Laun forseta Íslands
Þriðjudaginn 13. febrúar 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Í frv. þessu eru gerðar tvær leiðréttingar, vil ég leyfa mér að kalla það, á lögum um laun forseta Íslands. Þessar breytingar eru í 5. og 6. gr. frv.
    Í 5. gr. frv. er gert ráð fyrir því að fella niður skilyrði um 65 ára aldur og örorku til þess að forseti Íslands geti öðlast rétt til eftirlauna. Sá fyrirvari er settur að eftirlaunin falli niður meðan fyrrv. forseti gegnir stöðu í þjónustu ríkisins ef henni fylgja jafnhá eða hærri laun, ella greiðist þá launamismunurinn. Þeim sem hafa um þetta fjallað þykir eðlilegt að forseti geti notið eftirlauna þegar hann lætur af starfi eins og kemur hér fram án þess að hafa náð 65 ára aldri.
    Í öðru lagi er breyting í 6. gr. sem er leiðrétting því að í 6. gr. er talað um ekkju forseta Íslands sem er að sjálfsögðu tímaskekkja og er því breytt í maka forseta Íslands þegar fjallað er um þau réttindi sem til maka falla í þessu tilefni.
    Ég sé, herra forseti, ekki ástæðu til þess að hafa um þetta langa framsögu. Þetta skýrir sig sjálft. Málið er búið að fara í gegnum Ed. og var samþykkt þar óbreytt. Ég vil því leggja til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. allshn.