Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit
Miðvikudaginn 14. febrúar 1990


     Matthías Bjarnason:
    Herra forseti. Þetta frv. um breytingu á lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit lætur ekki mikið yfir sér og er ekki mikið að vöxtum. Í sannleika sagt skil ég ekki þau snörpu viðbrögð hv. 2. þm. Austurl. hér áðan út af ræðu hv. 2. þm. Vestf. Það er alveg satt og rétt hjá hv. 2. þm. Austurl. að það ber að ræða til fulls og hugleiða allar breytingar sem einstaka menn vilja leggja til varðandi það að minnka áhrif Alþingis og auka vald Evrópubandalagsins. En í þessu frv. kemur ekkert slíkt í ljós, svo að ég sé ekki ástæðu til þess að hnýta þessi tvö mál þannig saman.
    Í öllum meginatriðum er ég sammála hv. 2. þm. Vestf. í hans athugasemdum varðandi þessa breytingu á lögunum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. Ég sé enga ástæðu til að auka vald miðstýringarinnar í þeirri stofnun sem fjallar um þessi mál, ekki nokkra. Heilbrigðisnefndir í héruðum hafa ákveðnar skyldur og það eru auðvitað þær sem eiga að sinna þessum skyldum. Vitaskuld verður á hverjum tíma að vera náið samstarf milli heilbrigðisnefnda og Hollustuverndarinnar í þessum efnum.
    Ég tek undir það sjónarmið hv. 2. þm. Vestf. að það er alveg nóg um þessar bílferðir vítt og breitt um landið frá höfuðbækistöðvum stofnana hér í Reykjavík. Það má gjarnan fara að nota betur það fólk sem víða er úti um landið og á að sinna þessu hlutverki. Ég stóð heils hugar að stofnun Hollustuverndarinnar á sínum tíma. En það er alveg eins með þá stofnun og aðrar að hún verður að gæta hófs í því að vera ekki að senda sendimenn um allt landið og senda svo reikninga í fjmrn. fyrir ferðum, það verður að nota betur starfsmennina sem eru úti um landið. Þess vegna tel ég að athugasemd hv. 2. þm. Vestf. eigi fullan rétt á sér.
    Hins vegar harma ég það, herra forseti, að ráðherra sá sem leggur þetta frv.
fram skuli ekki vera viðstaddur umræðu málsins þegar það kemur frá nefnd til þess að geta gefið frekari skýringar ef hann hefði athugasemdir fram að færa við ræðu hv. 2. þm. Vestf. Ég styð hans málflutning í þessu máli og mun greiða atkvæði í samræmi við það.