Réttur til fiskveiða í landhelgi Íslands
Þriðjudaginn 13. febrúar 1990


     Frsm. minni hl. sjútvn. (Jón Sæmundur Sigurjónsson):
    Herra forseti. Eins og fram kom hjá hv. 1. þm. Vestf. klofnaði sjútvn. í þessu máli í meiri hl. og minni hl. Meiri hl. leggur til að fram komið frv. verði samþykkt en minni hl., hv. þm. Guðni Ágústsson og Jón Sæmundur Sigurjónsson, leggja til að frv. þessu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Í þessu frv. er lagt til að undanþágur frá gildandi lögum, sem eru 68 ára gömul orðin eins og kom fram hjá hv. 1. þm. Vestf., verði veittar fiskiskipum frá Grænlandi og Færeyjum til að landa afla sínum hér á landi. Minni hl. þótti sýnt að þetta frv. kæmi ekki til með að breyta neinu um þá framkvæmd sem er viðhöfð í dag. Samkvæmt samkomulagi hafa grænlensk skip sem stunda veiðar við Austur-Grænland heimild til löndunar og allrar skipaþjónustu í íslenskum höfnum. Þetta er eins og fram hefur komið frávik frá ákvæðum laganna. Færeyingar sem veitt hafa botnfisk hér við land hafa aldrei leitað eftir að fá afla landað hér á Íslandi. Í samningum milli Íslands, Grænlands og Noregs er skipum þessara þjóða sem loðnuveiðar stunda veittur löndunarréttur í hverju þessara landa. Á loðnuvertíðinni sem yfir stendur hefur þegar verið aflað á Íslandi yfir 200 þús. tonnum af loðnu. Af þessum rúmum 200 þús. tonnum hafa Norðmenn og Færeyingar landað 5--7 þús. tonnum og hafa þeir þó allar heimildir til að landa loðnu eins og þeir kæra sig um. Það virðist vera sem skip Norðmanna aðallega og að minnstum hlut Færeyinga hafi landað í hvert skipti einungis slöttum af loðnuafla þegar viðkomandi skip hafa rifið net sín og þurfa að koma inn til viðgerða, ekki í þeim tilgangi beinlínis að landa sínum afla á Íslandi heldur fyrst og fremst til að leita þjónustu. Þessar þjóðir notfæra sér þess vegna ekki þær heimildir sem fyrir eru til löndunar á afla, heldur eru fyrst og fremst að leita þjónustu, sem þær auðvitað fá.
    Það er því álit minni hl. að fram komið frv. sé tilefnislaust. Það breytir engu um framkvæmd þessara mála eins og þau eru í dag. Þessar tvær þjóðir hafa allar þær heimildir sem þær þurfa til þess að landa því sem þær vilja landa hér á Íslandi. Það er því rétt eins og stendur í nál. minni hl. að láta breytingar á ákvæðum um löndunarrétt þessara þjóða bíða uns náðst hafa frekari samningar um gagnkvæma nýtingu sameiginlegra fiskstofna því að telja verður að löndunarréttindi muni skipta verulegu máli í viðræðum um nýtingu þessara stofna. Gæti það veikt samningsaðstöðu okkar ef við hefðum í raun einhliða afsalað okkur ákvörðunarrétti í þessu efni. Við hefðum viljað gera að okkar orðum álit Fiskifélags Íslands, sem sendi meðal annarra álitsgerð til nefndarinnar á fyrra ári um þetta mál, þar sem stendur:
    ,,Stjórn Fiskifélagsins telur óæskilegt að fram komið frv. verði að lögum í þeirri mynd sem það er lagt fram.`` Og síðar segir í áliti Fiskifélagsins, með leyfi forseta: ,,Stjórn félagsins hvetur eindregið til að þessi úreltu lög verði endurskoðuð til samræmis við

þær heimildir sem Íslendingar njóta hjá öðrum fiskveiðiþjóðum.``
    Og það er í því sambandi sem minni hl. mundi vilja taka þetta mál upp í heild, þannig að öllum þjóðum yfirleitt væri veittur löndunarréttur í íslenskum höfnum en það yrði þá gert í gagnkvæmum samningum við viðkomandi þjóð.