Skipulags- og byggingarlög
Þriðjudaginn 13. febrúar 1990


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til skipulags- og byggingarlaga sem koma eiga í stað byggingarlaga nr. 54/1978 og skipulagslaga nr. 19/1964.
    Frv. þetta var samið af nefnd sem ég skipaði 12. apríl 1989. Var nefndinni falið að semja frv. til l. sem næði bæði til skipulags- og byggingarmála og hafa við það hliðsjón af fyrirliggjandi frumvörpum um hvern málaflokk fyrir sig. Í nefndinni áttu sæti Björn Friðfinnsson ráðuneytisstjóri sem var formaður nefndarinnar, Sigurgeir Sigurðsson bæjarstjóri, Guðmundur G. Þórarinsson alþm. og Guðrún Helgadóttir alþm. Með nefndinni störfuðu Stefán Thors skipulagsstjóri og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir lögfræðingur sem var ritari nefndarinnar.
    Frv. það sem vísað var til í skipunarbréfi nefndarinnar er í fyrsta lagi frv. til skipulagslaga frá því í júní 1986. Var það samið af starfshópi undir forsæti Hallgríms Dalbergs, fyrrv. ráðuneytisstjóra í félmrn. Það var lagt fyrir Alþingi veturinn 1986--87 en varð þá ekki útrætt. Haustið 1987 var starfshópi síðan falið að yfirfara frv. í ljósi athugasemda og brtt. sem fyrir lágu og hafði starfshópurinn gert nokkrar breytingar á frv. er hann lauk störfum hinn 18. nóv. 1987.
    Í öðru lagi var vísað til frv. til byggingarlaga sem samið var af nefnd sem ég skipaði hinn 11. ágúst 1987. Var Stefán Thors skipulagsstjóri formaður
nefndarinnar. Nefndin skilaði frv. ásamt athugasemdum við það hinn 8. mars 1988.
    Í umfjöllun um framangreind frumvörp hafa komið fram skiptar skoðanir um ýmis atriði þeirra. Á það var m.a. bent að eðlilegra væri að fjalla um skipulags- og byggingarmál í sömu lögum, enda væri hér um nátengd verkefni að ræða. Í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi hafa t.d. skipulags- og byggingarlög verið felld í einn lagabálk á síðustu árum. Með því að sameina skipulags- og byggingarlög í einn lagabálk er stuðlað að nauðsynlegu samræmi í meðferð þessara mála jafnt hjá sveitarstjórnum og hjá Skipulagi ríkisins.
    Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga í þessum málaflokki hefur gefið tilefni til ýmissa athugasemda frá sveitarstjórnum og samtökum þeirra og hefur verið komið til móts við margar þessar athugasemdir með því m.a. að auka hlutdeild og ábyrgð þeirra í skipulagsmálum og skilgreina betur hlutverk skipulagsstjórnar, skipulagsstjóra og sveitarstjórnanna.
    Lög um skipulagsmál voru fyrst sett hér á landi árið 1921. Á þeim voru gerðar breytingar á árunum 1926, 1932 og 1938. Lögin voru leyst af hólmi með núgildandi skipulagslögum nr. 19/1964, en á þeim hafa verið gerðar breytingar á árunum 1972, 1974 og 1978. Fram til ársins 1978 voru aðeins þau sveitarfélög skipulagsskyld þar sem voru þéttbýliskjarnar með 50 íbúum eða fleiri. Í tengslum við setningu nýrra byggingarlaga árið 1978 var gerð sú breyting á skipulagslögum að allt landið var gert

skipulagsskylt þannig að allar byggingar ofan jarðar og neðan urðu að vera í samræmi við áður gert skipulag sem samþykkt hafði verið af sveitarstjórn og skipulagsstjórn ríkisins.
