Skattskylda orkufyrirtækja
Þriðjudaginn 13. febrúar 1990


     Þorv. Garðar Kristjánsson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Ég fór áðan fram á að umræðunni yrði frestað og taldi mig færa fram rök fyrir því. Síðan hefur komið í ljós að hæstv. iðnrh. hefur óskað að taka til máls. Um það vil ég segja: Ég set mig ekki upp á móti því en ég tel að það fari vel á því að fresta þá umræðunni eftir að ráðherra hefur talað. Ég fyrir mitt leyti kann að þurfa að svara hæstv. ráðherra, og ég veit að það er svo um fleiri hv. þm. hér. En ég vil ekki eyða, ef svo mætti segja, því tækifæri sem ég hef til þess að taka til máls, sem er bara í eitt skipti til viðbótar, fyrr en ég hef heyrt hver eru úrslit þessa máls hjá ríkisstjórninni. Þess vegna tel ég að ef iðnrh. leggur áherslu á að tala nú væri eðlilegt að fresta umræðunni eftir ræðu hans. ( Forseti: Umræðunni verður þá frestað að lokinni ræðu hæstv. iðnrh. sem tekur nú til máls.)