Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit
Miðvikudaginn 14. febrúar 1990


     Hjörleifur Guttormsson:
    Herra forseti. Það er ástæða til að taka aðeins til máls eftir þá ræðu sem hér var haldin áðan. Sérstaklega þó vegna upphafsorða hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar og mikillar hneykslunar á því að verið væri að halda í allt aðra átt en gerist í Austur-Evrópu um þessar mundir. Og það er sannarlega gott að hv. þm. hefur tekið eftir því af tilefni þessa frv. til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit.
    Ég hefði sannarlega kosið að fleiri hv. alþm. tækju eftir því að til stæði að flytja valdið til í þessu samfélagi. En það sem er á dagskrá í þeim efnum, virðulegur forseti, er ekki fyrst og fremst að samræma aðgerðir lögum samkvæmt eins og þetta frv. fjallar um, heldur að flytja valdið frá Alþingi Íslendinga --- ekki suður, heldur út og suður, þ.e. í sambandi við þær umræður sem nú eru í undirbúningi varðandi hið svokallaða evrópska efnahagssvæði. Ég hef ekki orðið var við miklar áhyggjur frá hv. þm. Framsfl. í sambandi við þær fyrirætlanir. Þær snerta væntanlega nokkuð lagasetningu á Íslandi og stöðu manna hér á Alþingi, að ég nú ekki tali um landsbyggðina. Og það væri kannski meiri ástæða til að menn færu að setja sig inn í þá þætti mála en vera að hvessa sig hér í ræðustóli á Alþingi út af frv. af þessum toga. Þó er auðvitað sjálfsagt að athuga sinn gang í sambandi við öll þau mál sem eru á dagskrá og hér fara fram.
    Ég veit ekki hvort hv. þm. hefur tekið eftir því hvað felst í þeim aðgerðum, væntanlegum, sem felast í samningsgrundvelli um hið evrópska efnahagssvæði. Það snertir líka umhverfismálin á Íslandi, það snertir atvinnumálin á Íslandi og efnahagsmálin á Íslandi. Hugmyndin er að taka verulegan hluta þeirra mála sem hafa verið til umræðu á Alþingi og lög hafa verið sett um hér og flytja valdið yfir þeim málum til stofnunar úti í löndum. Það væri kannski ástæða til þess að hv. alþm. færu að átta sig á því hvað þar er á ferðinni. Meiningin er
að taka upp lagagrundvöll sem þegar hefur verið lögfestur í Evrópubandalaginu, ekki á þingum heldur í þeim ólýðræðislegu stofnunum sem þar setja lög. Menn hafa verið að ganga inn á þann grundvöll, margir hv. þm., að styðja fyrirætlanir þar að lútandi. Það varðar drjúgan hluta af lagasafni Íslands sem ekki verður hreyfanlegur ef þau ákvæði verða bundin í lög sem þar eru á dagskrá og varðar talsvert mikið þróun mála í þessu landi í tíð komandi kynslóða ef farið verður að njörva þau efni niður í samningi, lögfestum samningi sem þar er á dagskrá.
    Ég gat satt að segja, virðulegur forseti, ekki látið hjá líða að vekja athygli á þessu vegna þess hvernig gustaði frá hv. ræðumanni, Ólafi Þ. Þórðarsyni, út af því máli sem hér er á dagskrá. Mér sýnist að það sé á nokkrum misskilningi byggt hjá hv. þm. að um mikla valdatilfærslu sé að ræða frá því sem er í gildandi lögum. Ég hef að vísu ekki sökkt mér niður í þetta mál sérstaklega en mér sýnist að þar sé fyrst og fremst verið að tryggja samræmingu varðandi

ákvæði í löggjöf þess efnis að Hollustuvernd ríkisins geti komið við athugasemdum þar sem hún þegar, lögum samkvæmt, fjallar um og fái þar hliðstæða stöðu og aðilar í heilbrigðisnefndum vítt um landið. Þetta er það sem ég hef skilið sem inntakið í þessu sem hér er verið að ræða en það kann að vera að það felist í því einhver tilfærsla á valdi, ég hef ekki sett mig inn í það í einstökum atriðum. En það væri hollt fyrir hv. þm. og aðra alþm. að átta sig á því hvað er í bígerð á vegum stjórnvalda í sambandi við hið evrópska efnahagssvæði að því er snertir valdastöðu Alþingis gagnvart útlöndum í sambandi við öll meginmál sem snerta þróun í þessu þjóðfélagi.