    Lög um byggingarmál eru frá 1978 og tóku þau gildi 1. jan. 1979. Þau koma í stað nokkurra laga og tilskipana frá eldri tíð þar sem heimild var veitt til þess að stofna byggingarnefndir og setja staðbundnar byggingarsamþykktir en meginbreytingin sem gerð var með lögunum er sú að skv. þeim var sett byggingarreglugerð sem gildir fyrir landið allt. Upphaflega reglugerðin er nr. 292/1979, en á henni hafa nokkrum sinnum verið gerðar breytingar. Síðustu breytingar tóku gildi 1. ágúst 1989 og náðu þær m.a. til burðarþols bygginga.
    Kröfur til skipulags byggðar og um gæði bygginga hafa aukist mikið á síðustu árum jafnframt því sem þekking á skipulags- og byggingarmálum hefur aukist mikið. Tekið er tillit til fleiri sjónarmiða við gerð skipulagsáætlana sem fjalla um heildarbyggð hvers sveitarfélags og einnig við gerð skipulagsáætlana sem gilda fyrir takmarkaða hluta byggðarinnar. Það sjónarmið er nú ríkjandi að með vönduðum skipulagsáætlunum megi bæta það umhverfi sem maðurinn, með sínum framkvæmdum, er stöðugt að breyta og spara jafnt heimilum, atvinnulífi og opinberum aðilum mikinn kostnað.
    Stærstur hluti þéttbýlis hér á landi á sér ekki langan aldur og stærstur hluti íbúðar- og atvinnuhúsnæðis hefur risið á síðustu fimm áratugum. Á næstu áratugum má reikna með aukinni áherslu á endurnýjun eldri byggðarhverfa, jafnframt því sem auknar kröfur verða gerðar til vandaðs undirbúnings við skipulagningu nýrra hverfa og hönnun bygginga.
    Allt fram á síðustu ár hefur megináherslan í skipulags- og byggingarmálum verið á þéttbýlisstöðum en eftir því sem tekist hefur að ljúka þar verkefnum sem hafa verið mest aðkallandi hefur áherslan verið að færast yfir í strjálbýli þar sem framkvæmdir hafa einnig verið miklar. Veruleg aukning hefur verið í byggingu sumarbústaða, fiskeldisstöðva og fleiri mannvirkja sem hafa veruleg áhrif á útlit umhverfisins.
    Á næstu árum verður að öllum líkindum lögð mun meiri áhersla á gerð svæðaskipulaga eftir því sem byggð landsmanna þéttist. Svæðisskipulag nær til
tveggja eða fleiri sveitarfélaga og tekur m.a. til landnotkunar og samgangna. Á sama hátt og aukin áhersla er nú lögð á vandaðar skipulagsáætlanir hafa kröfur til bygginga aukist mikið með aukinni velmegun og tæknikunnáttu þjóðarinnar. Gerðar eru strangar kröfur til styrkleika og endingar bygginga og jafnframt til innra skipulags og ytra umhverfis þeirra m.a. með tilliti til aðgengis hreyfihamlaðra. Byggingar eiga að veita gott skjól gegn óblíðri veðráttu, þær eiga að stuðla að góðu heilsufari og ánægjulegu samfélagi. Byggingarnar þurfa að standast jarðskjálfta og álag vinda og útlit þeirra þarf að falla að heildaryfirbragði viðkomandi byggðarhverfis.
    Skipulags- og byggingarmál eru mikilvægir

málaflokkar í stjórn sveitarfélags og umhverfismótun almennt. Byggingarfulltrúar eru starfsmenn sveitarfélaga og þeirra hlutverk er m.a. að sjá til þess að ekki verði veitt byggingarleyfi sem brjóti í bága við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag. Byggingarnefnd og byggingarfulltrúum geta orðið á mistök og heimilað framkvæmdir sem eru á annan veg en skipulag eða lög og reglur segja fyrir um. Þessi mistök geta skert hagsmuni annarra íbúa. Með því að gefa þeim, sem telja rétti sínum hallað með ályktun byggingarnefndar, kost á að skjóta máli sínu til ráðherra til úrskurðar, er verið að tryggja á fljótvirkan hátt rétt hins almenna borgara. Væri þessi leið ekki opin þyrfti fólk að leita réttar síns fyrir almennum dómstólum sem er mun kostnaðarsamari og seinvirkari leið.
