Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit
Miðvikudaginn 14. febrúar 1990


     Friðjón Þórðarson:
    Herra forseti. Þar sem umræður um þetta, ja við getum kallað það smámál, hafa farið svo mjög út um víðan völl er kannski ekki úr vegi að gera tvær stuttar athugasemdir almenns eðlis sem e.t.v. yrði tekið eftir.
    Í fyrsta lagi tel ég fyllstu ástæðu til þess að fólk úti um landsbyggðina sé vel á verði gegn því að einhverjir aðilar séu ,,sendir að sunnan`` með æðsta lokunar- og innsiglisvald, að segja má, í ýmsum efnum. Heima fyrir í héruðunum eru bæði nefndir og ráð og embættismenn sem hafa eða geta haft þetta vald sem er náttúrlega mjög viðkvæmt. Fer vel á því að slíkar aðgerðir fari um hendur þeirra að öðru jöfnu.
    Í annan stað, og það er af allt öðrum toga en kom þó hér fram í umræðunum, tel ég að við Íslendingar þurfum að vera vel á verði þegar við erum að undirrita alþjóðasamninga, sem oft eru mjög flóknir og viðamiklir, til þess að við komumst ekki að því eftir á að í samningum sem við höfum undirritað eða staðfest kunni að leynast atriði sem e.t.v. verða til þess að talið er nauðsynlegt að kollvarpa íslenskri löggjöf sem staðið hefur um aldir og reynst vel.