Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit
Miðvikudaginn 14. febrúar 1990


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Virðulegi forseti. Það er rétt sem fram kom hjá hv. 5. þm. Norðurl. v. að umræða þessi hefur farið nokkuð um víðan völl. Það er e.t.v. að bera í bakkafullan lækinn að ætla aftur að fara að ræða um efni þessa frv. sem hér er á dagskrá og ég hélt að væri umræðuefnið í dag.
    En ég ætla að leyfa mér að gera það samt og finnst raunar furðuleg þau ummæli seinasta ræðumanns, hv. 1. þm. Suðurl., að tala um að hér sé verið að ræða, að ég held stjórnarstefnu í efnahags- og utanríkismálum, ef ég skildi hluta af hans ræðu rétt, og að hér væri verið að taka á málum á þann hátt að stórlega væri aukin miðstýring og ég veit ekki hvað og hvað. Reyndar hafa fleiri hv. ræðumenn vikið að því einnig. Ég vísa því algerlega á bug og vil leyfa mér að lesa úr greinargerð þessa frv. eins og eina málsgrein þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Í þeim tilvikum, þar sem heilbrigðisnefndir fara með eftirlitið, geta þær beitt ýmsum ráðstöfunum til þess að knýja á um framkvæmdir eða til þess að látið verði af starfsemi, sbr. nánar 27. gr. áðurnefndra laga. Í þeim tilvikum, þar sem Hollustuvernd ríkisins fer með eftirlitið, er engum slíkum lagafyrirmælum til að dreifa þannig að heilbrigðisnefndir hafa þurft að grípa til ráðstafana vegna eftirlits sem Hollustuvernd ríkisins er falið. Þetta er á allan hátt óeðlilegt, ekki síst þar sem hlutaðeigandi sveitarfélög hljóta að bera ábyrgð á aðgerðunum án þess að starfsmenn þeirra, þ.e. heilbrigðisnefndir og heilbrigðisfulltrúi í þessu tilviki, hafi lagt dóm á málið. Þannig fer ekki saman raunveruleg ákvörðunartaka og framkvæmd ráðstöfunar.``
    Þetta er í mínum huga afar einfalt og skýrt og ég skil ekki hvernig menn hafa í raun flækt þessu í umræðunni á undarlegan máta. Og það er alveg ljóst, eins og kemur fram í seinustu málsgrein í greinargerð frv., að Hollustuverndinni er lögum skv. falið í undantekningartilvikum ákveðið
eftirlitshlutverk og einnig í sérstökum tilvikum með samkomulagi ef slíkt samkomulag er gert við heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna.
    Á sama hátt er reyndar hægt að snúa þessu við og fela heilbrigðisnefndum sveitarfélaganna að annast hlutverk sem Hollustuverndin hefur þó í einhverjum tilvikum einnig tekið að sér að annast. Slíkt mál er einmitt til umræðu núna milli heilbrrn. og Hollustuverndar annars vegar og heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðarkaupstaðar hins vegar, þ.e. að færa ákveðinn hluta eftirlits til heilbrigðiseftirlits sveitarfélags í því tilviki. Ég sé ekki annað en að hér sé um mjög eðlilegan hlut að ræða og menn geti staðið að málum á þann hátt að þar geti verið um gagnkvæm verkaskipti, ef það má orða það svo, að ræða í þessu tilviki. Heilbrigðisnefndum sveitarfélaganna er auðvitað treystandi fyrir nánast öllu þessu eftirliti. Það eru einstaka sérhæfðar mælingar og rannsóknir sem þarf að framkvæma sem

Hollustuverndinni hefur verið falið að vinna. Hlýtur að vera eðlilegt að það sé gert á einum stað en ekki verið að byggja upp rannsóknaraðstöðu og sérhæft eftirlit á mögum stöðum og með ærnum kostnaði. Þetta hlýtur líka að vera hagsmunamál sveitarfélaganna algerlega óskylt því sem menn venjulega kalla að öðru leyti miðstýringu.
    Þess vegna vona ég að þetta litla frv., sem er lagfæring á framkvæmd mála varðandi verkefni sem lög að öðru leyti kveða á um og skipta milli Hollustuverndar ríkisins annars vegar og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga hins vegar, geti orðið að lögum á þessu þingi og auðvitað helst sem fyrst. Má nánast segja að hér hafi verið um mistök að ræða í lagasetningunni í upphafi að þetta skyldi ekki vera skýrt tekið fram strax í upphafi.