Stjórnarráð Íslands
Þriðjudaginn 13. febrúar 1990


     Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu mína langa heldur aðeins skýra það sem ég sagði hér í fyrri ræðu minni af því að greinilegt er að það hefur verið lagt út á annan veg en ég ætlaði. Ég vil ekki þm. Sjálfstfl. eða Kvennalista það illt að halda því fram að þeir ætli að standa í vegi fyrir því að umhverfismál komi hér á dagskrá og það verði tekið á þessum málum af festu. Hins vegar finnst mér sá málatilbúnaður sem hefur einkennt umræðuna, ekki í þessari deild, heldur í Nd., vera þess eðlis að það sé ekki hugsað fyrst og fremst um hagsmuni umhverfisins, heldur hitt að umræðan hefur tekið mið af því hver á að taka við ráðuneytinu og hvernig hann hafi hagað sér. (Gripið fram í.) Ég sagði umræðan í Nd. (Gripið fram í.) Ég tók það jafnframt fram hér í lokaorðum mínum áðan að ég fagnaði því að við hér í Ed. skyldum hafa tekið á þessu á mjög málefnalegan hátt og menn ekki farið þannig út fyrir efnið að ástæða sé til að vera með gagnrýni.
    Hins vegar, og eins og menn vita, hafa bæði þessi frv., þetta og fylgifrv., verið í Nd. meira og minna síðan um mánaðamótin október--nóvember, eða ég held að þau hafi verið lögð fram 10. eða 15. nóv.
    ,,Um öfuga röð á afgreiðslu máls`` hafði ég nóterað hérna fyrir framan mig. Það sem hv. 6. þm. Reykn. vildi að yrði gert var að fyrst ætti að afgreiða verkefnin og síðan stofna umhverfisráðuneytið. Mín skoðun er sú að fyrst eigi að stofna umhverfisráðuneytið og síðan að ákveða verkefnin. Um það snýst málið. Ég get ekki skilið hennar orð öðruvísi en að hún vilji fyrst ákveða verkefnin og síðan stofna ráðuneytið, hvenær svo sem ráðuneyti yrði síðan stofnað. Síðan kom hún inn á það af hverju hitt frv. hafi verið samið. Það kemur greinilega fram í greinargerð þess frv. og frv. sem við ræðum hér um að það er fylgifrv. þessa frv. og fjallar fyrst og fremst um það hvaða stofnanir, sem falla undir önnur ráðuneyti í dag, skuli falla undir umhverfisráðuneyti.
Það er ekki þar með sagt að ekki sé hægt að stofna umhverfisráðuneytið. Þvert á móti er það þannig að ýmis verkefni sem falla undir ráðuneyti er ekki mælt fyrir um í lögum heldur leiðir það af eðli máls og þeirri reglugerð sem er um Stjórnarráð Íslands, t.d. alþjóðasamskipti um viðkomandi málaflokk, eins og umhverfismála, að það er ekki mælt fyrir um það í lögum að ráðherra umhverfismála skuli fara á þessa eða hina ráðstefnuna, heldur leiðir það bara af ráðherratitlinum sem slíkum. Þetta vildi ég að kæmi hér fram og ég vildi leggja áherslu á það að með stofnun umhverfisráðuneytis er verið að koma á samræmdri stjórn umhverfismála og færa umhverfismál, sem eru núna undir átta ráðuneytum, á eina hendi til þess að gera veg umhverfisins það mikinn að við getum búið í þessu landi um ókomna tíð og að fylgst verði með því sem er að gerast í heiminum á sviði umhverfismála, en eins og allir vita eiga umhverfismál engin landamæri. Það sem er að gerast í Austur-Evrópu varðar okkur mjög, og það

sem er að gerast í Sovétríkjunum og Bandaríkjunum, varðandi mengun þar, kemur okkkur við. Það kemur niður á okkur eftir nokkur ár. Þess vegna eigum við að taka myndarlega á þessum málaflokki og einnig hitt að við, sem viljum telja okkur búa í hreinu landi, eigum að vera frumkvöðlar að því að koma á alþjóðaráðstefnum hér á landi og leggja áherslu á það fyrir ímynd Íslands út á við að hér sé hreint og fagurt land og breiða það út um heimsbyggðina.