Skipulags- og byggingarlög
Þriðjudaginn 13. febrúar 1990


     Guðrún Helgadóttir:
    Hæstv. forseti. Ég átti sæti í þeirri nefnd, sem stóð að samningu þessa frv. og mér kemur mjög á óvart að heyra hversu harkalega er á þá vinnu ráðist hér af hv. 2. þm. Reykv. Ég varð ekki vör við þennan mikla ágreining í nefndinni þó að vissulega hefðu komið fram skiptar skoðanir á ýmsum þáttum þessa mikla bálks. En að slíkur ágreiningur væri uppi um megininntak þessa frv. vissi ég ekki fyrr en nú.
    Ég held að mikill hluti áhyggna hv. 2. þm. Reykv. sé með öllu óþarfur. Samanburður við nágrannalöndin er í hæsta máta kyndugur þar sem það er auðvitað alveg ljóst að þarna er ekkert um sambærilega hluti að ræða. Bæði Noregur og Danmörk hafa sterkar fylkisstjórnir, sem gera þá miðstýringu, sem hann talar hér um, að miklum mun óþarfari heldur en hér gerist. Ég held að allir hv. þm. verði að viðurkenna að Ísland er mjög frumstætt land í skipulagsmálum og skipulagsmál mjög ný af nálinni hér á landi. Þannig að ég er alveg á öndverðum meiði við hv. 2. þm. Reykv.
    Ég held að það þurfi að styrkja mjög og efla yfirstjórn skipulagsmála í þessu landi svo að ekki verði fleiri slys, eins og við sjáum allt í kringum okkur og nægir okkur Reykvíkingum að svipast um. Við hentum gaman að þeim þegar við sátum á þessum fundum í húsakynnum skipulagsstjórnar ríkisins og horfðum út á þá skelfingu sem sjá má allt í kringum það hús eitt og má víða leita fanga í því efni hér í höfuðborginni, að ég tali ekki um sveitarfélögin um land allt.
    Ég fæ ekki heldur tekið þátt í þeim ótta hv. 2. þm. Reykv. að almenningur hafi of mikinn aðgang að ákvörðunum um sitt nánasta umhverfi. Auðvitað á fólk að hafa hann. Og eins og gert er ráð fyrir í hans eigin frv. sem við höfum nú verið að fjalla um í hv. félmn. neðri deildar þykir mér það heldur laklegt að fólki sé vísað til dómstóla ef um ágreining er að ræða varðandi nánasta umhverfi fólks. Við vitum öll hvað það þýðir.
    Mér hefur verið bent á að á sl. tíu árum hafi 60 kærur komið fram í Reykjavík einni saman. Það er því alveg ljóst að fólk þarf að eiga greiðan aðgang að yfirvöldum til þess að fá úr málum sínum skorið á skemmri tíma en dómstólar ráða við.
    Hv. 2. þm. Reykv. fór hér í mörg stór og smá atriði og ég ætla ekki á þessu stigi málsins að svara því vegna þess að eins og ég sagði áðan á ég sæti í hv. félmn. og mun að sjálfsögðu vinna í þessu máli með öðrum hv. nefndarmönnum þar.
    Ástæðan fyrir því að ég stóð hér upp er fyrst og fremst sú að ég vil minna á, eins og ég gerði í nefndinni, að á 107. löggjafarþingi var ég 1. flm. hér að frv. til laga um breytingu á byggingarlögum, sem fólst aðallega í því að skylda opinberar stofnanir og aðrar þjónustustofnanir og atvinnufyrirtæki til að ganga frá hönnun lóðar áður en byggingarleyfi verði veitt.
    Við höfum öll orðið að horfa upp á það hversu

