur verið nefnt að út af fyrir sig væri unnt að afgreiða málið á svo skömmum tíma. Ég er hins vegar ekki að leggja það til og mér skilst ekki að neinn hafi lagt það til. (Gripið fram í.) Ýmsir á fundinum, það hafi komið fram áhugi á því. (Gripið fram í.) Mér er sagt svo, ég var ekki á þessum fundi, að það hefði komið fram áhugi á fundinum á þessu máli og spurt hvenær það gæti orðið að lögum. Og við vitum það náttúrlega hér að iðulega hefur frv. orðið að lögum á einum sólarhring. Ég tek það hins vegar skýrt fram að ég hef alls ekki gert ráð fyrir því. Mér skilst að þetta hafi nú verið einhver umræða í þessum dúr. ( Gripið fram í: Vangaveltur?) Vangaveltur, já, eða þess háttar.
    Einnig var spurt hvort reglugerð væri tilbúin. Ég hef að sjálfsögðu látið skoða bæði hvað þarf lög til að flytja --- því er annað frv. flutt sem er til meðferðar í allshn. Nd. --- og hvað væri unnt að flytja með reglugerð. Ég vek athygli á því að í 8. gr. laga nr. 70/1969, um Stjórnarráð Íslands, segir, með leyfi forseta:
    ,,Stjórnarmálefni ber undir ráðuneyti eftir ákvæðum reglugerðar er forseti Íslands setur samkvæmt tillögum forsætisráðherra.`` Það er eitt meginatriði í skipan mála í Stjórnarráðinu. Það er mjög viðamikil reglugerð sem ákveður slíka hluti. Og ég vek athygli á því að í mörgum tilfellum hafa einstakir hlutir verið fluttir á milli með reglugerð. Ég tek sem dæmi að þótt í lögum segi að viðskrn. fari með verslunarmálefni --- ég man ekki hvernig það er
orðað nákvæmlega --- þá var talið fært þegar ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar var mynduð árið 1987 að breyta með reglugerð því að utanríkisviðskiptin flyttust yfir í utanrrn. og ég tel það nákvæmlega rétt sem Bjarni Benediktsson benti hér á og ég rakti síðast, að það þarf að verða unnt að meta hvar einstökum verkefnum er réttast fyrir komið.
    Í mjög mörgum tilfellum eru stofnanir bundnar af lögum. Þær skulu heyra undir ákveðið ráðuneyti og því verður ekki breytt nema með lögum. Hins vegar er hægt með reglugerð að fela umhverfisráðuneyti samræmingu á t.d. ákvörðunum sem varða mengun á landi, í lofti og legi, eyðingu eða endurvinnslu hvers konar úrgangs, frá byggð og atvinnuvegum. Málefni sem í einstökum atriðum heyra undir einstök ráðuneyti þarf að samræma til að gætt sé heildaráhrifa þeirra á sviði umhverfismála. Einnig er hægt að fela slíku ráðuneyti með reglugerð að vinna að fræðslustarfsemi og almennri eflingu umhverfisverndar sem er náttúrlega mjög stórt atriði. Ég held að það hafi

komið fram hér í einhverri ræðunni áðan að fræðslu- og kynningarstarfsemin á þessum sviðum öllum er vitanlega afar mikilvæg og þar má bæta við upplýsingastarfsemi sem þætti í því.
    Það má líka fela ráðuneytinu visst frumkvæði á ýmsum sviðum. Það er t.d. hægt að fela ráðuneytinu að vara við ef eyðing landsins er orðin eitthvað hættuleg á ákveðnum sviðum. Það er ekkert sem bannar það. Það er hægt að fela því eftirlitshlutverk og frumkvæði að því leyti á mjög mörgum sviðum.
    Loks eru það hin alþjóðlegu samskipti sem hér hafa verið nefnd og eru orðin alveg gífurlegt viðfangsefni og hafa hvað eftir annað orðið okkur Íslendingum til leiðinda því að hér hefur ekki verið neinn aðili sem hefur tvímælalaust haft með þau að gera. Það hefur orðið til þess að á þessum mikilvægu fundum hefur enginn mætt eða kannski orðið annars kostar að mæta 3--5 ráðherrar. Þetta hefur oft borið á góma í þeim ríkisstjórnum sem ég hef setið í. Það er því ýmislegt sem svona ráðuneyti getur tekið við strax.
