Stjórnarráð Íslands
Þriðjudaginn 13. febrúar 1990


     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Ég hlýt að vekja athygli á því að fylgifrv. þessa frv. hefur núna strandað í meðförum neðri deildar og eins og hæstv. forsrh. gat um hér áðan er allsendis óvíst hvaða lendingu það frv. fær. Kannski það sem meira er, mér heyrist á málflutningi að það sé í mikilli óvissu hvaða verkefni það umhverfisráðuneyti á að fá sem hér er efnt til. Hæstv. forsrh. talar að vísu um það að nauðsynlegt sé að taka umhverfismál föstum tökum og hann talar einnig um það að fela verði ráðuneytinu að grípa inn í ef eyðing lands verði mikil á ákveðnum svæðum en að hinu leyti eigi t.d. Landgræðsla og Skógrækt ekki að falla undir þetta ráðuneyti. Nú er það svo að mjög er unnið að því að græða upp landið og reynslan hefur auðvitað sýnt að við þurfum ekki á nýju ráðuneyti að halda til þess að halda þeirri vinnu áfram, heldur þurfum við á því að halda að markvisst verði að því unnið, með því að efla þá sem vilja leggja á sig sjálfboðavinnu í því skyni, með því að ýta undir þann áhuga sem bændur hafa sýnt t.d. í sambandi við skógrækt, efla landgræðslu o.s.frv. Það er þess vegna ekki sannfærandi þegar talað er um að þetta sérstaka umhverfisráðuneyti eigi að grípa inn í á því sviði og það hefur ekki verið sýnt fram á að þar sé um neina knýjandi þörf að ræða. Það má vel vera að það geti valdið einhverjum erfiðleikum nú og þá að enginn einn ráðherra fari með málefni er varða umhverfismál með sama hætti og einum ráðherra er falið að fara með mál er varða Norðurlönd og Norðurlandaráð, en ekki hefur þótt ástæða af því tilefni til að efna til nýs ráðuneytis.
    Ég vil af þessum sökum beina því til forsrh. hvort honum finnist ekki eðlileg vinnubrögð í þinginu að sú nefnd sem fær málið til meðferðar, væntanlega allshn., athugi þessi mál og doki við þangað til fylgifrv. kemur hér upp í deildina og þessi tvö mál verði afgreidd saman. Ég held að slík vinnubrögð séu altíð hér í þinginu. Þá fer oft svo að aðalumræðurnar verða um
annað málið. Þá er talað um bæði málin samtímis þannig að slíkt mundi auðvitað koma í veg fyrir endurtekningu og greiða fyrir þingstörfum að öðru leyti.
    Þetta er kjarninn í því sem ég vil segja. Það er verið að tala um að nauðsynlegt sé að draga saman ríkisrekstur. Þegar liggur fyrir að umhverfisráðuneytið, bara stofnun þess, án allra verkefna, kostar um 23 millj. kr. á þessu ári samkvæmt fjárlögum. Ef verkefni verða færð til umhverfisráðuneytis frá öðrum ráðuneytum er gert ráð fyrir að fjármunir til þeirra verkefna fylgi, þannig að það fellur ekki til kostnaður af þeim sökum á umhverfisráðuneytið. Þessar 23 millj. eru eingöngu eyðslukostnaður, ef svo má segja, til þess að koma á fót þessari sérstöku stjórnardeild til þess að fylla upp í húsnæði, til þess að kaupa tölvur og annað því líkt, án þess að nokkurt verkefni fylgi. Ég held að þetta sé í rauninni kjarni málsins. Við getum líka lesið það út úr fjárlögum að fjölgun

