Gleraugnakaup barna og unglinga
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Málmfríður Sigurðardóttir):
    Virðulegur forseti. Ég þakka ráðherra svör hans og fagna því að heyra um þessi jákvæðu viðhorf nefndarinnar um endurskoðunina en óneitanlega vaknar hjá manni sú spurning, ef ekkert hefur verið í lögunum sem hindrar að þetta hafi verið tekið upp, hvers vegna það hefur þá ekki verið gert.
    Það er nú svo að það er að verða áratugur síðan þessi endurskoðunarnefnd hóf störf sín og þingmenn eru óneitanlega orðnir svolítið leiðir á að heyra sífellt vísað til þess að brýnar leiðréttingar sem þeir hafa borið fram, lagafrv. og tillögur um breytingar á almannatryggingalögunum megi alltaf bíða. Það er nefnilega þannig að þeir eiga ekki alltaf sama aðgang að hlutunum hann Jón og hann séra Jón. Hér var lagt fram stjfrv. í vetur á þskj. 260 um breytingu á almannatryggingalögunum og það gekk í gegn eins og skot. Það var samþykkt og afgreitt umtölulaust. Þingmannafrv. um brýn mál hafa hins vegar legið í salti um árabil. Í stjórnarsáttmálanum stendur að þessari endurskoðun átti að ljúka um mitt sl. ár svo að menn eru nú að verða ofurlítið vantrúaðir á að þetta komi nú fram þrátt fyrir góð orð ráðherra. Ekki dreg ég í efa vilja hans til að koma fram nauðsynlegum breytingum á almannatryggingalögunum en það gengur ekki öllu lengur að vísa sífellt í þessa endurskoðun. Menn verða að fara að sjá hana. Þingmenn hljóta að krefjast þess að þetta nýja lagafrv. um almannatryggingalög fari að líta dagsins ljós svo að menn sjái hvaða meðferð þau mál hafa fengið þar sem þeir hafa borið fyrir brjósti á undanförnum árum og lagt fram til leiðréttingar og viðauka við þau annars góðu lög sem við höfum. En það er lengi hægt að bæta það sem gott er.