    Í löndunum í kringum okkur hefur vitund fólks um umhverfismál greinilega farið vaxandi að undanförnu. Það sama er að gerast á Íslandi og er það vel því ekki veitir af að hvetja fólk til að fara varlega með landið. Við búum í viðkvæmu umhverfi, byggðu og óbyggðu. Allar ákvarðanir um landnotkun og landnýtingu þarf að byggja á vandlega athuguðu máli. Í óbyggðum þarf að koma í veg fyrir gróðureyðingu og vernda náttúru landsins og í byggðu umhverfi þarf m.a. að taka mið af veðurfari og þeirri staðreynd að trjágróður sem á syðri breiddargráðum getur falið mistök í skipulagsmálum eða misheppnaðar byggingar á erfiðara uppdráttar á Íslandi.
    Virðulegi forseti. Helstu breytingar frá núgildandi lögum í því frv. sem hér er mælt fyrir eru fólgnar í eftirfarandi:
    Nánari ákvæði eru um afgreiðslu mála í skipulags- og byggingarnefnd og málsmeðferð þegar óskað er úrskurðar ráðherra um ágreining milli sveitarstjórnar og nefndarinnar um afgreiðslu máls.
    Nýmæli er að skýrt er kveðið á um að slíkur úrskurður taki aðeins til formhliða málsins og lögmætisákvörðunar enda kemur ráðherra hér í stað stjórnsýsludómstóls en ekki í stað stjórnvalds, sbr. 1. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986.
    Þá er einnig í frv. lagt til að frestur til málskots til ráðherra sé styttur úr þremur mánuðum í tvo mánuði og tekið fram að umsagnaraðilar sem ráðherra leitar til skuli skila áliti sínu innan mánaðar. Þessar breytingar eru lagðar til í því skyni að stytta réttaróvissu sem oft getur verið kostnaðarsöm.
    Gerð og framkvæmd skipulagsáætlana hefur samkvæmt lögum verið í höndum skipulagsstjórnar ríkisins. Sú breyting verður að gerð og framkvæmd svæðisskipulags, aðalskipulags og deiliskipulags verður í höndum sveitarstjórnar en landskipulags í höndum ríkisins eða ríkisstofnana enda er þar um að ræða skipulag framkvæmda sem ná til margra sveitarfélaga.
    Í gildandi byggingarlögum er ákvæði um að í hverju sveitarfélagi skuli eftir hverjar sveitarstjórnarkosningar kjósa byggingarnefnd. Í stærri sveitarfélögunum eru starfandi skipulagsnefndir án þess að ákvæði séu um það í skipulagslögum. Sú breyting er gerð að sveitarfélögum með 700 íbúum

eða fleiri er gert skylt að hafa skipulags- og byggingarnefnd og heimilt að hafa sameiginlega nefnd með nágrannasveitarfélagi. Sveitarfélög með færri en 700 íbúa verður skylt að stofna byggðarsamlag samkvæmt sveitarstjórnarlögum um skipulags- og byggingarmál, þar á meðal um stofnun sameiginlegrar skipulags- og byggingarnefndar. Skipulags- og byggingarnefndum gæti því fækkað úr rúmlega 200 í 70--80 með þessari breytingu. Markmiðið er ekki að fækka þeim heldur að gera þær virkari því sumar þeirra funda sárasjaldan.
    Embætti skipulags- og byggingarfulltrúa er styrkt og stefnt að því að það geti í öllum tilvikum staðið undir heilu stöðugildi. Með þessu móti er verið að tryggja faglega umfjöllun og markvisst eftirlit á sviði skipulags- og byggingarmála í öllum sveitarfélögum en þar hefur víða verið nokkur misbrestur á.
    Sameinuð eru í einn lagabálk skipulagslög og byggingarlög. Skipulagsmál og byggingarmál eru nátengd sem sést m.a. á því að ekki er hægt að veita byggingarleyfi samkvæmt byggingarlögum nema það sé í samræmi við deiliskipulag samkvæmt skipulagslögum. Þessi sameining verður til að einfalda málsmeðferð án þess að dregið sé úr grundvallarkröfum um faglega umfjöllun.