ráðherra um tvo kostar einhvers staðar á milli 30 og 40 millj. eins og frv. liggur fyrir nú. Ég hygg að það kosti ekki minna fyrir ríkissjóð en 7 millj. að hafa sérstakan dómsmrh. þannig að við erum strax farin að tala um verulegar fjárhæðir, 30--40 millj., bara vegna þessara tveggja mála, bara vegna þess að ríkisstjórninni var breytt, fjölgað flokkum sem að henni standa án þess að þeir flokkar sem fyrir voru gætu á það fallist að fækka ráðherrum hjá sér sem auðvitað hefði verið eðlilegt miðað við þær þröngu kringumstæður sem við nú búum við.
    Ég hlýddi á það í sameinuðu þingi í gær, hæstv. forseti, að fjórir þingmenn Framsfl. mæltu fyrir till. til þál. þar sem þá munaði ekki um að leggja til að ríkisstjórnin efndi til margvíslegra framkvæmda hér í Reykjavík sem ég hygg að nauðsynlegt sé að meta í milljörðum króna, ef ætti að leysa það sem þeir vilja fela ríkisstjórninni, að allir skólar í Reykjavík verði einsetnir frá og með næsta hausti, og ef þeir vilja koma því einnig áleiðis að skólaeldhús taki til starfa, sérstakt mötuneyti, fyrir nemendur í öllum grunnskólum Reykjavíkur. Þarna erum við að tala um milljarða króna.
    Auðvitað er þessi fjárhæð sem ég er að tala um ekkert í líkingu við það, litlar 40--50 millj., en það hefði verið viðkunnanlegra ef hæstv. forsrh. hefði fækkað ráðherrum þegar hann myndaði síðustu ríkisstjórn, ef Alþb. hefði verið látið hafa tvo ráðherra í staðinn fyrir þrjá sem er tölulega réttara en sá mismunur sem nú er, að þeir séu með þrjá ráðherra og Borgfl. tvo. Og ég get ekki betur séð en að Alþfl. hafi líka mátt missa af einum ráðherra, jafnmikla áherslu og þeir alþýðuflokksmenn vilja stundum leggja á sparnað í opinberu kerfi og eftir að fyrir liggur að formaður Alþfl. Jón Baldvin Hannibalsson hefur lýst yfir að hann vilji ekki hafa ráðuneytin fleiri en sex eða sjö. Ég geri því ráð fyrir að fyrir því gæti orðið hljómgrunnur í ríkisstjórninni að fækka bara ráðherrum þessara flokka, og þá væri hægt að komast hjá þessu öllu saman. Þá er hægt að spara einhvers staðar í kringum 10 millj., kannski 15 millj., í sambandi við dómsmrn. og svo allt það sem við sjáum að lagt er til að kosta til umhverfisráðuneytis án þess að nokkur verkefni fylgi. Þannig var frá fjárlögum gengið að þessar 23 millj. sem til þess fara eiga ekki að ganga til úrvinnslu á neinum verkefnum, bara til þess að veita fólkinu samastað. Á
þetta vil ég leggja áherslu, líka vegna þess að ég veit að ríkisstjórnin á í erfiðleikum með að finna liði sem hægt er að skera niður og koma þannig til móts við aðila vinnumarkaðarins og þjóðina sem ekki vill setja þá kröfu fram meðan þessi ríkisstjórn situr að hægt sé að búast við að kjör batni. Það kemur annað slagið í blöðunum núna að einhverjir minnihlutahópar, t.d. hjá Dagsbrún, bílstjórar og fleiri, ég skal ekki segja um bankamenn sem eru búnir að fá verkfallsheimild, vilji kannski ná í svona 1--2% í viðbót ( Gripið fram í: Verkfræðingar.) og verkfræðingar. Og það er litið á þessar stéttir sem hálfgerða svikara við þjóðarsáttina, þannig að ég geri ráð fyrir að hæstv. forsrh. hafi á

því glöggan og góðan skilning að það yrði mikils metið af þjóðinni ef umhverfisráðuneytinu yrði bara stungið ofan í stól, ef fækkað yrði um tvo ráðherra í ríkisstjórninni og þannig komið verulega til móts við stjórnina í sparnaðinum.
    Hitt hljómar undarlega að segja í öðru orðinu að nauðsynlegt sé að taka umhverfismál föstum tökum en í hinu orðinu að enginn viti hver verði niðurstaðan um þá málaflokka sem falla undir umhverfisráðuneytið. Þar eru lausatökin. Ef lausatök eru á þeim vængnum er ekki hægt að búast við föstum tökum inni í ráðuneytinu sjálfu nema þá til að eyða þessum litlu 23 millj. sem hvort sem er verða til einskis.
    Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri nú. Umræðurnar hljóta að verulegu leyti að fara fram hér í deildinni eftir að fyrir liggur í fyrsta lagi hvort hæstv. forsrh. vill fallast á þessa sanngjörnu ósk, að þessi frv. fari saman í deildinni. Ég veit að hann skilur það hagræði sem slíkt hefur í för með sér, fyrir okkur sem hér erum, nefndarstörfin öll o.s.frv. En ég hef ekki séð að það skorti neitt upp á það að hæstv. ráðherra Hagstofu geti annast alþjóðleg viðskipti, eða var það rangt tekið eftir hjá mér að hagstofuráðherra Íslands hafi boðið umhverfisráðherra Vestur-Þýskalands í opinbera heimsókn? Það má kannski vera að bréfið hafi lent á vitlausum stað úti í Vestur-Þýskalandi og hugmyndin hafi verið sú að reyna að leita uppi hagstofustjóra þeirra Vestur-Þjóðverja og hugmyndin sé að fara með hann um æðarvörpin hér á landi.