Dómsvald í héraði
Miðvikudaginn 14. febrúar 1990


     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Ég tek heils hugar undir þau varnaðarorð og áminningarorð sem hv. 4. þm. Vesturl. hafði uppi hér áðan. Það hefur verið allt of rík tilhneiging til þess að framkvæmdarvaldið hafi ýmist tekið sér dómsvald eða Alþingi hafi gefið framkvæmdarvaldinu dómsvald í hinum ýmsu málaflokkum og er það rétt líka sem hann sagði að gott dæmi um slíkt vald má finna í sambandi við fiskveiðistjórnun og ýmis refsiákvæði sem eru í höndum sjútvrn., sem eru rekin með þeim hætti að ráðuneytið gegnir ekki þeirri frumskyldu sem gera ber, að sjá um það að þeir sem sektaðir eru eða dæmdir hafi tök á því að koma við vörnum eins og hægt er að gera undir venjulegum kringumstæðum. Það eru með öðrum orðum ekki gerðar sömu kröfur til réttarfars undir slíkum kringumstæðum eins og gert er fyrir öðrum dómstólum.
    Það er einnig mjög áberandi, sérstaklega þegar um ósvífin stjórnvöld er að ræða, að almenningur stendur höllum fæti gagnvart misbeitingu valds, jafnvel misbeitingu meiri hluta Alþingis. Ég hef raunar lengi verið þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að koma við sérstökum stjórnlagadómstóli sem hægt sé að senda málefni til rakleiðis í staðinn fyrir að viðkomandi þurfi að sækja mál gegn ríkinu með almennum hætti.
    Og af því að við höfum hér við hlið okkar hæstv. dómsmrh. sem er hér að flytja frv. til l. um viðauka við lög um dómsvald í héraði þar sem verið er að aðskilja dómsvald og framkvæmdarvald má kannski minna á það að þessi hæstv. dómsmrh. stóð að því fyrir jólin að samþykkja löggjöf með þeim hætti að refsiviðurlögum er beitt á meðan málið er fyrir dómi og hafði ekkert við það að athuga. Ef við lesum þá löggjöf sem samþykkt var um aðstöðugjöld, þá rekum við okkur fljótt á það að í þeirri löggjöf er því slegið föstu, hæstv. dómsmrh., að fulltrúum ríkisvaldsins er gert að algerri skyldu að loka fyrirtæki ef talið er af skattayfirvöldum að fyrirtæki sé skuldugt ríkissjóði, þó svo að málið sé til meðferðar hjá ríkisskattstjóra eða ríkisskattanefnd, og skiptir þá ekki máli hvort drátturinn á afgreiðslu málsins sé ríkissjóði að kenna eða því fyrirtæki eða þeim einstaklingi sem verður fyrir barðinu á hinu refsiglaða ríkisvaldi. Ég verð því að segja, herra forseti, að það er mjög ánægjulegt að hæstv. dómsmrh. skuli þó í sumum tilvikum vilja aðskilja framkvæmdarvaldið og dómsvaldið, en miklu meira sannfærandi hefði hitt verið ef hann beitti sér fyrir því að þeir menn sem verða fyrir barðinu á hinum skattglaða fjmrh. eigi jafnmikinn rétt og aðrir borgarar á því að leita réttar síns.
    Það má segja að þessi undarlegi dans í kringum íslenska réttarríkið hafi orðið einna skoplegastur fyrir áramótin þegar inn til Alþingis barst frv. frá hæstv. dómsmrh. um að breyta lögum um sakadóm í ávana- og fíkniefnamálum
þannig að fíkniefnadómara yrði heimilt að taka með sér tvo dómendur til þess að hægt væri að reka málið þar í staðinn fyrir að reka málið fyrir sakadómi.

