Bann við förgun matvæla
Miðvikudaginn 14. febrúar 1990


     Flm. (Ásgeir Hannes Eiríksson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um bann við að farga matvælum. Kjarni málsins er sá að banna á að fleygja matvælum á Íslandi, urða þau, brenna, kasta í sjó innan fiskveiðilögsögu, eða í ár og vötn, eða farga þeim á annan hátt hverju nafni sem nefnast.
    Duttlungar örlaganna hafa hagað því þannig að nýr flötur kom upp á þessu máli fyrir nokkrum dögum og er enn í brennidepli, en það er að fleygja íslenskum matvælum til útlanda. Við erum núna að fleygja dilkakjöti fyrir um 300 millj. um borð í skip til þess að fleygja því svo endanlega ofan í rúmenska þjóð. Hún hefur hins vegar lýst því yfir að hún vill ekki kjötið og lái henni það hver sem vill að afkomendur blóðsuganna í Karpatafjöllum vilji ekki frosið, þurrt íslenskt kjöt. Það er svo önnur spurning.
    Við Íslendingar erum vanir þessu kjöti. Okkur þykir þetta kjöt gott, en frekar en að leyfa okkur að njóta þess á vægara verði en ella eða frítt er kjötinu fleygt til Rúmeníu. Má í þessu sambandi benda á að til er breskur málsháttur sem segir: ,,Charity begins at home``. Vil ég leyfa mér að yfirfæra hann hingað í þingsali á þann hátt að gjafir af þessu tagi er best að byrja að gefa hér heima fyrir, áður en við förum að gera þær að útflutningsvöru.
    Það er líka viðurkennt meðal þeirra sem fengist hafa við aðstoð við önnur lönd sem talin eru þurfandi á hverjum tíma að gjafir af þessu tagi koma ekki að fullum notum. Ef við viljum gera vel við þjóð sem við teljum að sé eftirbátur í samfélagi þjóðanna, þá eigum við að hjálpa henni til þess að fóta sig. Við eigum þá að aðstoða hana við að koma upp sínum eigin fjárstofni eða einhverju öðru sem heldur áfram að bera ávöxt í landinu en ekki að vera með þessa sýndargóðmennsku að rétta þeim kjöt sem við erum í vandræðum með hér heima og bíður þess eins að verða fleygt á haugana.
    Kunningi minn sigldi lengi á norskum skipum og sagði mér þessa sögu. Seinna kom hann til Nígeríu á íslensku skipi með gjafaskreið og hitti þar gamla skipsfélaga sína sem voru á norska flotanum. Þeirra skip átti að leggja úr höfn daginn eftir og farmur þeirra reyndist vera íslenska gjafaskreiðin sem fara átti á erlendan sölumarkað. Þannig var Nígería í raun aðeins lestunarstaður fyrir brask með gjafavöru frá fjarlægu landi. Þessi hætta blasir alltaf við þegar menn eru að gefa gjafir sem þeir ná ekki að fylgja úr hlaði.
    Eins og ég sagði áðan, þá er kjarni þessa máls að það er bannað að fleygja matvælum á Íslandi. 1. gr. frv. hljóðar svo:
    ,,Bannað er að fleygja matvælum á Íslandi, urða þau eða brenna, kasta í sjó innan fiskveiðilögsögu, eða í ár og vötn, eða farga þeim á annan hátt hverju nafni sem nefnast.``
    Í 2. gr. er nánar útskýrt hvað átt er við með orðinu matvæli í lögunum og í 3. gr. segir m.a.: ,,Bannað er að farga matvælum skv. 2. gr. til að halda uppi verði þeirra til neytenda, vinnslustöðva, kaupmanna og

