Réttur til fiskveiða í landhelgi Íslands
Þriðjudaginn 13. febrúar 1990


     Alexander Stefánsson:
    Herra forseti. Það er litlu við að bæta það sem hér hefur komið fram því að aðalrökstuðningurinn fyrir þessu er ósköp einfaldur og liggur í tillögunni sjálfri og þeirri greinargerð sem hér hefur verið kynnt.
    Þetta er búið að vera nokkuð lengi til meðferðar hér á hv. Alþingi og ég verð að segja það alveg eins og er að þegar maður horfir á það að við erum að mikla okkur af því að efla sérstakt samstarf við þessar nágrannaþjóðir eins og Grænlendinga og Færeyinga, þá skýtur nokkuð skökku við að þurfa að hafa uppi svona efasemdir um það að við séum bæði að bæta þessi samskipti, gera þessum þjóðum auðveldara um vik og okkar eigin þjóð og okkar hagsmunaaðilum hér í landi að styrkja stöðu þeirra með svona einfaldri aðgerð.
    Ég hef setið þing Vestnorræna þingmannasambandsins sem fjallar um náin samskipti þessara þriggja þjóða og mér finnst það vera ansi napurlegt að þurfa að segja við þingmennina, félaga okkar í þessum þjóðlöndum, að Alþingi Íslendinga treysti sér ekki til þess að hafa frjáls samskipti, að leyfa grænlenskum útgerðarmönnum og fiskimönnum að landa hér óhindrað án þess að vera á undanþágu og leyfa Færeyingum hið sama. Þetta finnst mér vera ósköp einföld rök og það er ekkert í mínum huga sem réttlætir það að standa gegn þessu. Og ég er alveg undrandi þegar ég hlusta á þau rök hv. frsm. minni hl. sjútvn., sem og raunar stendur hér í greinargerðinni, að það gæti veikt samningsstöðu okkar ef við hefðum í raun einhliða afsalað okkar ákvörðunarvaldi í þessu efni.
    Þetta kemur bara ekkert við þeim samningum sem við kunnum að þurfa að gera í sambandi við fiskistofnana sjálfa. Þetta er útúrsnúningur og ég sé ekki að það veiki stöðu okkar í alþjóðasamningum um rétt okkar til yfirráða yfir fiskstofnum. Hér er eingöngu um að ræða að greiða fyrir eðlilegum samskiptum sem allir hafa hag af. Og ef þessar þjóðir hafa þennan rétt sem kom fram í máli hv. frsm. minni hl., hvað er þá í veginum
fyrir því að setja þetta inn í þessi gömlu lög skýrum stöfum þannig að það þurfi ekki að vera að eltast við undanþáguákvæði þessara laga?
    Hins vegar get ég tekið undir það og hef sagt það áður hér við umræður um þetta mál að það er ekkert eðlilegra en fara að endurskoða þessi lög. Og það er heldur ekkert eðlilegra heldur en að ætlast til þess að yfirstjórn sjávarútvegsmála komi með breytingu eða endurskoðun á þessum lögum inn á Alþingi. Það er rétt sem hér hefur komið fram. Þessi lög eru orðin 68 ára gömul og vissulega orðin úrelt miðað við þau samskipti þjóða sem eru talin eðlileg í dag. Og ég vona að hv. alþm. átti sig á því að hér er um einfalt og sjálfsagt mál að ræða sem ætti ekki að þurfa að vera að deila um.