Skattskylda orkufyrirtækja
Þriðjudaginn 13. febrúar 1990


     Halldór Blöndal (um þingsköp):
    Herra forseti. Þessi umræða hefur tekið undarlegar vendingar. Nú skilst mér að hæstv. orkuráðherra sé reiðubúinn að kveðja sér hljóðs. En til þess að knýja fram þær málalyktir hafa þeir þingmenn sem hafa takmarkaðan fjölda ræðutíma orðið að tala sig dauða, eins og sagt er. Nú liggur það fyrir að hv. 4. þm. Vestf. hefur farið fram á að umræðunni verði frestað þangað til niðurstaða liggur fyrir í ríkisstjórn.
    Hæstv. iðnrh. var svo smekklegur síðast þegar málið var hér til umræðu að senda þau skilaboð í þingsalinn að hann ætlaði ekki að taka til máls, en hljóp síðan í sjónvarpið þar sem hann lýsti því yfir að þetta frv. ylli almennum og verulegum hækkunum á raforkuverði, og lýsti því jafnframt yfir að frv. væri út úr kortinu, eins og sagt er. Og hann sagði þar að þetta frv. næði ekki sínum tilgangi, í fullvissu þess að enginn úr stjórnarandstöðunni var til andsvara. Síðan hefur það gerst í sjónvarpsþætti í gærkvöldi að hæstv. fjmrh. lýsti því yfir að það hefði verið hugmynd Alþfl. að leggja orkuskattinn á og að Alþfl. hefði átt allt frumkvæði að því á jólaföstu að þetta mál var knúið í gegn í ríkisstjórninni. Og ég hygg að á bak við ummæli hæstv. fjmrh. sé það að þegar sú ákvörðun var tekin hjá formönnum stjórnarflokkanna hinn 30. nóv. að lækka virðisaukaskattinn úr 26% í 24,5% hafi krafa Alþfl. verið sú að það bil yrði brúað með álagningu orkuskatts.
    Ég spurði hæstv. forsrh. að því hvort þetta væri rétt og hann, aldrei þessu vant, var gleyminn og mundi nú ekki almennilega hvernig málið hefði borið að, hélt helst að Framsfl. hefði stungið upp á orkuskattinum, en sagði a.m.k. að það gerði ekkert til þótt Framsfl. yrði kennt um það. Hann er alltaf reiðubúinn til að taka á sig bæði vammir og skammir, hrós og lof, hæstv. forsrh., og veit eiginlega ekki stundum hvort heldur er. En svona er nú þetta.
    Nú er auðvitað ekkert við því að segja, herra forseti, þó hæstv. iðnrh. kjósi að taka til máls áður en málið er afgreitt í ríkisstjórninni í fullvissu þess að þegar málið kemur þaðan og frá því verður skýrt hér í deildinni hver niðurstaðan hefur orðið geti helst enginn þingmaður tekið til máls að réttum þingsköpum. Þannig liggur þetta mál.
    En eins og staðreyndirnar liggja fyrir, og maður sér þær, þá er það í fyrsta lagi að Alþfl. krafðist þess að orkuskatturinn yrði lagður á og átti hugmyndina. Í öðru lagi að Alþfl. segir að orkuskatturinn nái ekki sínum tilgangi og brjóti í bága við þá almennu kjarasamninga sem nú er búið að gera þar sem þessi skattur hafi í för með sér almenna og verulega hækkun á raforkuverði. Þetta er kjarni málsins.