annarra, eða til að rýma til fyrir nýjum birgðum.``
    Enn fremur: ,,Bannað er að farga sjávarafla sem veiddur er af áhöfnum fiskiskipa hvers konar sem hafa leyfi íslenskra stjórnvalda til fiskveiða og löndunar hér á landi. Bannið gildir um hvers konar sjávarfang sem berst um borð í veiðiferðum skipanna og allt bendir til að sé boðleg söluvara til íslenskra neytenda eða til útflutnings. Með allan veiddan afla ber að koma að landi.``
    Og enn fremur segir í 3. gr.: ,,Á sama hátt er bannað að farga öllum öðrum matvælum nema til að losna við ónýta neyslu- eða söluvöru, enda sé það verk unnið samkvæmt úrskurði heilbrigðisfulltrúa, dýralækna, fiskmatsmanna`` o.s.frv.
    Í 4. gr. segir: ,,Ef framleiðandi, ræktandi eða kaupmaður matvæla eða annar leyfishafi stendur frammi fyrir því að birgðir af matvælum hlaðast upp án þess að hann nái að selja þau á frjálsum markaði ber honum að gefa neytendum kost á að bjóða í vöruna á meðan hún er enn söluhæf.`` Þetta er kjarni málsins. Að matvælum sé ekki fleygt heldur landsmönnum gefinn kostur á að kaupa þau fyrir lítinn pening.
    Síðan er 6. gr. um viðurlög og 7. gr. um að lög þessi öðlist þegar gildi.
    Ástæðan fyrir því að þetta frv. er hér lagt fram er sú að að mati flm. er það glæpsamlegt að fleygja mat. Frv. er flutt til þess að sporna við því að matvælum sé fleygt til þess að halda uppi verði og til að koma í veg fyrir að afla sé kastað fyrir borð eða matvælum fargað í öðrum tilgangi en að losna við ónýtan mat. Íslendingar hafa að vísu nóg að bíta og brenna í augnablikinu, en það er stutt síðan matur var munaður hér á landi og það er óvíst hvað framtíðin ber í skauti sér í þeim efnum. Margt eldra fólk man tímana tvenna í þessu sambandi og þegar það hefur gerst hér á landi, sem því miður er miklu algengara en maður skyldi halda, að matvæli hafa verið ýmist urðuð á öskuhaugum eða fargað á annan hátt. Fjölmiðlar eða aðrir hafa stundum komist á snoðir um það og almenningur hefur fengið um það vitneskju, þá veit eldra fólk enga stærri synd en að fleygja mat og yngra fólki blöskrar reyndar líka. Hún
er rík í þjóðinni, þessi tilfinning, að matvælum eigi undir engum kringumstæðum að fleygja. Fólk trúir í rauninni hvorki eigin eyrum eða augum þegar því berst þessi vitneskja að það sé verið að fleygja mat, boðlegum mat fyrir milljónir og aftur milljónir, urða hann á haugum án þess að nokkur maður fái notið góðs af honum.
    Vinnslustöðvar og aðrar stöðvar framleiðenda hafa gert þetta eingöngu í því skyni að halda matarverðinu uppi og á þó fólkið nógu erfitt með að kaupa matinn fyrir. Sjálfur hef ég orðið vitni að því í mjólkursamlagi einu hér á landi að í heilan dag stóðu þrír starfsmenn við að hella niður rjóma, hella niður fullkomlega boðlegum rjóma af því að dagsetning síðast söludags var um það bil að renna út. Það mátti ekki selja hann næsta dag á eftir. Ég smakkaði á mörgum fernum af þessum rjóma þann tæpa

klukkutíma sem ég stoppaði og ég fann ekkert athugavert við rjómann. Þess vegna hlýtur spurningin að vakna: Er ekkert hægt að gera annað við þennan rjóma en að fleygja honum? Það er hægt að frysta rjóma. Það er hægt að geyma rjóma. Það er hægt að gefa einhverjum rjóma. Það er hægt að leyfa einhverjum að njóta góðs af þessum rjóma, ekki bara fleyta rjómann ofan af til þess að halda verðinu uppi þannig að framleiðendur sætti sig við. Verðið á ekki að ráðast af því. Verðið á að ráðast af því sem fólkið vill borga fyrir rjómann, svo einfalt er það nú. Og ef menn treysta sér ekki til þess að framleiða rjóma á því verði, þá verður einfaldlega að kaupa rjómann frá einhverjum öðrum löndum. Svo einfalt er það.
    Matvæli eru nefnilega dýr hér á landi, þau eru feiknalega dýr. Ofan á hið háa kostnaðarverð, hið háa framleiðsluverð, kemur ranglátur matarskattur sem er einhver svívirðilegasti skattur sem hægt er að leggja á því að hann bitnar mest á þeim sem minnst mega sín. Matur er nauðsyn. Allar siðaðar þjóðir stefna að því að hafa matvæli ódýr en munaðinn dýran, skattleggja munaðinn. Hafa matinn ódýran og skattleggja eitthvað annað sem er ekki nauðsynlegt til þess að halda lífi.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja mál mitt mjög, en ég vil að lokum segja það að ég viðurkenni fúslega að of mikill matur er jafnslæmur og of lítill matur. Ofát er jafnslæmt og sultur. Best er að sjálfsögðu meðalhófið. Engum manni er heldur gerður greiði með því að fleygja mat ofan í sig eins og því miður er allt of algengt. Menn eru ekki sorpílát. Hér þarf að finna meðalhófið og það finnst best með því að framleiðslan sé aldrei meiri en eftirspurnin, þá þurfum við ekki að fleygja mat. Og ef við stöndum frammi fyrir því að þurfa að fleygja mat, þá verði fólkinu í landinu gefinn kostur á að kaupa þann mat á hóflegu verði eða gefinn maturinn, frekar en að fleygja honum. Alla vega eru þær öfgar að fleygja óskemmdum mat á öskuhauga fjarri því að vera meðalhóf í þessu máli.
    Að svo mæltu mæli ég með að þessu frv. verði vísað til allshn. og 2. umr.