    Menn tala um að hér sé bara rammi sem ekkert sé inni í. Þá getum við eins sagt að stjórnarráðslögin sem samþykkt voru 1969 hafi bara verið rammi. Þau sögðu ekkert til um það hvað átti að heyra undir hvert ráðuneyti. Mér sýnist ekki hafa skort á að fyllt hafi verið inn í þann ramma. Og í raun og veru er stefnt að því miklu hraðar hér því að að sjálfsögðu geri ég a.m.k. ráð fyrir að það frv. sem liggur fyrir í allshn., um verkefnin, verði afgreitt áður en þingi lýkur en þá geti þessi starfsemi verið komin af stað og það tel ég töluvert mikilvægt.
    Hv. 6. þm. Vesturl. spurði hvort Framsfl. legði á það ofurkapp að afgreiða þetta frv. með ógnarhraða. Ekki þykir mér nú hraðinn mikill. Það var lagt fram um mánaðamótin október--nóvember á hæstv. Alþingi og ég er ekki að leggja áherslu á neinn ógnarhraða. Ég neita því ekki að eftir að hafa flutt mál tvisvar og í æðimörg ár stutt það að umhverfismál yrðu tekin föstum tökum þykir mér afar mikilvægt að umhverfisráðuneyti verði komið á fót og þess vegna geti undirbúningur að starfi þess hafist sem allra fyrst. Ég er hins vegar ekki að tala um neinn ógnarhraða og ég hef þegar rakið það að ég tel alls ekki
nauðsynlegt að hitt frv. sé afgreitt um leið heldur fylgi fljótlega á eftir.
    Þá spurði hv. þm. á hvaða sviði þeir tveir sérfræðingar ættu að starfa sem gert er ráð fyrir. Það hefur ekki verið ákveðið enn og þegar um þetta hefur verið fjallað hafa menn viljað hafa hliðsjón af því hvernig frv. það sem liggur fyrir hv. Nd. afgreiðist, þ.e. hver höfuðmálin verða þar, svo að ég skal ekki segja um það neitt frekar.
    Þá var spurt af hverju mætti ekki flytja Landgræðslu og Skógrækt í heild yfir í þetta ráðuneyti. Ég veit að Kvennalistinn hefur stutt það. Meiri hluti nefndarinnar féllst ekki á það og ég vil taka fram að ég er henni sammála vegna þess að það er afar slæmt að taka allt starf viðkomandi fagráðuneyta á svona sviðum, mengunar og

umhverfisverndar, frá þeim. Þetta verður líka að tengjast viðkomandi fagráðuneytum. Margoft hefur verið vitnað í Brundtland-skýrsluna í því sambandi. Ég hugsa að ég hafi verið einn af þeim fyrri sem las hana og mér til fróðleiks. Þar er lögð á hersla á það, það er alveg rétt. Hins vegar er líka lögð áhersla á samræmda stjórn umhverfismála og kemur náttúrlega mjög glöggt fram í því sem forsætisráðherra Noregs, Gro Harlem Brundtland, sjálf framkvæmdi, en hún var formaður þeirrar nefndar sem samdi þessa skýrslu. Þarna þarf því að gæta að hvoru tveggja, að umhverfisstjórnin sé samræmd en jafnframt að viðkomandi fagráðuneyti hafi þar ríka ábyrgð. Þess vegna tel ég ekki koma til mála að færa Landgræðslu og Skógrækt alfarið. Hins vegar verð ég að segja: Lágmarksáhrif umhverfisráðuneytis á Landgræðslu og Skógrækt hljóta að vera þau að geta ákveðið hvar er um ofbeit eða eyðingu lands að ræða og þá lagt svo fyrir að hún verði stöðvuð. Síðan er þá eðlilega viðkomandi fagráðuneyta að bæta þar úr. Um þetta hefur mikið verið fjallað og rætt í hv. Nd. og í hv. allshn. og verður vitanlega rætt í nefnd hér þegar það frv. kemur til afgreiðslu. Þarna verður að mínu mati að lenda málinu þannig að umhverfisráðuneyti hafi afgerandi áhrif til að stöðva gróðureyðingu, hvort sem um er að ræða graslendi eða skóg, en hins vegar hafi líka fagráðuneytið áfram hagsmuna að gæta í því og tæki til þess að bæta úr slíku og getur þá tekið landið aftur til beitar o.s.frv.
    Mig langar að geta þess, að gefnu tilefni, að mér þykir umræðan hér hafa verið fullkomlega málefnaleg og ég þakka það. Þetta er málefni sem á vitanlega ekki að ræða öðruvísi og ég vona að afgreiðsla þessarar hv. deildar geti öll orðið á þann veg.