    Þá er ekki síður mikilvægt að hinar ýmsu gerðir skipulagsáætlana eru skilgreindar í lögunum.
    Skipulags- og byggingarstofnun ríkisins tekur við af Skipulagi ríkisins eins og embætti skipulagsstjóra hefur verið nefnt. Hlutverk stofnunarinnar er
skilgreint í samræmi við aukið frumkvæði og forræði sveitarfélaganna. Aukin áhersla er lögð á rannsóknir og eftirlitsþáttinn og ráðgjafar- og leiðbeiningarhlutverk undirstrikað. Þá er einnig gert ráð fyrir að stofnunin sinni meira en áður byggingartæknilegum þáttum og samstarfi við byggingarfulltrúa.
    Skipulagsstjórn er nú skipuð þremur embættismönnum og tveimur fulltrúum sem ráðherra skipar, annan samkvæmt tilnefningu Sambands ísl. sveitarfélaga en hinn án tilnefningar. Embættismennirnir eru vegamálastjóri, húsameistari ríkisins og vita- og hafnamálastjóri. Sú breyting er gerð að ráðherra skipar alla stjórnina, þrjá samkvæmt tilnefningu Sambands ísl. sveitarfélaga en tvo án tilnefningar.
    Samkvæmt gildandi lögum er allt landið skipulagsskylt og gerð krafa um skipulagsáætlanir fyrir alla þéttbýlisstaði þar sem íbúar eru 50 eða fleiri. Orlofsbyggðir, iðnrekstur og þjónustumiðstöðvar í strjálbýli hafa gert að verkum að aukin þörf er á skipulagsáætlunum fyrir strjálbýlli sveitarfélögin jafnt sem þéttbýlið. Því er gerð sú breyting að gera þurfi aðalskipulagsáætlanir fyrir öll sveitarfélög þar sem tekin sé afstaða til allrar landnotkunar.
    Gerð er sú breyting varðandi málsmeðferð og kynningu á aðalskipulagstillögum að áður en gerð eða endurskoðun aðalskipulags er hafin lætur sveitarstjórn semja greinargerð um helstu forsendur og markmið sem stefnt er að. Efni greinargerðarinnar skal kynnt

íbúum og öðrum hagsmunaaðilum og þeim gefinn kostur á því að tjá sig innan þriggja vikna. Eftir að sveitarstjórn hefur unnið úr athugasemdum við greinargerðina lætur hún vinna aðalskipulagstillögu sem kynnt er á opnum fundi. Eftir það tekur við hefðbundin auglýsing eins og sagt er fyrir um í gildandi skipulagslögum.
    Ágreiningur um aðalskipulag á mörkum sveitarfélaga hefur reynst erfiður úrlausnar og því þykir nauðsynlegt að lögfest verði skýr ákvæði um það hvernig með verði farið. Er skipulagsstjórn falið að leysa málið með því að beina því til viðkomandi sveitarstjórna að þær geri með sér samkomulag um málið innan tiltekins frests. Ef það leiðir ekki til lausnar á deilunni getur skipulagsstjórn gert tillögu að svæðaskipulagi sem nær yfir mörk sveitarfélaganna og er nánar mælt fyrir um meðferð tillögunnar í frv.
    Framangreind heimild skipulagsstjórnar mundi væntanlega þrýsta á sveitarstjórnir að ná viðunandi niðurstöðu í málinu með samningum sín á milli. Fjölmargar stofnanir ríkisins hafa frumkvæði á sinni könnu sem ná til landsins alls. Nauðsynlegt er að samræmis sé gætt milli áætlana um þessar framkvæmdir og skipulagsáætlana sveitarfélaga. Því er í frv. mælt fyrir um að skipulags- og byggingarstofnun skuli beita sér fyrir gerð landskipulags á ýmsum sviðum en nefna má að gerð samgönguvirkja, aðflutningsæða við orkudreifingu og fjarskiptalagnir getur lagt kvaðir á skipulagsáætlanir sveitarfélaga.
