Skipulags- og byggingarlög
Þriðjudaginn 13. febrúar 1990


     Alexander Stefánsson:
    Herra forseti. Ég vil taka það fram að ég er ekki að koma hér til þess að hefja efnislegar umræður um þetta frv. Í þessu frv. eins og það liggur fyrir eru náttúrlega margvísleg nýmæli og það fyrst, sem er stórt mál, að hér eru felld saman í eina löggjöf skipulagslög og byggingarlög. Það hefur verið umdeilt atriði á undanförnum árum í meðferð þessara mála hvort ætti að steypa þessu saman. Ég hygg samt að þegar grannt er skoðað, þá sé heppilegra að hafa hér um samræmda löggjöf. En það þýðir að vanda verður miklu betur meðferð málsins þannig að sem flest atriði sem máli skipta séu þar nægilega skýr. Það hefur háð þeim lögum sem í gildi eru, sem eins og menn vita eru sum hver orðin allt of gömul, að ekki hefur tekist á undanförnum árum að endurnýja þá löggjöf í samræmi við þær framfarir og miklu breytingar sem hafa orðið á þessu sviði hér á landi og þess vegna eru álitamál alltaf að koma upp, álitamál sem hafa orsakað deilur og kallað á úrskurði sem oft og tíðum hafa verið mjög umdeildir og kannski í sumum tilfellum vafasamir.
    Ég vil aðeins rifja það upp að í júní 1986 var búið að vinna frv. að nýjum skipulagslögum. Það gerði starfshópur undir forsæti Hallgríms Dalbergs, þáv. ráðuneytisstjóra í félmrn. Þetta frv. var samið þannig að það var haft mjög náið samband við sveitarfélögin í
landinu og raunar sent til allra sveitarfélaga landsins. Hins vegar þótti rétt veturinn 1986--1987 að leggja frv. fram hér á Alþingi, til kynningar fyrst og fremst. Alþingi sendi frv. mjög víða og það komu miklar umsagnir og athugasemdir við það, m.a. athugasemdir um að það væri eðlilegra að endurskoða byggingarlögin samtímis og jafnframt, eins og kemur fram í greinargerð þessa frv., að athuga hvort ekki væri rétt að samræma þessi lög, hafa þetta einn heilan lagabálk, skipulags- og byggingarlög.
    Fljótt á litið finnst mér, og ég get tekið undir með hv. 2. þm. Reykv. Birgi Ísl. Gunnarssyni, örla nokkuð mikið á miðstýringarvaldi í þessu frv. Ég tel að yfirstjórn þessara mála eigi meira að fjalla um ramma að þessum lögum en þolendur og þeir sem stjórnin hvílir fyrst og fremst á, þ.e. sveitarfélögin í landinu og hinir ýmsu aðilar sem stjórna þessum málum, eigi að hafa rýmri hendur innan lagarammans. Ég segi þetta vegna þess að mér hefur fundist á undanförnum áratugum sem ég sjálfur hef fjallað um þessi mál mjög erfitt að þurfa sífellt að vera með öll smærri atriði skipulags- og byggingarmála undir æðra stigi, sem oft og tíðum hefur ekki aðstöðu til að líta raunsæjum augum á staðreyndir í hinum ýmsu byggðarlögum eins og þau eru. Þetta vil ég láta koma hér fram og styðst við þá reynslu sem ég hef bæði sem sveitarstjórnarmaður um áratugi og eins þann tíma sem ég fór með þessi mál í félmrn. Þess vegna legg ég áherslu á það að til meðferðar þessa máls hér á hv. Alþingi þurfi að vanda vel, leita umsagna víða og gefa sér tíma til að fara vandlega ofan í þessi mál.

    Ég er ekki að segja að ég vantreysti þeim aðilum sem sömdu þetta frv. En ég verð að viðurkenna að það kemur ekki fram í grg. hvað þessi nefnd hefur leitað víða fanga við samningu þessa frv. Mér finnst t.d. alveg óhætt að láta það koma fram hér að fulltrúar minni sveitarfélaga víða úti á landi hafa ekki átt sæti í þessari nefnd heldur einvörðungu fólk sem á heima hér í Reykjavík. Þetta finnst mér ekki nógu gott þegar leitast skal við að fá hin ýmsu sjónarmið fram, en oft eru kannski fyrirferðarmest í þessum málum, að því er varðar skipulagsstjórn ríkisins, einmitt skipulagsmálin úti um landið, meðal hinna fjölmörgu sem fjalla þar um mál. Og oft eru það kannski þýðingarmestu málin í sambandi við heildarskipulag í landinu sem eru viðkvæmust í nútímanum.
    En ég ætla ekki að fara að gagnrýna þetta hér, vildi aðeins láta það koma hér fram að ég tel að þetta mál þurfi að fá mjög vandaða meðferð á Alþingi, þar sem hér er raunverulega verið að ræða um tvenns konar lög, skipulagslög og byggingarlög, sem á að sameina í eitt. Og það þurfa að koma fram miklu víðfeðmari umsagnir heldur en ella hefur verið og þess vegna verður að gera ráð fyrir því að félmn. og Alþingi í heild þurfi góðan tíma til að fara yfir þessi mál. Þetta er mjög mikikvægur málaflokkur, hefur mikla þýðingu fyrir alla stjórnun hér á landi, bæði á vegum sveitarfélaga og annarra, og þess vegna finnst mér að það verði að gefa sér góðan tíma. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að þetta mál verði ekki afgreitt fyrir þinglok heldur verði haldið áfram á komandi haustþingi og það afgreitt sem lög fyrir næstu áramót.
    Ég vildi aðeins láta þessi sjónarmið koma fram. Það gafst ekki tími til þess í þingflokki framsóknarmanna að ræða þetta neitt efnislega en við vorum sammála um það að sjálfsagt væri að leggja málið fram og það fengi vandaða meðferð hér á hv. Alþingi. Ég er sammála því að það er löngu kominn tími til að setja ný lög um skipulags- og byggingarmál og þess vegna vil ég fylgja því eftir að þetta frv. verði að lögum eftir að búið er að fara yfir það á þennan hátt sem ég hef lýst.