Dómsvald í héraði
Miðvikudaginn 14. febrúar 1990


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson):
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um viðauka við lög um skipan dómsvalds í héraði, lögreglustjórn, tollstjórn o.fl., nr. 74 frá 27. apríl 1972 sem hér er flutt á þskj. 588.
    Þann 9. jan. sl. kvað Hæstiréttur upp dóm í málinu nr. 120/1989 sem var sakamál. Varð niðurstaðan sú að dómur uppkveðinn í sakadómi Árnessýslu var felldur úr gildi og málinu vísað heim í hérað til löglegrar málsmeðferðar og dómsálagningar. Var þetta gert sökum þess að sýslumaðurinn í Árnessýslu og fulltrúi hans er kvað upp hinn áfrýjaða dóm hafi verið vanhæfir til að fara með dómsstörf í málinu þar sem sýslumaðurinn sé jafnframt lögreglustjóri í sama umdæmi og hafi sem slíkur borið ábyrgð á lögreglurannsókn málsins. Forsendur dóms Hæstaréttar voru þessar, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Í málinu er á þetta að líta. Í stjórnarskrá lýðveldisins er byggt á þeirri meginreglu að ríkisvaldið sé þríþætt og sérstakir dómarar fari með dómsvaldið. Þær sérstöku sögulegu og landfræðilegu aðstæður sem bjuggu því að baki að sömu menn fara utan Reykjavíkur oftsinnis bæði með stjórnsýslu og dómsstörf hafa nú minni þýðingu en fyrr, m.a. vegna greiðari samgangna en áður var. Alþingi hefur sett lög um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði sem taka gildi 1. júlí 1992. Ísland hefur að þjóðarétti skuldbundið sig til að virða mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindanefnd Evrópu hefur einróma ályktað að málsmeðferðin í máli Jóns Kristinssonar hafi ekki verið í samræmi við 6. gr. 1. mgr. mannréttindasáttmálans.
    Ríkisstjórn Íslands hefur, eftir að fyrrgreindu máli var skotið til mannréttindadómstóls Evrópu, gert sátt við Jón Kristinsson, svo og annan mann sem kært hefur svipað málsefni með þeim hætti sem lýst hefur verið.
    Í 36. gr. 7. tölul. laga nr. 85/1936, um meðferð einkamála í héraði, segir m.a. að dómari skuli víkja sæti úr dómarasæti ef hætta er á því að hann fái ekki litið óhlutdrægt á málavöxtu. Þessu ákvæði ber einnig að beita um opinber mál skv. 15. gr. 2. mgr. laga nr. 74/1974, um meðferð opinberra mála. Í máli þessu er ekkert fram komið sem bendir til þess að dómarafulltrúi sem kvað upp héraðsdóminn hafi litið hlutdrægt á málavöxtu. Hins vegar verður að fallast á það með mannréttindanefnd Evrópu að almennt verður ekki talin næg trygging fyrir óhlutdrægni í dómsstörfum þegar sami maður vinnur bæði að þeim og lögeglustjórn.
    Með tilliti til þess sem rakið hefur verið ber nú að skýra fyrrgreind lagaákvæði þannig að sýslumanninum í Árnessýslu og fulltrúa hans sem kvað upp héraðsdóminn hafi borið að víkja sæti í máli þessu. Ber því að fella hinn áfrýjaða dóm úr gildi og alla meðferð málsins fyrir sakadómi Árnessýslu og vísa þeim heim í hérað til nýrrar dómsmeðferðar og dómsálagningar.``
    Svo mörg voru þau orð.

    Í fyrrgreindu máli túlkar Hæstiréttur íslensk lög um hæfi dómara í samræmi við mannréttindasáttmála Evrópu en Ísland er aðili að þeim samningi og hefur skuldbundið sig að þjóðarétti til að virða niðurstöður mannréttindadómstólsins. Í þessu sambandi má og benda á dóm Hæstaréttar frá 2. febr. sl. þar sem Hæstiréttur taldi dómara vanhæfan til að fara með mál þar sem hann hafði kveðið upp gæsluvarðhaldsúrskurð á grundvelli 4. tölul. 67. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 74/1974, en mannréttindadómstóllinn hafði sl. sumar dæmt í máli gegn Danmörku þar sem sambærilegt ákvæði í dönskum réttarfarslögum var talið andstætt mannréttindasáttmálanum.
    Eins og kunnugt er skiptist landið í 27 umdæmi. Alls staðar utan Reykjavíkur háttar svo til að sami maður, þ.e. sýslumaður eða bæjarfógeti, sinnir fjölþættum störfum. Hann er dómari, lögreglustjóri, tollstjóri og hefur ýmis önnur stjórnsýsluverkefni. Við sex af þessum embættum starfar einn eða fleiri dómarar sem starfa sjálfstætt og á eigin ábyrgð að þeim dómsmálum sem forstöðumaður embættisins hefur falið þeim til meðferðar. Fulltrúar sýslumanna og bæjarfógeta starfa á þeirra ábyrgð og eru vanhæfir til meðferðar máls ef yfirmaðurinn er það.
    Afleiðingar fyrrgreinds dóms vörðuðu grundvallaratriði í dómstólaskipan landsins. Hann þýddi í reynd að í 20 umdæmum landsins eru sýslumenn, bæjarfógetar og fulltrúar þeirra vanhæfir til að fara með öll sakamál sem rannsökuð eru í þeirra umdæmi og í flestum tilfellum er það meginþorri þeirra sakamála sem þar eru til meðferðar. Það var óviðunandi staða að í 20 umdæmum landsins væru ekki til bærir aðilar til að fara með jafnmikilvægan málaflokk og sakamál eru og því nauðsynlegt að úr því yrði bætt þegar í stað. Þar sem Alþingi sat ekki þegar framangreindur dómur gekk voru gefin út bráðabirgðalög um viðauka við lög um skipan dómsvalds í héraði, lögreglustjórn, tollstjórn o.fl., nr. 74/1972 og er frv. það sem hér er til umræðu flutt til staðfestingar þeim skv. fyrirmælum 28. gr. stjórnarskrárinnar.
    Framangreindur dómur hafði einnig afleiðingar í þeim sex umdæmum þar sem héraðsdómarar voru til staðar. Starfsmenn dómsmrn. höfðu heimsótt þessi embætti til að afla upplýsinga um með hvaða hætti mál geti eftir sem áður haft
eðlilegan framgang. Niðurstöður liggja ekki enn fyrir en ljóst er að í sumum tilfellum þarf að grípa til sérstakra ráðstafana af hálfu ráðuneytisins í samráði við viðkomandi bæjarfógeta þótt ekki sé um að ræða atriði sem varða breytingu á lögum.
    Ég vil nú gera grein fyrir nokkrum atriðum varðandi efni frv. Skv. 1. gr. þess eru stofnuð fimm ný embætti héraðsdómara. Fjórir af þessum dómurum starfa í fleiri en einu umdæmi. Varðandi val á umdæmum sem hver þessara fjögurra dómara skyldi starfa við voru fyrst og fremst hafðar í huga landfræðilegar aðstæður og heildarfjöldi þeirra opinberu mála sem þar eru til meðferðar, að