    Sem lið í hertu byggingareftirliti er skipulags- og byggingarfulltrúa veitt heimild til þess í sérstökum tilvikum að óska eftir prófreikningum hönnunar frá sérstökum prófhönnuðum en þar er um að ræða viðurkennda sérfræðinga á sviði hönnunar, t.d. varðandi styrkleika bygginga gagnvart jarðskjálftum. Er gert ráð fyrir að ráðherra geti gefið út sérstakar reglur um viðurkenningu slíkra prófhönnuða og um kröfur sem til þeirra eru gerðar en dæmi eru um slíkt fyrirkomulag í nágrannaríkjum okkar.
    Þá verður einnig heimilað að krefja framleiðendur og byggingarefnissala um vottorð frá Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins eða hliðstæðum stofnunum um að söluvörur þeirra standist gæðakröfur byggingarreglugerðar. Krefjast má sérstakra eftirlitsmanna með framkvæmdum um meiri háttar mannvirkjagerð og krefjast má álagsprófunar mannvirkis eftir að það hefur verið reist.
    Hönnunargögn eru samkvæmt frv. mun betur skilgreind en áður var og m.a. gerður greinarmunur á aðaluppdráttum, burðarþolsuppdráttum, kerfisuppdráttum og deiliuppdráttum. Kröfur til hönnuða sem sækja um löggildingu eru hertar til muna. Viðkomandi þarf þannig að hafa sérhæft sig á sviði aðaluppdrátta, burðarþolsuppdrátta, kerfisuppdrátta eða deiliuppdrátta. Umsækjandi þarf að hafa þriggja ára starfsreynslu hjá löggiltum aðila á viðkomandi sviði og hafa staðist próf í íslenskri skipulags- og byggingarlöggjöf sem sérstök prófnefnd sem ráðherra skipar stendur fyrir.

    Þá er einnig gerð sú krafa að allir hönnuðir sem leggja uppdrætti fyrir byggingarnefnd skuli hafa ábyrgðartryggingu. Þetta er gert til þess að tryggja að viðskiptavinir hönnuða geti sótt skaðabætur til þeirra sem valda tjóni með mistökum sínum.
    Til að tryggja hagsmuni húsbyggjenda og að farið sé að fyrirmælum skipulags- og byggingarnefndar er skilgreind ábyrgð byggingarstjóra og iðnmeistara. Þá er kveðið á um að byggingarstjórar skuli jafnan hafa ábyrgðartryggingu samkvæmt ákvæðum í reglugerð sem ráðherra setur.
    Þótt nýbyggingar hér á landi séu yfirleitt hinar vönduðustu er enginn vafi á því að betur má gera, ekki síst utan þéttbýlissvæðanna. Frv. þetta afmarkar verksvið Skipulags ríkisins á nýjan hátt og breytir nafni þess og hlutverki
eins og hér hefur verið lýst. Það fjallar einnig um rétt einstaklinga og lögaðila við skipulagsaðgerðir og veitir þeim kost á hraðvirkari úrskurðarleið í deilumálum.
    Frv. er samið með það í huga að meðferð skipulags- og byggingarmála verði einfölduð. Það er stefnt að því að styrkja stjórn sveitarfélaganna og setja skýr ákvæði um samráðsrétt almennings að því er varðar mótun byggðar í landinu.
    Í frv. er einnig staðfest frumkvæði og ábyrgð sveitarstjórna í skipulags- og byggingarmálum en til þessa hefur það mest verið í höndum skipulagsstjórnar ríkisins. Samkvæmt frv. er frumkvæðið ótvírætt hjá sveitarstjórninni. Gerð skipulagsáætlunar um þróun og mótun byggðar er stjórntæki sveitarstjórna og því eðlilegt að þær sinni þessu hlutverki. Almenningur fær einnig betra tækifæri til að hafa áhrif á stefnumótun í skipulagsmálum og unnt verður að koma athugasemdum á framfæri áður en sjálf aðalskipulagsgerðin fer fram vegna tilkomu greinargerðar um forsendur og markmið aðalskipulags.
    Virðulegur forseti. Ég hef gert hér grein fyrir helstu efnisatriðum í þessu frv. og ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. félmn.