Réttur til fiskveiða í landhelgi Íslands
Þriðjudaginn 13. febrúar 1990


     Frsm. meiri hl. sjútvn. (Matthías Bjarnason):
    Herra forseti. Þetta frv. um breytingu á lögum nr. 33/1922, um rétt til fiskveiða í landhelgi Íslands, hefur verið flutt á þremur þingum, fyrst árið 1987--88 og síðan á þinginu 1988--89 og nú á þessu þingi.
    Á síðasta þingi var þetta mál afgreitt hér úr deildinni með 20 shlj. atkv. til Ed. þann 19. maí og sama dag fór fram 1. umr. í Ed. og því vísað til nefndar en þaðan kom það ekki aftur. Í fyrsta sinn sem málið var flutt var það ekki afgreitt úr nefnd en reynt var að leita eftir samstarfi við viðkomandi ráðuneyti um það að endurskoða þessi lög. Ég var þá ef ég man rétt formaður sjútvn. og ræddi það við ráðuneytisstjóra sjútvrn. og sagði að vilji væri fyrir því í nefndinni að endurskoða þessi lög en ekkert kom úr ráðuneytinu svo að flm. þessa frv. fluttu það öðru sinni. Og eins og ég sagði áðan var málið afgreitt frá þessari hv. deild til Ed. þar sem það dagaði uppi.
    Flm. þessa máls nú eru fimm af sjö fulltrúum í sjútvn. 1. flm. málsins frá byrjun hefur verið Ólafur Þ. Þórðarson og með honum fyrrv. þm. Kjartan Jóhannsson. Þeir fluttu málið tveir í fyrsta skipti en á síðasta þingi tóku allir nefndarmenn í sjútvn., sem þá voru, að einum undanskildum, undir þetta mál með því að gerast flm. Málið fór því í gegn hér með samhljóða atkvæðum en segja má að það hafi gengið heldur þunglega að koma því út úr nefndinni.
Þótti okkar nefndarmönnum sem erum flm. málsins engin tormerki á því að afgreiða málið strax til deildarinnar til afgreiðslu en formaður nefndarinnar óskaði eftir því að málið lægi í nefndinni og þaðan var það ekki afgreitt fyrr en 1. febr. Og senn er hálfur mánuður frá því að nefndin skilaði nál. þegar það kemur nú til umræðu í hv. þingdeild.
    Eins og áður hefur komið fram ræddi nefndin á síðustu tveimur þingum um frv. við skrifstofustjóra í sjútvrn., aðstoðarmann utanrrh. Þá lágu fyrir nefndinni umsagnir um frv. frá þingi Sjómannasambands Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandinu, Félagi fiskimjölsframleiðenda, Landssambandi ísl. útvegsmanna og Fiskifélagi Íslands.
    Ég verð að segja það fyrir mitt leyti að í fyrra þegar málið var afgreitt úr nefndinni fannst mér ekki mikið koma til sumra þessara umsagna og var eiginlega farið undan í flæmingi í sambandi við afstöðu til málsins. Hér er um að ræða að undanskilja fiskiskip frá Færeyjum og Grænlandi ákvæðum síðari málsl. 1. mgr. þessara gömlu laga, sem eru orðin 68 ára.
    Flestar þjóðir taka fegins hendi við hráefni sem berst og vilja með því auka framleiðslu þjóðarinnar og útflutningsverðmæti. Ekki veit ég til þess að Færeyingar neiti nokkru íslensku skipi um að landa ef það óskar eftir að landa fiski eða sjávarafurðum í Færeyjum heldur sækja þeir mjög eftir slíkum viðskiptum. En hér á að viðhalda lögum, sem voru góð á sinni tíð en eru löngu orðin úrelt, alveg í það óendanlega. Þetta skil ég ekki. Á sama tíma og verið

er að takmarka veiðar innan 200 mílna fiskveiðilögsögu á að girða fyrir það enn um sinn að erlend skip sem veiða utan 200 sjómílna geti lagt afla hér á land nema að sækja um sérstakt leyfi til æðsta stjórnvalds.
    Áður hefur verið sagt að frelsisalda leiki nú um álfuna. En það eru einhverjir annars konar vindar sem leika hér um þessa þjóð að dómi sumra manna. Ég hélt líka að það væri mikils virði að skip sem veiddu hér utan 200 sjómílna hefðu tækifæri til þess að leita hafnar og eiga viðskipti við landið, bæði þjónustu í fyrirtækjum sem nú standa mörg hver höllum fæti og sömuleiðis að auka viðskipti Íslendinga við aðrar þjóðir. Þess vegna er það skýlaust álit okkar sem skipum meiri hl. sjútvn. að þetta frv. beri að samþykkja og það sé meiri nauðsyn að samþykkja í ár en í fyrra, þegar það var samþykkt, því allt knýr á um það að við þurfum að létta þessum fjötrum af okkur.
    Minni hl. nefndarinnar, tveir nefndarmenn, leggja til að frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Hvað þýðir það? Það þýðir það að ríkisstjórnin hefur ekki haft áhuga á því eða það ráðuneyti sem um málið fjallar að endurskoða þessi lög. Það er búið að hafa til þess tækifæri frá því að þeir félagar tveir fluttu þetta frv. í fyrsta sinn fyrir þremur árum. Hver er þá tilgangurinn með því að leggja til að vísa frv. til ríkisstjórnarinnar? Hann er auðsær. Tilgangurinn er sá að hamla á móti því að gera þessa sjálfsögðu breytingu. Ég vona að stuðningsmönnum þessa frv. hafi ekki fækkað frá sl. ári heldur hafi þeim fjölgað. Ég legg því eindregið til og við í meiri hl. sjútvn. að frv. verði samþykkt eins og það liggur fyrir á prentuðu þskj.
    Ég vil svo þakka flm., sérstaklega þeim sem áttu frumkvæði að því að flytja þetta frv. á sínum tíma, fyrir að sýna þá þrautseigju að halda því áfram og ég vona að þetta mál fái nú snara afgreiðslu hér í hv. þingdeild þannig að Ed. geti ekki afsakað sig með því að hún hafi ekki tíma til þess að skoða málið.