Auðvitað er þessi fíkniefnadómstóll úreltur. Og okkur var sagt að við yrðum nú að samþykkja þetta undireins því að mikið lægi við. Síðan kom málið fyrir dóm og þá dæmdi dómarinn sig frá málinu og má kannski segja að meira vit hefði verið í því að Alþingi hefði tekið sér meiri tíma til þess að athuga frv. frá ríkisstjórninni og hefði vísað því til föðurhúsanna fremur en dómarinn úrskurðaði sjálfan sig vanhæfan.
    En þetta er sem sagt kjarni málsins, herra forseti. Það ber að fagna því að óháðum héraðsdómurum fjölgi. Á hinn bóginn ber að harma að þessi ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir lagasetningu hér á Alþingi sem er í því fólgin að svipta menn þeim sjálfsagða rétti, sem þeir eiga að hafa í lýðræðisþjóðfélagi, að geta rekið sinn atvinnurekstur óhultir fyrir, ég vil segja valdfíkinni ríkisstjórn. Ég vil því skora á hæstv. dómsmrh. að beita sér fyrir því innan ríkisstjórnarinnar að fallið verði frá þeirri ósvinnu að menn sem lenda í útistöðum við fjmrh. hafi ekki sama rétt og aðrir til að leita réttar síns fyrir dómstóli. Og nú er ég að tala í fullkominni alvöru og ekki ástæða til að brosa. Það nær auðvitað engri átt að vera að tala um það að maður vilji réttarríki, að maður sé vörður dóms og laga í landinu og á sama tíma beygja sig fyrir því að af sömu ríkisstjórn séu knúin fram frumvörp sem svipta menn þeim rétti sem þeir hafa jafnaðarlega haft.
    Annað dæmi er mjög gott um það hvort menn séu jafnir fyrir lögunum og er uppi í blöðunum í dag. Á sl. vori var til afgreiðslu frv. um tekju- og eignarskatt. Þá var hugmyndin fyrst sú að það ætti einungis að þrengja kosti þeirra manna, annaðhvort framkvæmdastjóra, forstjóra eða starfsmanna eða stjórnarmanna í hlutafélögum, sem fengju bíl til afnota sem viðkomandi fyrirtæki ætti. Þá spurði ég ríkisskattstjóra að því í fjh.- og viðskn. hvort hann teldi að það stæðist landslög að hin þröngu ákvæði ættu einungis við hlutafélög en ekki t.d. samvinnufélög, en honum þótti öðru máli gegna um fríðindi sem samvinnufélög veittu mönnum heldur en hlutafélög. Þegar málið kom svo hingað inn í deildina og ég ræddi þetta mál við hæstv. sjútvrh. sem er vel að sér í skattalögum, löggiltur endurskoðandi og hefur metnað sem slíkur, sá
hann auðvitað að þetta náði engri átt. Ég hafði látið ríkisskattstjóra semja fyrir mig brtt. við frv. sem er í því fólgin að þessi skattlagning á bifreiðahlunnindum skyldi ná til alls atvinnurekstrar í landinu. Hæstv. sjútvrh. var ekki ánægður með þessa brtt., þökk sé honum, og gerði þessa skattlagningu almenna þannig að nú eru lögin á þann veg að hver sá sem hefur ókeypis bíl til afnota fyrir sig verður að greiða tekjuskatt af þessum afnotum.
    Nú er þetta, hæstv. dómsmrh., einn liður í því að lögin gangi jafnt yfir menn, að ráðherrarnir sætti sig við lögin sem þeir knúðu fram á síðasta Alþingi og vilji sitja við sama borð og aðrir þegnar þjóðfélagsins hvað þetta varðar, að greiða tekjuskatt af sínum bifreiðahlunnindum. Því að auðvitað getur það ekki hafa vakað fyrir ríkisstjórninni á síðasta þingi að þessi

skattskylda skyldi lenda á öllum öðrum en ráðherrunum. Og nú er fróðlegt einmitt af því að við erum að tala um réttarfarið, að fá svar hæstv. dómsmrh. um það hvort hann telji eðlilegt að ráðherrar sitji að þessu leyti við sama borð og aðrir þegnar þjóðfélagsins. Af ummælum hæstv. forsrh. í blöðum hefur komið fram að hann er þeirrar skoðunar að ráðherrarnir eigi ekki að sitja við sama borð og telji að ráðherrarnir megi hafa þessi hlunnindi án þess að borga fyrir þau þó ætlast sé til þess að aðrir geri það.