Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit
Miðvikudaginn 14. febrúar 1990


     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Þessi umræða sem nokkrir þm. stjórnarflokkanna hafa hafið hér í tilefni af flutningi stjfrv. er um margt fróðleg. Fyrst vil ég segja það að eins og stundum áður þykir mér að hv. 2. þm. Vestf. geri eðlilegar athugasemdir við framkvæmd stjórnarstefnunnar. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hv. þm., einn af aðaltalsmönnum Framsfl. í efnahagsmálum, gerir athugasemdir hér á hinu háa Alþingi við stjórnarstefnuna og framkvæmd hennar. Að þessu sinni tek ég, eins og stundum áður, heils hugar undir þær athugasemdir. Ég lít svo á að eðlilegt sé að gera við það alvarlegar athugasemdir þegar fram koma tilhneigingar til aukinnar miðstýringar. Ekki síst þegar ljóst má vera að það getur veikt framkvæmdaaðila opinbers valds á landsbyggðinni í ljósi þess að um þessar mundir þurfa menn miklu fremur að huga að því að treysta það vald, auka valddreifingu og ábyrgð þeirra sem fara með opinbert vald á landsbyggðinni. Í því ljósi finnst mér athugasemdir hv. 2. þm. Vestf. gegn stjórnarstefnunni mjög eðlilegar og nauðsynlegt að þær komi fram.
    Auðvitað er ekki unnt að fjalla um þetta mál eins og það kemur fyrir öðruvísi en að vekja á því athygli hvernig stjórnarflokkarnir standa að undirbúningi mála. Stjórnarþingmenn fara í hávaðarifrildi út af málum eins og þessu. Það lýsir býsna vel ástandinu í þeim efnum og hvernig staðið er að undirbúningi mála. Það er athygli vert að hv. 5. þm. Norðurl. v. skuli í einu og öllu taka undir og gerast hér talsmaður þeirra sjónarmiða að auka á miðstýringu og draga úr ábyrgð þeirra opinberu starfsmanna sem fara eiga með eftirlitshlutverk á landsbyggðinni. Það er athygli vert að hann skuli gerast talsmaður þeirra sjónarmiða.
    Hitt er svo mjög sérstætt við þessa umræðu um heilbrigðiseftirlit að hv. 2. þm. Austurl., einn af aðaltalsmönnum Alþb. í utanríkismálum, skuli nota þetta
tilefni til að gera árás á ríkisstjórnina og stjórnarliðið vegna þess að það viti ekki hvert það sé að fara í samningaviðræðum á vegum EFTA við Evrópubandalagið. Það eru aldeilis upplýsingar þegar einn helsti sérfræðingur Alþb. í utanríkismálum upplýsir hér að ætla megi að hvorki ríkisstjórnin né þingflokkar stjórnarliðsins viti hvert ríkisstjórnin er að stefna í þeim samningum. Fram að þessu hefur því verið haldið fram fullum fetum af hæstv. utanrrh. að full samstaða sé innan ríkisstjórnarinnar um aðildina að þessum viðræðum og hvert ríkisstjórnin er að stefna í þeim efnum. Og undir það hefur verið tekið af hæstv. fjmrh., sem nú býr sig undir að ganga úr salnum þegar umræða um þessi efni hefst, að full samstaða sé í ríkisstjórninni um að halda þeim umræðum áfram á þeim grundvelli sem lagður hefur verið.
    Öllum er ljóst að það sem er að gerast í því efni er að Íslendingar eru, ásamt með öðrum EFTA-þjóðum, að ræða um það hvernig þær þjóðir eigi að tengjast löggjöf um innri markað

Evrópubandalagsins, löggjöf sem þegar er búið að setja af þeim ríkjum. Það er ekkert nýtt. En það er nýtt þegar þessi áhrifamaður í stjórnarflokkunum varpar því hér fram að þm. stjórnarflokkanna viti ekki hvert hæstv. ríkisstjórn er að stefna í þessu efni. Það er ástæða til þess, svo sannarlega, að taka þær upplýsingar alvarlega og knýja á um það af hálfu hæstv. ríkisstjórnar hvað hún veit um þær viðræður eða á hvern veg þm. stjórnarflokkanna hafa verið upplýstir í því efni.
    Við sjálfstæðismenn gerðum það að umtalsefni hér í umræðum um Evrópubandalagið og undirbúningsviðræður EFTA við Evrópubandalagið að Alþingi þyrfti að marka stefnu þar að lútandi svo það væri alveg ljóst, bæði Alþingi og íslensku þjóðinni, hvert væri verið að fara, og ekki væri verið að draga fjöður yfir eitt eða neitt eða dylja einn eða neinn neins. Hæstv. ríkisstjórn kom í veg fyrir það og allir þm. stjórnarflokkanna bera ábyrgð á því. Hv. 2. þm. Austurl. hefur varið þessa ríkisstjórn með atkvæði sínu hér á Alþingi og ber þess vegna fulla ábyrgð á því að ríkisstjórnin kom í veg fyrir að slík stefnumörkun og markmiðslýsing yrði samþykkt á Alþingi Íslendinga, þannig að menn vissu nákvæmlega hvert væri verið að stefna. En það var ósk okkar sjálfstæðismanna að svo yrði gert. Hv. 2. þm. Austurl. ber sömu ábyrgð og aðrir þm. stjórnarflokkanna á því að ríkisstjórnin kom í veg fyrir það. Kannski var komið í veg fyrir það af þeim sökum að einhverjir af ráðherrum ríkisstjórnarinnar hafi haft grunsemdir um að óeining væri innan stjórnarliðsins eða ekki full samstaða um það hvernig ætti að halda á málinu og hvert ætti að stefna. Ræða hv. 2. þm. Austurl. gefur ærið tilefni til að varpa spurningum fram þar að lútandi og óska eftir svörum, þó ég geti tekið undir það að býsna skondið sé að hefja slíka umræðu undir þessum dagskrárlið. En þm. stjórnarflokkanna hafa nú tamið sér það að standa hér upp á hinu háa Alþingi í þingskapaumræðum og með hvers kyns útúrdúrum við þingsköp til þess að varpa fram ágreiningi sín á milli þannig að það er út af fyrir sig ekki nýtt af nálinni.
    En kjarni málsins er sá að einn af talsmönnum stjórnarflokkanna, hv. 2. þm. Vestf., hefur vakið hér réttilega athygli á þeirri stefnumörkun sem í þessu frv. felst og lýtur að aukinni miðstýringu. Ástæða er til að taka undir
athugasemdir hans og gefa því gaum að meiri þörf er á því nú en nokkru sinni fyrr að stuðla að meiri valddreifingu og aukinni ábyrgð þeirra sem fara með opinbert vald á landsbyggðinni.