heildarfjöldinn væri innan þeirra marka að ætla mætti að einn maður gæti sinnt þeim.
    Skv. 9. gr. laga um skipan dómsvalds í héraði o.fl. úthlutar forstöðumaður embættis héraðsdómurum verkefnum. Skv. 3. gr. þessa frv. verður þeim fjórum dómurum sem starfa við fleiri en eitt embætti ekki falið að fara með stjórnvaldsmálefni eða dómsstörf í öðrum málum en opinberum málum nema með þeirra samþykki. Ástæða þessarar takmörkunar er sú að tilgangur frv. er að opinbert mál geti haft eðlilegan framgang í þessum umdæmum og ætla má að í flestum tilfellum sé það fullt starf að sinna þeim. Vissulega hefði í sumum tilfellum mátt fara aðrar leiðir, t.d. að núverandi héraðsdómarar gætu dæmt í fleiri umdæmum. Sú leið var ekki valin vegna þess að hér er um tímabundið ástand að ræða, þ.e. þangað til lög um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði öðlast gildi 1. júlí 1992 og þar sem þessir dómarar hafa allir meira en næg verkefni í sínu umdæmi var ekki talið rétt að gera víðtækari breytingar en nauðsynlegar væru til að í öllum umdæmum landsins væru bærir dómarar til að fara með opinber mál.
    Skv. 2. mgr. 2. gr. frv. eru stöður þessara nýju héraðsdómara tímabundnar til 30. júní 1992. Ástæða þess er að þann 1. júlí 1992 öðlast gildi lög um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds. Skv. 18. gr. þeirra laga hafa sýslumenn, bæjarfógetar og dómarar forgang til skipunar í embætti dómara við hina nýju héraðsdómstóla. Þar sem þessir aðilar eru fleiri en embætti við hina nýju héraðsdómstóla og með hliðsjón af því að hér er um bráðabirgðaástand að ræða eru í 2. gr. frv. ákvæði um að þessir nýju dómarar njóti ekki þess forgangs til skipunar í dómaraembætti sem um er fjallað í 18. gr. aðskilnaðarlaganna.
    Í 3. mgr. 2. gr. frv. er ákvæði um að heimilt sé að skipa héraðsdómara í fyrsta sinn skv. lögunum án þess að embættin hafi fyrst verið auglýst laus til umsóknar. Þetta ákvæði var sett til að tryggja að unnt væri að ráða dómara þegar í stað svo að umrædd 20 umdæmi væru ekki dómaralaus um alllangt skeið.
    Í 4. mgr. 2. gr. frv. er ákvæði um að skipa megi mann í héraðsdómaraembætti þótt hann uppfylli ekki skilyrði 7. tölul. 1. mgr. 32. gr. laga um meðferð einkamála í héraði, nr. 85/1936. Í þeirri grein er fjallað um skilyrði þess að skipa megi mann dómara. Í 7. tölul. er ákvæði um að menn þurfi að hafa sinnt tilgreindum störfum í þrjú ár svo að skipa megi þá dómara. Þótt markmiðið sé að dómarar þessir uppfylli öll skilyrði þess að skipa megi þá sem dómara þótti nauðsynlegt að hægt væri að víkja frá framangreindu skilyrði ef ekki fengist hæfur dómari sem uppfyllti öll skilyrði þess að fá skipun í embættið.
    Hæstv. forseti. Að öðru leyti en nú hefur verið rakið tel ég að svo stöddu ekki ástæðu til að gera frekari grein fyrir einstökum ákvæðum þessa frv. og legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. allshn.