slaklega hefur verið gengið frá nánasta umhverfi bæði opinberra stofnana og atvinnufyrirtækja á hinum ýmsu stöðum á landinu þó að vissulega skuli það viðurkennt að hér hefur þó orðið veruleg breyting á á síðustu árum. Öll höfum við orðið að þjást vegna umhverfis okkar þar sem menn hafa ekki hirt um að ganga frá stórum landspildum sem þeir hafa haft þau forréttindi að fá að byggja á og látið það vera öllum til ama og armæðu árum saman áður en frá því var gengið.
    Ég lagði því á það nokkra áherslu í þessari vinnu að gengið yrði betur frá þessum málum. Síðan ég flutti frv. mitt ásamt hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur og Kristófer Má Kristinssyni hefur það gerst að landslagshönnuðir hafa fengið löggildingu og innanhússarkitektar raunar líka og þar af leiðandi er auðveldara að koma því fólki að í frv. sem þessu og hér má enda sjá 55. gr., þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Uppdráttur mannvirkis skal áritaður af löggiltum hönnuði, sem tekið hefur að sér samræmingu þeirra uppdrátta sem mannvirkið verður byggt eftir. Hinn löggilti hönnuður tekur þar með á sig ábyrgð á að uppdráttur sé í samræmi við aðaluppdrætti og burðarþolshönnun.
    Allir hönnuðir sem leggja uppdrætti fyrir byggingarnefnd skv. 24. gr. skulu hafa ábyrgðartryggingu skv. nánari ákvæðum í byggingarreglugerð.``
    Og í 54. gr. segir einnig: ,,Aðaluppdrættir skulu gera grein fyrir svipmóti mannvirkis, innra skipulagi, skipulagi lóðar, staðsetningu, stærð og útliti og hvernig það fellur að næsta umhverfi og samþykktu deiliskipulagi.``
    Þetta er auðvitað mjög til bóta. Þá segir einnig í 58. gr.:
    ,,Arkitektar, byggingarfræðingar, verkfræðingar, tæknifræðingar, innanhússhönnuðir og landslagshönnuðir geta fengið löggildingu sem hönnuðir deiliuppdrátta, hver á sínu sviði``.
    Þannig hefur verulega verið komið til móts við þetta. Þó hygg ég að þar þurfi betur að kveða að, vegna þess að það er ekki minna mál hvernig gengið er frá umhverfi húsa heldur en hvernig gengið er frá húsinu sjálfu. Mín skoðun er sú að þarna þurfi að kveða fastar að.
    Þegar frv. mitt var í afgreiðslu hér á hinu háa Alþingi var því vísað til
ríkisstjórnarinnar og ég hafði orð á því hér í þingræðu að það hneykslaði mig hvernig frá umsögnum um þetta mál var gengið. Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga sagði eftirfarandi um málið, með leyfi forseta:
    ,,Stjórnin hefur kynnt sér frv. og mælir ekki með samþykkt þess. Þótt vitanlega sé æskilegt að gengið sé fljótt frá lóðum umhverfis byggingar þá telur stjórnin að frv. komi þar ekki að gagni.``
    Vinnuveitendasamband Íslands sagði í sinni umsögn: ,,Vinnuveitendasamband Íslands mótmælir því mjög ákveðið að sérstakar hömlur séu með löggjöf lagðar á byggingu atvinnuhúsnæðis.``

    Í umsögnum allflestra var allt gert til þess að létta af byggjendum þeirri sjálfsögðu skyldu að ganga frá umhverfi húsa. Það lengsta sem komist varð í þessari nefnd var að á þeim stöðum þar sem getið er um landslagshönnuði og frágang lóða er einnig heimild til að setja frekari reglugerðir og mér var lofað því að frá því skyldi gengið, að nokkuð strangar reglur yrðu um þau atriði.
    Ég held að með þessu frv. hafi verið unnið verulega gott starf sem ætti að styrkja skipulagsmál almennt. Hér var talað um að úr þessu kunni að verða mikið bákn. Því ræður auðvitað sá ráðherra sem með málaflokkinn fer og er hægt að hafa hemil á því. Hitt er svo annað mál að það er fátt sem mótar allt líf okkar og umhverfi í ríkara mæli en einmitt skipulags- og byggingarmál og þess vegna held ég að það sé alveg þess virði að til sé starfslið til þess að fylgja þeim málaflokki grannt eftir.
    Vitanlega er ekkert óeðlilegt við það þó að sveitarfélögum sé ekki gersamlega í sjálfsvald sett hvar komið er fyrir sjúkrahúsum, skólum, heilsugæslustöðvum og öðru slíku. Þjóð eins og Íslendingar verður að hafa eitthvert eftirlit með því að þessar stofnanir séu ekki annaðhvort allt of langt hver frá annarri eða allt of þétt, eins og gerst hefur. Nægir að nefna félagsheimili og heilsugæslustöðvar sem hafa verið settar niður með óeðlilega stuttu millibili.
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu á þessu stigi málsins. Eg held að hér sé margt til bóta. Það má vel vera að einhverjar athugasemdir komi fram um það sem enn má betur fara og er auðvitað sjálfsagt að nefndin vinni að því. En ég vona svo sannarlega að samþykkt þessa frv. nái fram að ganga á þessu þingi. Ég tel að mun betur sé frá þessum málum gengið með þessu frv. heldur en áður hefur verið.